Styttri vinnutími og frímínútur eru alltaf til góða

Svíar hafa gert tilraunir með styttri vinnudag áður en oftar en ekki hafa þær tilraunir verið gerðar í einkageiranum, en ekki þeim opinbera. Sex klukkustunda vinnudagur var tekinn upp hjá Toyota í Gautaborg fyrir þrettán árum og þótti það gefa svo góða raun að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki einu sinni íhugað að lengja vinnudaginn aftur.

Ofangreind tilvitnun er í dv.is. Vinnudagurinn er skrýtinn fyrir marga. Sumir hafa ótrúlega mikið að gera allar átta klukkustundir dagsins en aðrir minna. Ábyrgð fólks er enda mismikil og fer eftir verkefnunum.

Stundum hefur flögrað að mér að vinnutíminn minn ætti að vera þrjár klukkustundir. Ég sit fyrir framan tölvu daginn út og inn og á tíðum klárar maður verkefni dagsins á örskömmum tíma. Á eftir tekur við bölvað hangs og kjaftæði. Betra væri að fara hreinlega heim heldur en að sitja við það sem ekkert er.

Margir rithöfundar eru á þessari skoðun. Þegar þeir eru komnir á skrið er sagt að daglegt hámark sé að skrifa að meðaltali fjórar blaðsíður á dag, hugsanlega á þremur klukkustundum. Eftir það þarf heilinn hvíld frá skrifum og annað tekur við.

Átta klukkustunda vinnudagur er krefjandi og jafnvel slítandi. Þess vegna hafa til dæmsi mörg tölvufyrirtæki byggt upp afþreyingu fyrir starfsmenn sína. Nefna má Apple og Google og þar eru jafnvel hvíldarherbergi út um allt. Stjórnendur gera sér grein fyrir því að hugurinn þarf hvíld, frímínútur, eins og sagt er í skólanum. Eftir tiltölulega stutta hvíld verður hugurinn ótrúlega fljótt skarpur á ný.

Ég man að faðir minn kom oft heim í hádeginu, fékk að borða og lagðist á dívaninn, og dottaði yfir fréttunum. Eftir það var hann ferskur og hress og ábyggilega miklu skárri í vinnunni en ella. Þetta var lenska hér á árum áður ekki síst á úti á landi. Klukkutíma matarhlé var víðast í frystihúsum í litlum bæjarfélögum úti á landi og flestir gengu heim, borðuðu og fengu sér lúr.

Í stjórnun er til hugtakið „að brenna út“. Þá er átt við þann vegg sem margir lenda á eftir langa og hvíldarlitla vinnu mánuðum eða jafnvel árum saman. Skyndilega er sem ofurþreyta leggst á fólk, það verður kærulaust og hugmyndasnautt. Margir hafa kynnst þessu.

Oft tekur langan tíma að ná sér eftir þannig ástand og því er leitast við að komast hjá því. Það er einungis hægt með því að gefa huganum stutta og langa hvíld frá verkefnum dagsins. Að öðrum kosti byggist upp þreyta, stress og því fylgja ýmsir líkamlegir kvillar eins og vöðvabólga.

Sex stunda vinnudagur er ábygglega mjög góður. Þegar ég var við nám í Ósló á níunda áratug síðustu aldara var mikið rætt í fjölmiðlum um styttri vinnudag. Þá var áhyggjuefnið að þar sem það hafði verið reynt breyttustu skyndilega aðstæður. Óvænt tengslu fundust á milli heimilisofbeldis og skemmri vinnutíma. Ekki er lengra síðan en að fólk á miðjum aldri, sérstaklega karlmenn, höfðu engin áhugamál, brauðstritið var þeim allt. Þegar heim var komið um miðjan dag kunnu hjón ekki að tala saman eða eyða tímanum saman og sambandið endaði í tómri vitleysu.

Sem betur fer eru nú komnar nýjar kynslóðir sem hafa ógrynni áhugamála og góðar aðstæður til að nýta sér þau. Þar af leiðandi er nú lítil hætta á að karlar hafi ekkert þarfara að gera eftir vinnu en að berja konurnar sínar og jafnvel börn, eins og það var einu sinni svo ónærfærnislega orðað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband