Holland-Ísland, veggtennis með fótbolta

BoltiVeggtennis er merkilegt sport. Leikurinn gengur út á að slá tuðru með tennisspaða í vegg og andstæðingurinn á að ná boltanum og gera eins. 

Þegar maður var á aldrinum fimm til fimmtán ára gekk allt út á fótbolta í tilverunni. Þá var sparkað hvar sem auðan blett var að finna og þeir voru miklu fleiri í borginni í þann tíð en núna. Oftast var skipað þannig í lið að tveir voru valdir sem fyrirliðar og þeir völdu sitt á hvað. En það var ekki alltaf svoleiðis, stundum var skorað á einhverja stráka og þeir voru auðvitað taldir aumingjar ef þeir tóku ekki áskoruninni. Stundum voru þeir sem á var skorað aumingjar og stundum töpuðum við ... eins aumingjar.

Einn strákur gat auðvitað ekki keppt við neinn nema sjálfan sig og þá var um að gera að finna vegg og sparkað boltanum í hann svo að segja stanslaust eða þangað til að einhver birtist sem hægt væri að leika við. Þetta var svona sparktennis með fótbolta. Jafnvel tveir gátu spilað á móti hvorum öðrum. Því miður gat boltinn hrokkið aldeilis óvart í gluggarúðuna við hliðina á auða veggnum. Þá var leiknum sjálfhætt og á stundum löngu fyrr, þegar einhver íbúi kom hlaupandi út með hnefann á lofti og hótaði öllu illu. Sumir skilja bara ekki fótbolta.

Og nú kem ég loksins að máli málanna. Allir eru að tala um landsleikinn við Hollendinga í fótbolta á fimmtudaginn. Höfum eitt á hreinu, Hollendingar eru í 12 sæti heimslistans. Ísland er í ... já, sko, 24 sæti. Maður tekur eftir því að strákarnir okkar eru til dæmis ofar en Danir, Bandaríkjamenn, Skotar, Svíar, Japanir og Norðmenn, en landslið þessara þjóða þurfa ekkert sérstaklega góðan dag til að vinna litla Ísland.

Auðvitað vinnum við Hollendinga ... að minnsta kosti vona ég það ... held að við náum alla vega jafntefli ... held þó að leikurinn verði ansi jafn ... hvernig sem úrslitin verða eru þau sigur fyrir okkur ... áfram Ísland ...

Já, já ... við vinnum, annað hvort erða nú. Eða þannig ...

Samt er ég ansi hræddur um að leikurinn verði dálítið eins og veggtennis eða þegar maður sparkar bolta í vegg.

Sko, landsliðið okkar er veggurinn, það liggur í vörn. Fyrir framan eru stórskyttur eins og  Luuk de Jong (PSV), nýja stjarnan Memphis (Manchester United), Klaas-Jan Huntelaar (Schalke 04), Luciano Narsingh (PSV), Quincy Promes (Spartak Moscow), Arjen Robben (Bayern Munich) og Robin van Persie (Fenerbahce).

Og svo eru það miðja Hollendinga, hún er ekki árennileg með einhverja þessara: Ibrahim Afellay (Stoke City), Vurnon Anita (Newcastle United), Davy Klaassen (Ajax), Wesley Sneijder (Galatasaray) og Georginio Wijnaldum (Newcastle United).

Og vörnin er hrikalegur veggur: Daley Blind (Manchester United), Jeffrey Bruma (PSV Eindhoven), Stefan de Vrij (Lazio), Terence Kongolo (Feyenoord), Bruno Martins Indi (Porto), Jairo Riedewald, Kenny Tete (báðir í Ajax) og Gregory van der Wiel (Paris St Germain)

Ef lesandanum hefur ekki komið það til hugar er núna ábyggilega kominn tími til að biðja guð að hjálpa sér.

Jú, jú, landsliðið okkar vann Hollendinga á heimavelli með tveimur mörkum gegn engu. Okkar menn voru 26% tímans með boltann, hinir 74%, þetta var veggtennis með fótbolta.

Íslendingar áttu þó 7 skot á mark, hinir 10. Þó hittu okkar menn markið þrisvar en hinir voru ekki eins nákvæmir, hittu aðeins tvisvar.

Okkar menn fengu tvö horn, hinir fimm. Og dæmt var sextán sinnum á okkar menn en „aðeins“ tíu sinnum á hina.

Jæja, góðir lesendur. Við erum auðvitað litla Ísland og kraftaverk að landsliðið okkar skuli hafa náð svona langt að vera á þröskuldinum inn í EM. Höldum okkur þó á jörðinni. Ekki er ólíklegt að strákarnir okkar skori mark jafnvel þó þeir verði aðeins 14% með boltann.

Hollendingar stóðu sig frábærlega á HM í fyrra enda liðið þeirra stórkostlegt. Ég veit um fjölda manns sem eru á leiðinn á leikinn í Amsterdam. Einn vinur minn fer með alla fjölskylduna, konu og tvo syni. Þeir ætla ekki að verða neinir aumingjar þau landsliðið okkar tapi því Hollendingar eru í uppáhaldi hjá þeim og undir íslensku landsliðstreyjunni eru þeir í appelsínugulri peysu andstæðinganna. Auðvelt mál að skipta ef illa fer.

Og auðvitað verður þetta stórskemmtilegur leikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband