Samfylkingin á bágt, ekki berja á henni ...
26.3.2015 | 09:45
Samfylkingin á í vandræðum. Slíkt gerist af og til með stjórnmálaflokka.
Allir vita að Samfylking var rasskellt í síðustu Alþingiskosningum. Forystumenn flokksins hafa lítið gert með það og þess í stað barið á núverandi ríkisstjórn enda á hún í vandræðum vegna ESB málsins. Ríkisútvarpið hefur dyggilega aðstoðað Samfylkinguna í þessum vandræðum hennar og reynt að finna frekar snöggu blettina á nokkrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem töluðu um þjóðaratkvæði um ESB þvert á samþykktir landsfundar.
Þetta er nú svo sem allt í lagi. Auðvitað má berja á Sjálfstæðisflokknum gefi hann höggstað á sér.
Svo gerist það á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar að allt fer í handaskolum. Rafræn kosning klikkar, gerð er tilraun til valdaráns, þeir sem mega kjósa fá það ekki, þeir sem ekki mega kjósa fá leyfi til þess, formaðurinn er kjörinn með einu atkvæði og forysta flokksins breytir um stefnu varðandi Drekasvæðið.
Auðvitað má ekki berja á Samfylkingunni jafnvel þó hún gefi höggstað á sér.
Ríkisútvarpið sérvorkenndi flokknum og fór mjúkum höndum um nýkjörinn formann sem var óvenju litlaus eftir atburði landsfundarins, láir honum það enginn. Þingflokksformaður flokksins mætti í beina útsendingu Ríkissjónvarpsins og þar fékk hann allverulegar gælur og í bónus mátti hann vera með áróður um ágæti Samfylkingarinnar án athugasemdar fréttamannsins. Mulningsvélin í Kastljósi ákvað að það svaraði ekki kostnaði að taka Samfylkinguna og formann hennar fyrir því hann á svo bágt.
Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins barðist fyrir nokkrum árum um embættið við annan flokksmann og hafði sigur. Munurinn var talsvert meiri en eitt atkvæði auk þess sem á annað þúsund manns tóku þátt í kjörinu á landsfundi. Þá ærðist Ríkisútvarpið og grillaði formanninn og flokkinn í mörgum fréttatímum og fréttaskýringaþáttum. Um leið voru andstæðingar flokksins kallaðir til álitsgjafar og það sem þeir sögðu kyngdu spyrlar.
Svo kemur það í ljós, eftir að einhver lagði á sig að lesa samþykktir landsfundarins, að hann samþykkti ályktun gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þrátt fyrir þetta hafði fyrrum utanríkisráðherra kallað sig olíumálaráðherra í barnslegu stolti vegna afreka í olíunni. Eru þó ekki nema tveir mánuðir síðan hann og aðrir forystumenn flokksins samþykktu lög um þátttöku ríkisins í kolvetnisstarfsemi.
Auðvitað er þetta allt í lagi enda ekki saman að jafna Sjálfstæðisflokkum og Samfylkingunni.
Á öðrum fréttamiðlum en Ríkisútvarpinu þykir klúður Samfylkingarinnar frétt til næsta bæjar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður, ertu ekki helst til of paranoiaður gagnvart SF, reyndar er það einkenni sanntrúaðra framsjalla.Ég er á því reyndar, að Árni sé ekki góður kostur fyrir SF, hefði viljað að SII hefði sigrað, til þess að undirskrifa það betur að SF eigi að hallast frekar til vinstri, það sem SF var stofnuð um. Ekkert slæmt við það. Hins vegar ættir þú að einbeita þér að því, að greina hvað það er, sem hrjáir sjálfstæðisflokkinn. Flokk sem fyrir nokkrum árum var við 40% en nú kominn fast að 20%, og ekki allt búið, því enn á eftir að kvarnast meira. Þannig haltu þig við það, að kryfja vandamál þíns flokks, mátt alveg bæta framsóknarflokknum við. Ég er ekki samfylkingarmaður.
Jónas Ómar Snorrason, 27.3.2015 kl. 08:23
Þessari athugasemd er vandsvarað. Ég hef skrifað um Sjálfstæðisflokkinn sem og aðra flokka. Mun aldeilis ekki undanskilja Samfylkinguna þrátt fyrir hvatningu þína. Af hverju? Jú, Samfylkingin liggur svo oft svo skemmtilega við höggi og ég er ekki heldur Samfylkingarmaður.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.3.2015 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.