Leiðsögumaðurinn tók bestu myndirnar af hlaupinu
4.10.2015 | 12:28
Frammistaða fjölmiðla í frásögnum af hlaupinu í Skaftá og Eldvatni er yfirleitt góð. Hins vegar er gagnslítið að birta hreyfimyndir þar sem myndatökumaðurinn beinir linsunni ofan í strauminn og súmmar inn. Þetta verða afar ljótar og lítt upplýsandi myndir. Ekki síður þegar ljósmyndarar iðka sama leik, nota aðdráttinn til að magna upp hamfarirnar (sem oftar en ekki eru kallaðar því ofnotaða orði sjónarspil). Þannig er hægt að búa til magnaða mynd af því sem oft er ekkert annað en gutl í ánni.
Um helgina var sagt frá því að hætta væri á því brúin yfir Eldvatn gæti fallið. Birtar voru myndir í fjölmiðlunum af brúnni.
Margir fjölmiðlar voru með fréttamenn og ljósmyndara á staðnum en misjafn var árangurinn.
Efstu myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson, reyndur og afar góður blaðamaður Morgunblaðsins. Því miður er hún alls ekki nógu góð. Á henni sést eiginlega ekkert athugunarvert nema rýnt sé í hana og vitað eftir hverju er verið að leita. Fyrirsögn fréttarinnar með myndinni virkaði því út í hött. Brúarendinn stendur út í loftið, sem raunar var kolrangt, brúarendinn var landfastur en grafist hafði undan hluta af stöplinum.
Næsta mynd birtist á visir.is og er greinilega klippa úr annarri. Myndin er hins vegar nokkuð góð og sjá má að það loftar undir stöpulinn og í því er hættan fólgin.
Þessa mynd gat visir.is tók ekki blaðamaður eða ljósmyndari heldur bjargaði leiðsögumaðurinn, Ingibjörg Eiríksdóttir, fjölmiðlinum.
Síðasta myndin er á ruv.is og er eiginlega besta myndin, mjög lýsandi og sér yfir umhverfið auk þess að sýna stöpulinn. Raunar er þetta sama myndin og birtist á visir.is og ljósmyndarinn landvörðurinn sem fyrr var nefndur.
Merkilegt er hversu oft almenningur útvegar fjölmiðlum myndir, þetta tilvik er fjarri því einsdæmi.
Svo er það framsetningin á fréttum af svona viðburðum í náttúrunni. Mjög mikilvægt er að birta kort. Stórt yfirlitskort er nauðsynlegt heldur líka smærri. Þau þurfa að vera lýsandi, auðskilin, með örnefnum, vegum og bæjarnöfnum. Margir tóku eftir því hversu lengi kort voru að birtast í fjölmiðlum. Fólk sem ekki er með landafræðina á hreinu veit hreinlega ekki hvað þetta Eldvatn er, stöðuvatn eða fljót, eða í hvora áttina það rennur. Þessar upplýsingar vantaði víðast í fjölmiðlum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.10.2015 kl. 17:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.