Ekki gleyma ábyrgð kennara og foreldra í byrjendalæsi
27.8.2015 | 11:21
Byrjendalæsi er umtalaðasta nýyrðið þennan ágústmánuð. Í gamla daga var einfaldlega talað um að læra að lesa. Það var minnir mig ekkert mál. Dálítið stagl að muna stafi, kveða rétt að þeim og svo small þetta svo einstaklega vel saman að síðan hefur maður getað lesið sér til gagns og ánægju. Ég minnist þess ekki að hafa rekist á nein vandamál þegar maður var að kenna börnunum sínum að lesa.
Núna er lestrarkennsla að því er virðist vera orðið gríðarlegt vandamál en ekki einfalt verkefni. Í þokkabót virðast stjórnvöld og stofnanir deila um hvernig eigi að kenna börnum að lesa og ekki síður um árangurinn.
Staðreyndin er þó sú að börn læra að lesa. Fyrst þarf að kenna stafina og þá þarf að leggja á minnið. Svo þarf að kenna hvernig stafirnir mynda orð. Börn eiga ekkert val um lestrarnámið, þau eiga að hlýða. Flóknara er það ekki nema fyrir það hlutfall barna sem eiga í raunverulegum erfiðleikum og þá þarf að taka á þeim sérstaklega án þess að yfirfæra þá erfiðleika á börn sem gengur vel.
Vandinn lýtur hins vegar að þjóðfélagin í heild sinni, samkeppninni um athygli barna. Fjöldi barna lesa ekki lengur bækur, fá enga æfingu í lestri nema í gegnum einfalda tölvuleiki eða kennsluforrit. Svo virðist sem foreldrar halda ekki bóklestri að börnum og ekki heldur kennarar. Þetta veldur margháttuðum vanda, orðaforðinn minnkar, tilfinning fyrir móðurmálinu hverfur smám saman, hæfni í ritgerðasmíði verður lakari, hugsunin verður ekki eins skýr og nákvæm, þekkingarbanki einstaklingsins vex ekki og fleira mætti til taka.
Auðvitað eiga foreldrar að hafa forgöngu um að kenna börnum að lesa og síðar vinna með skólanum, vekja áhuga þeirra á bóklestri. Geri þeir það ekki er auðvitað komið vandamál. En þvílík ómenning og skepnuskapur er að nenna ekki eða gefa sér ekki tíma til að sinna barni sínu í námi þess.
Ég hef rætt við fjölmarga foreldra og sú kenning er uppi að þau börn sem eiga í erfiðleikum með lestur, byrjendalæsi, er ekki sinnt sem skyldi af foreldrum þeirra og kennurum.
Boðskapurinn til stjórnvalda og ekki síst til kennara er einfaldlega þessi: Hættið að tuða í börnunum. Takið foreldrana til skoðunar og kennið þeim að styðja við bakið á börnunum. Í því er lausnin fólgin. Börnin geta yfirleitt það sem fyrir þau er lagt.
Gæti verið að ég sé að einfalda málið of mikið? Nei, það held ég ekki. Foreldrar og kennarar bera ábyrgð á menntun barna. Punktur.
Geti þeir ekki unnið saman er illt í efni. Munum þó að fólk er mismunandi, skiptir engu hvaða störfum það gegnir. Ekki hafa allir hæfileika, leikni, gáfur eða getu til að vekja áhuga barna. Og drottinn minn dýri, ekki eru öll börn yndisleg og elskuleg. Erfðir og uppeldi barna og ekki síður foreldra gera það stundum að verkum að allt fer í handaskolum.
Börnin sitja uppi með foreldra sína og þeir með börnin sín. Kennarar eru hins vegar ekki nein erfðafræðilega né guðleg forsjón og þeim má auðveldlega skipta út.
Sé árangur barna í lestri og öðru námi slakur á fyrst og fremst að beina sjónum að foreldrum og kennurum þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.