Hirðuleysi Egils Helgasonar um staðreyndir

Nú eru uppi sterkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að láta gömlu staðfestuna í utanríkismálum lönd og leið. Þarna fer fremstur í flokki Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður flokksins – maður sem þó lifði samkvæmt hugmyndinni um vestræna samvinnu þegar hann var forsætisráðherra – og svo er merkilegt að heyra núverandi formann flokksins, Bjarna Benediktsson, ljá máls á þessu. Nokkrir þingmenn hafa þó tekið sig til og áréttað að gömlu viðhorfin, staðfestan, sé enn í gildi, og það gerir líka Björn Bjarnason, sem lengi var helsti hugmyndafræðingur flokksins í utanríkis- og öryggismálum:

Þetta segir Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður, í pistli sínum á Eyjunni í dag. Yfirleitt finnst mér hann ekki vandfýsinn á rök, lætur sleggjudóma ráða, sérstaklega þegar um Sjálfstæðisflokkinn er að ræða. Þá er hann viss um að flokkurinn sé um allt sekur. Sama er þegar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og fyrrverandi formaður flokksins, er til umræðu, þá eiginlega allt látið flakka rétt eins og sést í ofangreindri tilvitnun. Engin vinsemd í þann garð og þaðan af síður sanngirni.

Egill Helgason færir ekki nokkurn staf fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breytt um skoðun varðandi vestræna samvinnu né heldur hjá Davíð Oddssyni, Bjarna Benediktssyni, núverandi formanni, eða Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra flokksins. Hræringar í hausnum á Agli finna sér eins og endranær leið út á bloggið hans rétt eins og vatn fylgir þyngdarlögmálinu. Slíkur lekandi segir þó ekkert um Sjálfstæðisflokkinn né áðurnefnda Sjálfstæðismenn.

Staðreyndin er hins vegar sú að margir Sjálfstæðismenn hafa áhyggjur að útflutningi þjóðarinnar. Hann skiptir efnahagslífið gríðarlegu máli ekki síst þegar markaðir lokast hvort sem það er vegna markaðsvanda eða handvömm stjórnvalda og þá sérstaklega utanríkisráðherra landsins sem staðfesti viðskiptaþvinganir á Rússland án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum og hvað þá að skoða mögulegar afleiðingar.

Pistlar Egils Helgasonar eru vissulega mikið lesnir en það er sorglegt þegar hann fer með rangt mál til þess eins að ófrægja fólk og flokka. Það skiptir ekki heldur nokkru máli þó hann vitni í pistlinum í grein manns sem er jafnhirðulaus um staðreyndir eins og Egill sjálfur.

Enn stendur Sjálfstæðisflokkurinn fastur á skoðun sinni um vestræna samvinnu í öryggismálum og tekur þátt í þeim málum eftir því sem kostur er. Þetta hefur ekkert breyst. Umræðan snýst hins vegar um að ríkja þarf jafnvægi milli ríkja í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, það gengur ekki að Ísland beri þyngri byrðar en aðrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband