Rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun
7.9.2014 | 16:50
Nafnið er fallegt, Forsæludalur. Gæti í huga nútímamannsins bent til þess að þar sé forsæla þegar alltof hlýtt er annars staðar. Þannig er þetta auðvitað ekki.
Innan við Vatnsdal er fjall sem nefnist Múlinn og þar er einnig Grímstungnaheiði og á milli er Forsæludalur. Hann er langur og liggur í suðaustur og eftir honum rennur Vatnsdalsá. Innarlega í honum er samnefndur bær og gengt honum, aðeins utar er Þórhallsstaðir, vettvangur frægs atburðar sem frá segir í Grettissögu.
Þar er frásögnin af honum Glámi sauðamanni. Þannig var að Þórhalli þeim sem bærinn er kenndur við hélst illa á sauðamönnum sínum. Í Grettissögu segir:
Það var eitt sumar á alþingi að Þórhallur gekk til búðar Skafta lögmanns Þóroddssonar. Skafti var manna vitrastur og heilráður ef hann var beiddur. Það skildi með þeim feðgum. Þóroddur var forspár og kallaður undirhyggjumaður af sumum mönnum en Skafti lagði það til með hverjum manni sem hann ætlaði að duga skyldi ef eigi væri af því brugðið. Því var hann kallaður beturfeðrungur.
Þessar lýsingar eru stórkostlegar og mætti hafa mörg orð um þær en til að stytta frásögnina hér enda samskipti með því að Skafti mælir með því að hann útvegar Þórhalli sauðamann sem er sænskur af ætt, ... ekki mjög við alþýðuskap.
Glámur gætti síðan fjár Þórhalls en einhver meinvættur var í dalnum og virðist Glámur hafa drepið hann en deyr sjálfur. Og Glámur lá eigi kyrr og mikil vandræði stöfuðu af afturgöngu hans.
Drap nú draugurinn Glámur hvern manninn á fætur öðrum og varð Þórhalli og fjölskyldu ekki vært í bænum og flutti allt í burtu. Lét draugurinn ekki duga að ásækja Þórhall heldur drap kvikfé og hrakti fólk af öllum bæjum í dalnum.
Þá gerist að að Grettir kemur til sögunnar. Viðskipti hans við drauginn eru stórkostleg og ekki aðeins að lýsingarnar séu sem ljóslifandi fyrir lesandanum heldur er í öllu þessu undirtónn sem á eftir að gjörbreyta eðli Grettis um alla framtíð.
Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gægðist innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti.
Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í sætinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr sætinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis sætin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum. En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.
Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.
En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið:
Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir, sagði hann, að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af mun falla til þín sektir og vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga.
Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum.
Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn. Þórhallur lofaði guð fyrir og þakkaði vel Gretti er hann hafði unnið þenna óhreina anda. Fóru þeir þá til og brenndu Glám að köldum kolum. Eftir það grófu þeir þar niður sem síst voru fjárhagar eða mannavegir. Gengu heim eftir það og var þá mjög komið að degi. Lagðist Grettir niður því að hann var stirður mjög.
Þórhallur sendi menn á næstu bæi eftir mönnum, sýndi og sagði hversu farið hafði. Öllum þótti mikils um vert um þetta verk þeir er heyrðu. Var það þá almælt að engi væri þvílíkur maður á öllu landinu fyrir afls sakir og hreysti og allrar atgervi sem Grettir Ásmundarson.
Þórhallur leysti Gretti vel af hendi og gaf honum góðan hest og klæði sæmileg því þau voru öll sundur leyst er hann hafði áður borið. Skildu þeir með vináttu. Reið Grettir þaðan í Ás í Vatnsdal og tók Þorvaldur við honum vel og spurði innilega að sameign þeirra Gláms en Grettir segir honum viðskipti þeirra og kvaðst aldrei í þvílíka aflraun komið hafa, svo langa viðureign sem þeir höfðu saman átt.
Þorvaldur bað hann hafa sig spakan og mun þá vel duga en ella mun þér slysgjarnt verða.
Grettir kvað ekki batnað hafa um lyndisbragðið og sagðist nú miklu verr stilltur en áður og allar mótgerðir verri þykja. Í því fann hann mikla muni að hann var orðinn maður svo myrkfælinn að hann þorði hvergi að fara einn saman þegar myrkva tók. Sýndist honum þá hvers kyns skrípi. Og það er haft síðan fyrir orðtæki að þeim ljái Glámur augna eða gefi glámsýni er mjög sýnist annan veg en er.
Grettir reið heim til Bjargs er hann hafði gert erindi sín og sat heima um veturinn.
Myndin hérna fyrir ofan er tekin af Grímstunguheiði og horft út Vatnsdal. Verð að viðurkenna að ég hefur aldrei komið í Forsæludal og á þarf af leiðandi enga mynd þaðan. Dalurinn hefur þó verið lengi á lista yfir þá staði sem mig langar til að heimsækja. Hitt er svo annað mál, þó skylt sé, að Vatnsdalur er með fallegri dölum landsins.
Sóttu slasaða konu í Forsæludal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.