Þótti þér ekki Ísland þá yfirbragðsmikið til að sjá?

Hekla 2015-2Hekla er að breytast ... eða er það ég. Að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hafa áður orðið jafn móður, svitnað eins mikið og verið eins þreyttur þegar upp var komið. Uppi var skítakuldi, hávaðarok en útsýnið undursamlegt.

Og þar sem ég stóð þarna og horfði yfir landið flaug mér í hug ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem ég hef í miklum hávegum. Ekki svo að ég kunni það utan að, kannski hálft fyrsta erindið:

Hekla 1983Þú stóðst á tindi Heklu hám
og horfðir yfir landið fríða,
þar sem um grænar grundir líða
skínandi ár að ægi blám;
en Loki bundinn beið í gjótum
bjargstuddum undir jökulrótum —
þótti þér ekki Ísland þá
yfirbragðsmikið til að sjá?

Varla hefur verið ort fegurra kvæði á íslensku. Hvílík orðsnilld, þvílíkt hugarflug.

Ég hef ábyggilega gengið yfir eitt hundrað sinnum á Heklu ... jæja, kannski tæplega það. Allt í lagi, ábyggilega meira en tíu sinnum. Hún er alltaf jafn heillandi og fögur, að minnsta kosti tilsýndar. Svo bregður maður skíðunum undir sig og leggur maður í gönguna. Já, ég gekk upp á gönguskíðum, með skinnum undir, tel það betra í mjúkum snjónum. Sá þó eftir því að hafa ekki notað fjallaskíðin.

Á og á miðri leið er ekki laust við að sú hugsun hvarfli að manni að snúa við. Gönguleiðin upp norðausturhrygginn er brött til að byrja með en svo minnkar brattinn en tindurinn lætur lengi, lengi bíða eftir sér. Hundleiðinlega lengi.

Á leiðinni er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvað gera skal ef svo ólíklega vilji til að gos hefjist. Jú, koma sér niður, fara á móti vindi, míga í gíga og eld, bjarga bílnum, drekka vatn ... og svo framvegis. 

Hekla 2015-4Lesandinn getur því ímyndað sér fátið sem greip mig þegar skyndilega lyfti sér þyrla Landhelgisgæslunnar upp fyrir hlíðar fjallsins og hringsólaði yfir mér.

Eldgos, eldgos, æpti ég í huganum og lét mig fallast framm á skíðastafina og horfið á flykkið nálgast, taka taka einn hring og hverfa aftur sömu leið og hún kom. 

Ja, hérna, hugsaði ég og varð rólegri. Varla er um að ræða eldgos, annars mynd þyrlan sækja mig og flytja til byggð ... tja nema að áhöfnin hefði þekkt mig og ályktað sem svo að ekki tæki því að bjarga einum vesælum fjallamanni sem hvort eð er var að dauða kominn af þreytu ...

Ég gekk áfram og skemmti mér með viðlíka hugsunum. Ótrúlegt hvernig hugsunun fer á reik í gönguferðum. Og ég hló inni í mér.

Skyndilega, nokkuð fjær, birtist þyrlan aftur. Skyldu þeir nú hafa skipt um skoðun, hugsaði ég, dró upp myndavélina og smellti af nokkrum myndum af því sem ég hélt vera upphafið af björgun minni sem þó reyndist röng ályktun af minni hálfu. Svo hvarf bara þyrlan niður vestan við fjallið.

Um leið og ég hélt göngunni áfram var ég þess fullviss að áhöfnin hafi einfaldlega verið að taka myndir af glæsilegum göngustíl mínum. Um leið rétti ég úr bakinu, snýtti mér undan vindi, þurrkaði nefið með erminni og sveif áfram með sama tilþrifamikla hættinum sem fyrr.

Hekla 2015-3Toppurinn var að hluta snjólaus. Undir barmi toppgígsins er hiti og eimur lagði upp af honum. Sjálfur gígurinn var hins vegar fullur af snjó.

Hlémegin við kassa sem nefndur hefur verið „Café Hekla“ af vísindamönnum var skjól að finna fyrir strangri norðanáttinni. Kassinn geymir ýmis konar tæki meðal annars til mælinga á gasi, skjálftavirkni, skorpuþenslu og annað sem getur sagt til um líðan fjallsins, það er hvort það væntir sín. 

Hekla 970730-2Eftir rúmlega tveggja tíma göngu var ég kominn upp. Á leiðinni hafði ég mætt níu manns sem voru á niðurleið en enginn var uppi. Nokkrir þeirra sem ég hitti höfðu varað mig við því að uppi væri kalt. Það var rangt, uppi var skítkalt og því staldraði ég ekki lengi við heldur skíðaði niður eftir að hafa drukkið og etið nægju mína.

Niðurferðin var nú ekkert glæsileg. Linkulegur snjórinn var erfiður og ég bölvaði sjálfum mér fyrir að hafa ekki farið upp á fjallaskíðunum, var með þau í bílnum. Enginn sá mig kútveltast þarna í brekkunum en óbrotinn komst ég niður.

Myndirnar skýra sig nú sjálfar. 

  1. Hekla 2015Í upphafi göngu.
  2. Þessa slides-mynd tók í skemmtilegri flugferð með Birni Rúrikssyni, þeim ágæta ljósmyndara með meiru. Þetta var 20. júní 1983. Toppurinn hefur mikið breyst frá því myndin var tekin.
  3. Þarna hverfur þyrla Landhelgisgæslunnar, myndin er talsvert stækkuð.
  4. Og svona lítur toppurinn á Heklu út þegar upp er komið. Lengst til vinstri en kassinn með mælitækjunum.
  5. Þessa slides-mynd tók ég 30. júlí 1987. 
  6. Til samanburðar við síðustu mynd er þessi, tekin 17. júlí 2015. Miklu meiri snjór í fjallinu núna.

Gott ráð er að smella á myndirnar, þá stækka þær og verða fyrir vikið skemmilegri á að horfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband