Reyndum fjalla- og jeppamönnum er meinuð för á gosstöðvarnar
8.9.2014 | 20:57
Fólk vill fá að sjá gosið í Holuhrauni og það á að fá að fara þangað - undir eftirliti. Á hverju má eiga von þarna við eldstöðvarnar:
- Hættulegar gufur frá hrauninu
- Sprengingar í hraunstrauminum
- Glóandi kvikuslettur frá gígunum
- Sandbleyta
- Slæmt veður
- Slæmar aðstæður til aksturs
Ofangreint fælir ábyggilega fjölda manns frá því að fara þangað en ekki reynda fjallamenn.
Reynsluboltar
Til að þóknast lögreglu og almannavörnum er er hægt að að útbúa öruggan og afgirtan stað í hæfilegri fjarlægð frá hrauni og eldstöðvum ef reynsluboltunum er ekki treyst.
Flestir eigendur fjórhjólabíla af stærri gerðinni eru vanir fjallaferðum og vita við hverju er að búast, jafnvel á eldgosasvæði. Almenningur er fráleitt ekki samansafn illa upplýsts fólks. Þvert á móti kann fólk að ferðast og fjölmargir þekkja eldgos af eigin raun.
Löggan
Ég fullyrði að reynsla og þekking í fjallaferðum hvort heldur er á jeppum eða gangandi er miklu meiri meðal almennings en hjá lögreglu og almannavörnum. Þetta sást svo ekki var um villst í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Þúsundir manna gengu upp á Hálsinn eða óku yfir Mýrdalsjökul til að sjá gosið ... og allir komu þeir aftur. Hins vegar hlógu flestir að lögreglunni sem reyndi meðal annars að takmarka för fólks að hrauni og gígum með plastborða. Sjá einnig þetta.
Vísindamenn og fjölmiðlamenn við gosstöðvar eiga við sömu hættu að etja og allir aðrir. Fjölmargir þeirra eru góðir fjallamenn. Munurinn hér er ábyggilega sá að hægt er að takmarka dvöl almennings við ákveðinn stað, einn eða fleiri.
Áhugi almennings
Nú veit enginn hvort gosið verði langvinnt eða skammvinnt, hvort til annarra atburða kunni að draga, til dæmis undir Dyngjujökli. Ekkert mun þó draga úr áhuga almennings að fara inn á svæðið nema ef til vill sú staðreynda að brátt haustar. Þar af leiðandi er ástæða til að leyfa takmarkaða umferð inn á svæðið undir eftirliti áður en veður breytast og færð tekur að spillast.
Hræðsluáróður
Hræðsluáróður lögreglu og almannavarna um stöðu mála við gosstöðvarnar bíta ekki á skynsama fjallamenn. Þekkingin á landinu er mikil að þeirra hálfu og þeir sjá í gegnum hann.
Skipulag á gosstöðvum
Tiltölulega einfalt og auðvelt er að skipuleggja dvöl fólks við flæðurnar sunnan Dyngjufjalla. Hægt er að búa svo um að takmarkaður fjöldi dvelji í ákveðinn tíma á staðnum og er hann kemur til baka er annar hópur sendur. Nefna má til dæmis að um tvö hundruð manns fái að vera þarna á hverjum klukkutíma frá því klukkan tíu á morgnanna til klukkan 17. Þetta þýðir að um fjórtán hundruð manns geta farið að gosstöðvunum á degi hverjum, tæplega tíu þúsund manns á einni viku.
Upphafsstaður eru Hrossaborgir sem eru við þjóðveginn skammt austan við Mývatn. Þar er bílum hleypt inn í ákveðinni röð þannig að þeir séu tímanlega við Drekagil þar sem er landamæraeftirlit og talið inn og út af svæðinu.
Heimsóknartímar
Og hvernig á að velja fólkið? Jú, heimsóknartímar verði einfaldlega auglýstir og geti fólk sótt um þann tíma sem því hugnast best. Fyrstur kemur fyrstur fær rétt eins og gildir við fjölmarga aðrar uppákomur í þjóðfélaginu.
Skilyrðin gætu verið þessi:
- Bíllinn sé fjórhjóladrifinn, að minnsta kosti á 33" dekkjum, veltur þó á tegund og gerð.
- Ökumaður og farþegar séu skráðir inn og út af svæðinu.
- Greidd er ákveð fjárhæð fyrir hvern bíl, óháð fjölda farþega. Aðgangseyrinn gengur svo upp í kostnað vegna umferðareftirlits og skipulags björgunarsveita. Reyndar má hugsa sér að þetta gæti verið fjáröflunarverkefni fyrir Landsbjörgu.
- Mæti einhver ekki að Hrossaborgum á tilsettum tíma er hann úr leik. Þarna verða ábyggilega einhverjir sem vilja greiða og stökkva inn í röðina.
Smám saman mun haustið ganga í garð þarna efra og þá lokast vegir sjálfkrafa og jafnframt dregur mikið úr áhuga fólks á fjallaferðum auk þess sem skammdegið gengur í garð. Þá verða sjálfkrafa gerðar auknar kröfur til bíla, s.s. stærri dekk og fleira.
Einokun á eldgosi
Vandinn er sá að fjöldi fólks fær nú þegar að fara inn á flæður Jökulsár og allir eru skyndilega orðnir fjölmiðlamenn. Þeir sem mesta þekkingu og reynslu í fjallaferðum er hins vegar bannað að fara þarna, hópar eins og 4x4 klúbburinn, jeppaklúbbur Útivistar og ábyggilega fjölmargir aðrir aðilar sem teljast bæði ábyrgir og reynslumiklir.
Það er engin sanngirni í því að banna þessu fólki för á gosstöðvarnar eða þá einstaklingum sem hafa mikla reynslu af fjallaferðum, síst síðri en margir sem þarna eru langvölum með ýmis konar starfsheiti.
Ákærðir vegna aksturs um gosstöðvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað væri hægt að gera þetta einhvern veginn eins og þú setur þetta upp, Sigurður. En vilji er allt sem þarf og hann virðist ekki fyrir hendi hjá yfirvöldum.
Þórir Kjartansson, 8.9.2014 kl. 21:40
Þeir sem fá að fara þarna hafa hlutverki að gegna varðandi rannsóknir eða fréttamiðlun. Að gefa öðrum einhver forréttindi til að leika sér er bara það eitt: foréttindastefna.
Sigurður Þór Guðjónsson, 9.9.2014 kl. 00:54
http://www.dv.is/frettir/2014/9/9/brad-lifshaetta-stafar-af-gasinu/
Mikið gasstreymi er í og í kring um eldstöðina. Bráð lífshætta stafar af gasinu og því er ekki óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma. Vísindamenn hafa þurft að rýma svæðið endurtekið síðasta sólarhringinn vegna þess að gasstyrkur fór langt yfir hættumörk þegar vindátt breyttist skyndilega. Við gosstöðvarnar má búast við sífelldum staðbundnum breytingum á vindátt, vegna hitauppstreymis, sem gera aðstæður þar mjög hættulegar.
___________
Eru menn ekkert að hlusta ??
Jón Ingi Cæsarsson, 9.9.2014 kl. 13:03
Mikið rétt hjá þér Jón Ingi. Bráð hætta er talinn stafa af gasinu og stundum þarf að hafa vit fyrir fólki. Það er ekki bara brennisteinsvetni sem getur fylgt þessu heldur aðrar gastegundir sem eru bæði lyktar og litlausar. Því er ómögulegt fyrir fólk að átta sig á ástandinu. En vertu viss um það að ef aðgangur verður leyfður og einhver slys verða þá byrjar ruglið úr hinni áttinni: Af hverju var svæðinu ekki lokað ?
Egill Þorfinnsson, 9.9.2014 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.