Fæðuöryggi landsmanna og ESB aðild
27.3.2015 | 13:30
Mér þykja þessi orð dr. Ólafs Dýrmundssonar, fyrrum ráðunauts Bændasamtaka Íslands, í Bændablaðinu, afar áhugaverð. Evrópuvaktin vakti athygli mína á viðtalinu við hann.
Það þarf því ekki náttúruhamfarir, hryðjuverk eða stríð til að við getum lent í miklum vandræðum á stuttum tíma. Því þarf að ræða fæðuöryggismálin af miklu meiri alvöru en nú er gert. Það er líf heillar þjóðar í húfi. Þetta snertir Evrópusambandið og mögulega aðild okkar að því. Með frjálsu vöruflæði milli landa stenst íslenskur landbúnaður ekki samkeppni við niðurgreidda stórframleiðslu annarra landa. Því myndi íslenskur landbúnaður leggjast af að mestu og Íslendingar hefðu þá litla möguleika á að bjarga sér sjálfir með landbúnaðarafurðir ef landið lokaðist fyrir innflutningi.
Um leið og við sköðuðum fæðuöryggið gerist annað varðandi innflutning. Um leið og innlend samkeppni er úr sögunni lendum við mjög fljótt í fákeppni á markaði. Reynslan sýnir að þá mun verð á innflutningi hækka. Þá verður vandinn sá að þegar búið er að leggja af einhverjar greinar í landbúnaði, þá endurreisa menn þær ekki svo auðveldlega. Landbúnaður er langtímaferli og mjög auðvelt að eyðileggja hann með innflutningi.
Ég hef séð sjálfur hvernig slíkt gerist, m.a. á Nýfundalandi, í Alaska og víðar. Öll slík jaðarsvæði eiga alltaf í vök að verjast, líkt og Ísland yrði sem jaðarríki í Evrópusambandinu. Innan núverandi stefnu Evrópusambandsins og þeirra samninga sem þeir miða við í landbúnaðarmálum, þá eru engar líkur á að við nytum þar einhverra sérkjara. Við yrðum því jaðarsvæði og háð öðrum að mestu leyti um innflutning á landbúnaðarvörum. Þótt talað sé um að hægt sé að lækka verð á landbúnaðarvörum með óheftum innflutningi, þá áttar fólk sig ekki á að svokölluð frjáls samkeppni hefur aldrei virkað vel á Íslandi. Það getur þó verið að verðið lækki tímabundið meðan innflutningsaðilar eru að ná tökum á markaðinum. Það gerðist t.d. í Finnlandi, en þegar búið er að drepa samkeppnina frá innlendu framleiðslunni með tilheyrandi fækkun starfa, þá hækkar vöruverðið. Við yrðum því verr stödd innan fimm til tíu ára hvað verðlag á landbúnaðarvörum varðar.
Meðan allt leikur í lyndi eru svona vangaveltur um fæðuöryggi huga margra afar óraunhæfar. Flestir minnast þó gossins í Eyjafjallajökli sem hafði þær afleiðingar að flugumferð til og frá Evrópu lagðist af um tíma. Samtstundis varð skortur á ýmis konar landbúnaðarafurðum sem Evrópubúar treysta á að koma daglega frá öðrum heimsálfum. Enginn getur með neinni vissu fullyrðt að sambærilegir atburði geti ekki gerst í náinni framtíð.
Svo er það hitt, eins og Ólafur nefnir, að verðlagning á landbúnaðarafurðum í Evrópu er önnur en hér á landi og svo ákaflega áhugavert að geta snúið öllu upp í kæruleysi og heimtað að geta bara keypt evrópskan kjúkling, nautakjöt, grænmeti og annað. Innlend framleiðsla er dýr, sú útlenda ódýr, buddan ræður. Hver er þó staða okkar sem sjálfstæðrar þjóðar ef við getum ekki brauðfætt landsmenn þegar eitthvað bjátar á í samgöngukerfi heimsins? Á íslensk þjóð að vera að öllu leyti háð innflutningi matvæla? Skilyrði fyrir aðild að ESB er auðvitað að opna fyrir óheftan innflutning landbúnaðarafurða frá Evrópu og ekki síður veiðar erlendra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilögsögu.
Þetta er spurningin um fæðuöryggi og er brýnt að þeir rökræði sem geta og vilja.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.