Hugi Einarsson
21.3.2015 | 12:56
Frá því ég bjó á Höfn i Hornafirði í nokkur ár um síðustu aldamót eru mér þar enn nokkrir einstaklingar minnisstæðir. Ég rak þá Jöklaferðir, fyrirtæki sem bauð upp á vélsleða- og snjóbílaferðir á Vatnajökul ásamt veitingasölu og gistingu. Fyrirtækið var einnig ferðaskrifstofa og skipulagði ferðir um suðausturhornið.
Einn þeirra sem ég kynntist var Hugi Einarsson, þrekvaxinn, hraustur og úrræðagóður jeppakall sem kunni allt og gat eiginlega allt. Af og til réðum við hann í jeppaferðir og þá kynntist ég þá þessum ágæta manni nokkuð.
Svo gerðist það að hann hitti Sigrúnu Kapítólu Guðrúnardóttur sem ég hafði ráðið til starfa og það endaði með því að þau tóku saman og stofnuðu fjölskyldu. Þau voru hörkudugleg bæði tvö og eftir að Jöklaferðir hættu starfsemi tóku þau við rekstri tjaldsvæðisins á Höfn og efldu það og styrktu.
Svona er nú galdur lífsins, Sigrún og Hugi, urðu eitt, mörgum sem til þekktu voru þetta stórfréttir. Þetta bara gerðist eins og sólin sem brýst fram úr skýjunum og geislar hennar baða þá sem eru á réttum stað og stund.
Svo berast mér þær fréttir að Hugi sé dáinn. Hann sem í minningunni var ímynd hreysti og lífsgleði. Maður verður höggdofa, skilningurinn hverfur. Hann var jarðaður í dag og í Morgunblaði dagsins eru nokkrar minningargreinar um þennan góða dreng.
Þó ég hafi ekkert samband haft við þau Huga og Sigrúnu síðan ég flutti frá Hornafirði eru þau mér enn afar minnisstæð, ekki síst fyrir þá sök að ég hef af og til frétt af þeim og alltaf af góðu einu.
Vilji svo til að þessar línur rati til Sigrúnar sendi ég henni og fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Meðfyglandi mynd af Huga tók ég í byrjun september árið 2000 er Paramount kvikmyndaverið kom hingað til að taka upp hluta af kvikmyndinni um Laura Croft. Þar sáum við aðalaleikarann Angelinu Jolie leika lausum hala og þóttum það ekkert stórmerkilegt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.