Frelsi til að velja ekki Ríkisútvarpið

RÚV er mikilvæg menningarstofnun sem sinnir hlutverki sínu af miklum metnaði. Sú sem þetta skrifar ólst upp við RÚV og hlaut í gegnum Rás 1 menningarlegt uppeldi sem hún verður ævinlega þakklát fyrir. Þeir sem harðast gagnrýna RÚV ættu að horfa aftur til æskuáranna og rifja upp kynni sín af RÚV. Geri þeir það má ætla að klakinn sem þeir geyma í brjósti sér gagnvart stofnuninni muni bráðna og kalt hjarta þeirra taki að hlýna. Hver er ekki þakklátur fyrir útvarpsleikrit, síðdegissögur, ljóðaflutning, Sinfóníutónleika, útvarpsmessur, bænir, upplestur á Passíusálmum, síðasta lag fyrir fréttir? – og svo mætti lengi halda áfram að telja, en plássið leyfir það ekki. Halda þessir háværu, en sennilega fámennu gagnrýnendur, að þessi dagskrá myndi sjálfkrafa flytjast á aðra fjölmiðla yrði RÚV gert óstarfhæft?

Svona ritar Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins í Pistilinn í blaði dagsins. Ég er ekki sammála henni, aldrei þessu vant, og er ekki, að ég held, með tiltakanlega „kalt hjarta“. Ég man glöggt eftir Ríkisútvarpinu í æsku minni. Maður fann til þess að það var einokunarstofnun en með þokkalegt útvarpstæki sem náði miðbylgju var maður ekki bundinn við að hlusta á dagskrá Ríkisútvarpsins. Unga fólkið hlustaði miklu frekar á erlendar stöðvar og þar með talið Kanann.

Ein útvarpsstöð getur ekki gert svo öllum líki. Þess vegna er ekki ástæða til að klappa saman lófum og vegsama Ríkisútvarpið fyrir að hafa gert eitthvað ... Samanburðinn hafði maður ekki í gamla daga nema þegar maður náði þeim aldri að verða gagnrýninn og vilja velja. Þá stillti maður á Kanann eða Radíó Lúxemburg og slökkti á ríkisútvarpinu sem tróð í mann undarlega valinni tónlist, misjöfnum leikritum og enn misjöfnum ræðum manna sem kölluð voru „erindi“. Hugsanlega hefði ég fengið betri dagskrá ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða í útvarpsrekstri. Metnaðurinn var lítill.

Mjólkursamsalan er sambærilegt einokunarfyrirtæki, þó ekki opinbert. Ég stekk ekkert upp á svið og fagna því að hafa fengið mjólk, súrmjólk eða undanrennu í gegnum árin. Hugsanlega hefði ég fengið betri vörur ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða. 

Póstur og sími var einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins og bauð ekkert upp á merkilega þjónustu, allra síst í sölu símtækja. Ætli maður hefði ekki fengið betri þjónustu ef um frjálsa samkeppni hefði verið að ræða.

Niðurstaðan er þessi: Einokunarfyrirtæki eru alltaf til óþurftar, skiptir litlu hvort þau eru í eigu ríkisins eða annarra aðila. Þetta er einfaldlega söguleg staðreynd. Það er einnig staðreynd að Ríkisútvarpið reynir hvað það getur til að fela eignaraðild ríkisins og dæmi um það er nafnómyndin Rúv.

En guði sé lof fyrir að maður hafði í gamla daga aðgang að útvarpstækjum, segulböndum og plötuspilurum. Þeir sem það höfðu voru ekki eins háðir slakri þjónustu Ríkisútvarpsins. Margt hefur breyst í dag. Nú þarf enginn að nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins, nema auðvitað að hann vilji það. Sá er auðvitað munurinn, frelsi til að velja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvort sem það er Rúv. eða annað. .. Þeir sem harðast gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn,ættu að horfa aftur til æskuáranna og rifja upp kynni sín af þeim merka framfara flokki.- Það bráðnar ekki blikkið í gjallarhorni Rúv. af þakklætisræðum,hvað þá virðingu fyrir þeim merka flokki,sem sjaldan nýtur þar sannmælis.

Helga Kristjánsdóttir, 30.10.2014 kl. 15:12

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er mikill aðdáunarpistill hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur, eins og þess sósíaldemókrata var von og vísa, en ég held hún ætti frekar að leggjast í rannsóknir á því, hve hátt launuð skoðanasystkini hennar eru í Efstaleitinu!

Svo bítur hún (eins og fleiri samherjar þeirra í málinu, t.d. Þröstur Ólafsson og Árni Páll Árnason) höfuðið af skömminni með því að óska eftir því sem sjálfsögðu, að Rúv fái alfarið að sleppa við sínar lífeyrisskuldbindingar vegna hinna háttlaunuðu!!!

Ekki fær hennar eigin vinnuveitandi (fjölmiðill) slíkar trakteringar frá ríkinu -- og ekki mundi Kolbrún eftir þörf hans í sinni jarmandi grein í Mbl. -- og verður sá fjölmiðill þó að berjast við Rúv á samkeppnisvettvangi um auglýsingar, þar sem Rúv hefur þá þegar það forskot og þau forréttindi að fá nefskatt frá öllum 18 ára og eldri í sína endalaust djúpu hít.

Sannarlega var Ríkisútvarpið mikil menningarstofnun á fyrri áratugum, meðan það naut líka einokunaraðstöðu á ljósvakanum. Til þess var einfaldlega ætlazt þá (þ.e. hins fyrrnefnda). En nú eru svo margir fjölmiðlar aðrir, auk vefmiðla, að þessi ríkisstofnun á að draga saman seglin; en staðreyndin mun sú, að mannahald og bruðl hefur margfaldazt þar frá því um 1964.

Já, þetta gæti Kolbrún reynt að kanna um leið og hún kynnir sér ofurlaunin! (Um þau hef ég skrifað áður og get bætt hér ýmsu við um það síðar.)

Jón Valur Jensson, 30.10.2014 kl. 18:31

3 Smámynd: Geir Magnússon

Ekki er öll einkavæðing til bóta.Póstþjónusta á að vera ÞJÓNUSTA.Ég sendi um daginn pakka frá Ameríku, þar sem ég bý, til Reykjavíkur. ég misritaði húsnúmer, reit 14 í stað 10. Í gamla daga,þegar faðir minn var póstmeistari,hefði pakkinn farið aftur á pósthúsið, þar sem glöggur maður hefði fundið rétt númer og pakkinn svo borinn í rétt hús. Undir einkavæðingu var pakkinn endursendur til mín.

Geir Magnússon, 31.10.2014 kl. 08:39

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér hefur alltaf verið hlýtt til RÚV og er því nokkuð sammála Kolbrúnu.

Það má taka fram að það er ekki þar með sagt að hér á landi væri bara ein (menningarleg eða þunglamaleg) útvarpsrás ef einkastöðvar hefður ekki komi til sögunnar, enda var Rás2 byrjuð einhverjum árum þar á undan og breytti mjög miklu.

Rás 1 er mjög góð útvarpsstöð í dag eins og hún hefur alltaf verið. Hér hefur þó alist upp kynslóð sem hefur varla heyrt í þessari stöð og hefði aldrei úthald til þess enda búið að ala það upp í síbyljunni og tíðaranda á allt annarri bylgjulengd

Svipað má í raun segja um Sjónvarpið.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.10.2014 kl. 10:11

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Emil Hannes, ég get svo sem viðurkennt að Rás1 sé góð útvarpsstöð. Hlusta mikið á hana. Orð þín og raunar viðurkenning mín endurspeglar þau viðhorf að eftir því sem við verðum eldri breytist smekkurinn.

Man eftir því að foreldrar mínir og fleira eldra fólk skildi ekkert í því hvernig maður gat hlustað á „þetta garg“ og átti við tónlist sem á mínum æskuárum var hvað vinsælust.

Þegar við, eldri kynslóðir (margar) gagnrýnum síbyljuna þá er það á sömu forsendum.

Staðreyndin er bara sú að tímar breytast og fólkið með. Þar með er ekki sagt að „þetta garg“ eða síbyljan sé léleg. Sumir kunna að meta síbyljuna og telja hana ekki slæma.

Aðalatriðið er bara það að í gamla daga hafði maður ekkert val. Það hafa allir í dag hvort sem það telst kostur eða löstur. Ríkisútvarpið var eins og þú segir þunglamaleg stofnun. Viljandi eða óviljandi iðkaði hún einhvers konar innrætingu eða heilaþvott. Áhrif þess eru hins vegar hverfandi í dag að þessu leyti og það er vegna fjölbreytninnar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 31.10.2014 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband