Ögmundur boðar skrautritaðan sósíalisma

Stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn koma nú fram hver á fætur öðrum og krefjast breytinga á búvörulögum í anda frjálshyggjusjónarmiða. Engar undanþágur skuli leyfðar, markaðslögmál skuli vera algerlega ráðandi og öllu sem heitir samvinna og samlegð vísað á dyr. Skyldu allir sem kveðið hafa upp stóra dóma á undanförnum dögum hafa hugsað dæmið til enda?

Svo kerfislægur sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera hélt ég í einfeldni minni að hann myndi koma Mjólkursamsölunni til varnar í tilvistarbaráttu hennar sem byggist á einokun. Nei, hina sönnu kerfiskalla er greinilega að finna annars staðar. Ofangreind tilvitnun er úr grein Ögmundar Jónassonar, alþingismanns, þeim „erkikomma“ sem er einna málugastur Vinstri grænna. Grein Ögmundar birtist í Morgunblaði dagsins og undir yfirskriftinni: „Hvað gagnast neytendum og bændum?“. Svarið liggur í augum uppi eftir lestur greinarinnar.

Samkvæmt orðabók Ögmundar er samkeppni á markaði „frjálshyggja“, þó varla nýfrjálshyggja eða öfgafrjálshyggja. Við hin tölum, eiginlega hvar í flokki sem er, tölum einfaldlega um samkeppni vegna þess að annað gengur ekki. Ekki nokkurt réttlæti er fólgið í afskiptum ríkisvaldsins af markaðnum vegna þess að ríkið kann í eðli sínu ekki á neina starfsemi á markaði. Og jafnvel þó það taki þátt í samkeppni á markaði þá er það gert með þvílíkum endemum og svindli að ekki tekur nokkru tali. Látum það vera í bili.

Ögmundur ver einokun MS með kjafti og klóm. Hann segir:

Afkomu MS, fyrirtækis bændanna, er stýrt með verðlagningu á hráefni og afurðum þannig að hún er rétt liðlega 1% af veltu í góðu ári, um 300 milljónir af 20 milljarða króna veltu. Hagnaður stærsta smásölurisans, Haga, sem í raun ræður örlögum framleiðslufyrirtækja í matvælaiðnaði, nam í fyrra fjórum milljörðum króna af 76 milljarða veltu. Þetta er munurinn á fákeppnisfyrirtæki á markaði án kvaða og fyrirtæki sem lýtur regluverki og aðhaldi! 

Manninum stendur hrein hugmyndafræðileg ógn af því sem verður til þegar gjöld eru dregin frá tekjum fyrirtækis. Það er sem morð í huga hans að góður hagnaður sé af rekstri fyrirtækis. Vonandi heldur er það ekki skoðun hans að hagnaður af rekstri fyrirtækis skuli ekki vera meiri en 1,5% eins og hann segir að sé í tilviki MS. Það þætti nú merkileg ávöxtun hvorki 1,5% og raunar líka 5,26% eins og er hjá Högum miðað við upplýsingarnar sem Ögmundur gefur. Hann ætti að tékka á innlánsvöxtum í ríkisbankanum Landsbankanum og ekki síður útlánsvöxtum þar á bæ og hjá öðrum bönkum, svona til samanburðar.

Annars er alltaf vandinn við „erkikommana“ að þeir eru á móti hagnaði, enginn má græða. Það er hin argasta frjálshyggja. Takið svo eftir orðalaginu. Hagar eru „fákeppnisfyrirtæki á markaði án kvaða og MS er „fyrirtæki sem lýtur regluverki og aðhaldi“. Þetta kallast nú eiginlega skrautritaður sósíalismi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Sósíalismi, já, það er þetta, að vissu leiti.

Kerfið sem MS er rekið eftir hefur nafn á Íslensku (reyndar á útlensku líka, en ég ætla að leyfa þér að fletta því upp): "fyrirtækja lénsræði."

Það er kerfið þar sem stórfyrirtæki stunda einokun með algjörum stuðningi ríkisins, þannig að þau eru í raun bara leppar fyrir ríkið.

Sjálfstæð, jú, en á sama hátt og Kínversk fyrirtæki.

Dálítið mikið vinstri, en ekki alvöru kommúnismi.

Heldur hitt... þú veist, blótsyrðið.

Ásgrímur Hartmannsson, 30.9.2014 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband