Ósannindin um Sjálfstæðisflokkinn og heilbrigðismálin
29.7.2015 | 09:43
Ögmundur ákvað að fara niður í svað aðdróttana og samsæriskenninga. Með ódrengilegum hætti dylgjar hann um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Úr verður risastórt samsæri. Í boði ríkisstjórnarinnar gæti draumur frjálshyggjunnar um alvöru markað á sviði sjúkdóma og lækninga verið að rætast.
Ögmundur fellir dóm yfir tugum einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og segir að um brask sé að ræða. [...]
Engu skiptir þótt ríkisstjórnin sem Ögmundur sat í hafi tekið fyrstu skrefin og samið við umrædd fyrirtæki. Slík smáatriði mega ekki þvælast fyrir þegar höggið er til andstæðinga.
Ekki er algengt að stjórnmálamaður sé flengdur opinberlega, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Ögmundur Jónasson, alþingismaður og fyrrum ráðherra í vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur upp á síðkastið verið iðinn við ósannindaskrif um heilbrigðismál og Sjálfstæðisflokkinn.
Ögmundur hirtur
Væntanlega er hann að leggja línurnar fyrir komandi komandi stjórnmálavetur. Vandinn er hins vegar sá að Ögmundur, sá orðmargi stjórnmálamaður, fer ekki alls kostar rétt með staðreyndir eins og Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rekur í ágætri grein sinni í Morgunblaði dagsins og ofangreind tilvitnun er úr. Óli Björn hirtir Ögmund fyrir ósannsögli hans og dylgjur svo að undan hlýtur að svíða.
Einföld súlurit í greininni segja það sem segja þarf, þau fara rétt með staðreyndir, öfugt við það sem Ögmundur heldur fram. Hann hefur iðulega sagt að framlög til Landspítalans hafi lækkað hjá núverandi ríkisstjórn en svo er aldeilis ekki, þau hafa þvert á móti stórhækkað. Sama er með útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála.
Skrökið þulið nógu oft
Óli Björn Kárason er bæði ritfær og rökfastur í grein sinni og hann segir meðal annars:
Átök hugmynda er nauðsynleg í frjálsu samfélagi. Því miður höfum við sem fylkjum okkur undir merki borgaralegra afla - erum hægrimenn - ekki gengið eins rösklega fram og keppinautarnir. Engu er líkara en að við hræðumst að taka til máls; berja frá okkur, svara andstæðingum og afla hugmyndum og stefnu fylgis.
Þetta er ein skýringin á því að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að móta ímynd flokksins í hugum þúsunda kjósenda. Í þeirri vissu að fáir verði til svara, er járnið hamrað. Gildir hið fornkveðna; ef þú endurtekur vitleysuna nægilega oft er góð von um að fólk trúi fjarstæðunni líkt og um sannleika sé að ræða. Til verða heilagar möntrur þar sem sífellt er þulið það sama.
Á að loka SÁA og Hjartavernd
Annar stjórnmálamaður, Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur á svipuðum málum í grein í Fréttablaðinu í gær. Hann ræðir um einkavæðingu í heilbrigðismálum á Íslandi og vekur athygli á merkilegum staðreyndum.
Ef við notum orðalag vinstrimanna þá stóð ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að stærstu einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Og er það virkilega svo að prófessorinn [Stefán Ólafsson] þekki ekki muninn á bandarísku heilbrigðiskerfi og því skandinavíska? Það eitt og sér hlýtur að teljast mjög alvarlegt mál.
Eigum við að banna einkarekstur? Er hann á móti einkarekstri í heilbrigðismálum? Á ríkið að taka yfir rekstur einkaaðila? Það myndi þýða að eftirfarandi rekstrareiningum yrði lokað:
- SÁÁ
- Reykjalundi
- Grund
- Hrafnistu
- Sóltúni (reyndar nær öllum hjúkrunarheimilum landsins)
- Tannlæknastofum
- Sérfræðilæknastofum
- Heilsugæslu Salahverfis
- Sjálfstæðum heimilislækningastofum
- Krabbameinsfélaginu
- Rauða krossi Íslands
- Hjartavernd
- o.s.frv.
Með öðrum orðum erum við að tala um að taka upp fyrirkomulag sem hvergi þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Trúir einhver því að heilbrigðisþjónustan á Íslandi verði betri ef við bönnum einkarekstur?
Að veita góða heilbrigðisþjónustu er eilífðarverkefni. Við sjálfstæðismenn höfum forgangsraðað í þágu þeirrar þjónustu, það sama verður ekki sagt um íslenska vinstrimenn.
Er ekki kominn tími til að landsmenn fari að taka það með fyrirvara það sem þeir kumpánar segja, Ögmundur Jónasson, alþingismaður, og Stefán Ólafsson, prófessor.
Bandaríska leiðin hans Stefáns
Stefán Ólafsson reynir að svara Guðlaugi Þór í pistli á vefritinu Eyjan. Þar segir hann:
Þegar Guðlaugur Þór telur upp fjölda stofnana í þriðja geiranum (SÁÁ og Hjartavernd o.fl.) og einkarekna þætti heilbrigðiskerfisins og segir að ég vilji loka því öllu þá er hann að afbaka umræðuna úr hófi og það veit hann vel.
Heldur er það ódýr málflutningur hjá þingmanninum. Hann á að vera heiðarlegri og hafa betri rök fyrir máli sínu.
Ég var hins vegar að vara við veikingu opinbera samtryggingarkerfisins, með tilvísun til slæmrar reynslu af bandarísku leiðinni.
Hin svokallaða bandaríska leið er ekki á dagskrá hjá íslenskum stjórnmálaflokkum, allra síst Sjálfstæðisflokknum sem margoft hefur í ályktunum sínum varið núverandi heilbrigðiskerfi og stutt það eins og Óli Björn Kárason færir rök fyrir í áðurnefndri grein sinni.
Annars er það stórundarlegt þegar vinstri sinnaðir stjórnmálamenn eins og Stefán Ólafsson eru staðnir að ósannsögli þá breyta þeir um stefnu og fara að tala um allt annað.
Einkarekstur er staðreynd í íslenska heilbrigðiskerfinu og hefur þar reynst vel. Þegar Stefáni Ólafssyni er bent á það fer hann undan í flæmingi og segist ekki hafa meint svoleiðis einkarekstur ... sko bara bandarísku leiðina. Hver í ósköpunum var að tala um einhverja bandaríska leið? Hún er bara eitthvað sem vaxið hefur í kollinum á Stetil og tilgangurinn aðeins einn, að nota sem barefli á Sjálfstæðisflokkinn.
Hrærigrautur réttlætingarinnar
Þetta eru hins vegar bara enn ein ósannindi stjórnmálamannsins, prófessors Stefáns, sem í áðurnefndri grein segist vera:
- Talsmaður blandaðs hagkerfis
- Ekki hugmyndafræðingur vinstri manna
- Miðjumaður í þjóðmálaumræðunni
- Stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar í sumu, ekki öðru
- Stuðningsmaður þriðja geirans í opinberri velferðaþjónustu
- Á móti veikingu opinbera samtryggingakerfisins
- Á móti bandarísku leiðinni
Maðurinn flokkar sig greinilega meðal góðu gæjanna í stjórnmálaumræðunni. Hins vegar hefur verið sagt að því flóknari sem eigin réttlæting reynist vera því meira bull er hún og sá sem fyrir henni stendur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er greinilega mikill misskilingur hjá flestum, Sjálfstæðisflokkurinn er lang lang bestur
Jón Ingi Cæsarsson, 30.7.2015 kl. 07:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.