Myndræn framsetning á þróun skjálftavirkninna í Vatnajökli
20.8.2014 | 14:20
Ég vissi það, hrópa börnin stundum og jafnvel þau eldri. Vissulega er gaman er að monta sig af því að hafa rétt fyrir sér en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir meira máli hvernig maður hafði rétt fyrir en ekki hvort.
Hjá góðum kennurum dugði ekki í gamla daga að hafa rétt svar í stærðfræðinni ef útreikningurinn var rangur. Á sama hátt var rangt svar ekki endanlegt ef aðferðin var rétt. Þetta hefur oft flogið í gengum hausinn á mér þegar ég skoða þróun skjálftavirkninnar í norðaustanverðum Vatnajökli. Þegar hún hófst tók ég eftir því að jarðskjálftarnir röðuðust í ákveðin kerfi. Það hafði mér ekki áður dottið í hug en námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands í vor var uppljómun. Þar fór Páll Einarsson, hinn landsþekkti jarðeðlisfræðingur á kostum, og sýndi okkur nemendur örlítið brot af þekkingu sinni og fræðum.
Páll benti iðulega á að jarðskjálftar fara eftir þekktum brotalínum og benti okkur á sannanir um slíkt.
Hvað varðar Bárðarbungu og jökulinn þar fyrir norðaustan er ljóst að í upphafi fóru jarðskjálftarnir eftir fjórum stefnum. Tvær þeirra voru SV-NA og tvær voru NV-SA. Smám saman varð sjáanleg breyting og skjálftunum fjölgaði í stefnu sem var SV-NA, það er frá Bárðarbungu og út á Dyngjujökul.
Jarðfræðingar hafa frá upphafi sagt að skjálftarnir stafi af kvikuinnstreymi upp í efri jarðlög og hugsanlega þrýstist upp í sprungu eða misgengi. En hvernig stendur á því að kvikan fer í NA en ekki í SV eða jafnvel haldi kyrru fyrir í Bárðarbungu?
Svarið er okkur leikmönnum hulið.
Við getum þó haldið því fram með hliðsjón af því sem Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, hefur ritað á bloggsíðu sinni. Hann styðst við rannsóknir annarra sem segja að risastór gígtappi sé í Bárðarbungu og komi í veg fyrir að kvikan geti leitað þangað upp, nema því aðeins að krafturinn sé þeim mun meiri. Kvikan hefur hins vegar fundið sér auðveldari rás til norðausturs. Það kann að stafa að því að í þá átt er landið lægra og farg jökulsins minnkar eftir því sem lengra dregur.
Þarna er Dyngjujökull sem er þunnur. Efstu drög hans geta verið í um 1200 m hæð og sporðurinn í um 800 metrum. Þetta má glögglega sjá til dæmis úr Kverkfjöllum. Hugsanlega er þykktin mest um 200 m en fari svo hratt minnkandi út í jaðrana.
Þar sem aðalskjálftavirknin er núna gæti þykktin verið um 100 metrar. Það er talvert minna en á Bárðarbungu þar sem hún er líklega um 700 metrar.
Allt sem gerist í iðrum jarðar er tilviljunum háð. Hitt er þó ljóst að kvikan kemur upp vegna þrýstings. Hvort hann leysist lárétt eða lóðrétt er erfitt að fullyrða.
Á þessari stundu virðist skjálftarnir hafa staðnæmst um það bil í efri drögum Dyngjujökuls. Þar gæti auðveldlega gosið og á langri sprungu. Þar mun ábyggilega smám saman myndast móbergsrani í líkingu við Kverkfjallahnúka sem vænta má að hafi orðið til við gos undir jökli.
Bræðsluvatnið mun þá falla eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum og það mun án efa fylla svæðið milli Dyngjujökuls og Öskju.
Sé ímyndunaraflinu gefinn laus taumurinn má búast við öflugu öskugosi í nokkra daga en fljótlega mun eldvirknin komast upp úr vatninu og halda áfram með hraunrennsli og gufubólstrum þangað til úr henni dregur. Hugsanlega verður gos í einn til tvo mánuði. Gangi þetta eftir verður síst af öllum um eitthvert hamfarahlaup að ræða í Jökulsá á Fjöllum og raunar afar óábyrgt að spá slíku.Um leið og eldvirknin kemst upp úr bræðsluvatninu snarminnkar flóðið í Jökulsá á Fjöllum.
Í lokin langar mig til að vekja athygli á myndunum. Fyrsta myndin er sú sem ég hef áður birt og er frá því 17. ágúst kl. 17:30. Inn á hana hef ég dregið áðurnefndar línur sem marka skjálftastefnu í upphafi.
Næsta mynd er af skjálftunum kl. 13:55 þann 18. ágúst. Greinilegt hvernig skjálftunum fjölgar í línu sem liggur SV-NA og út á Dyngjujökul.
Þriðja myndin sýnir að þær tvær fyrri eru engin tilviljun. Hún er af stöðu máli um kl. 13:56 í gær.
Loks er það fjórða myndin og hún er einungis staðfesting á því sem er að gerast. Myndin er frá því í morgun kl. 10 og af henni má sjá að skjálftarnir eru svo til allir á Dyngjujökli. Með því að bera þessa mynd saman við ýmis önnur gögn sem finna má á vef Veðurstofunnar virðist sem að skjálftunum fjölgi ofarlega í Dyngjujökli og hægt hefur á ferðalaginu í norðaustur. Þess vegna er það mín spá í augnablikinu að nú gjösi á þessum slóðum verði þrýstingurinn óbærilegur fyrir bergið undir jöklinum.
Í ljósi ofangreinds gæti ég svo sem hrópað upp í geðshræringu að ég hafi nú haft rétt fyrir mér. Það er nú hins vegar allt annað en svo. Vandamálið er það sem áður var nefnt að ekki er nóg að giska á rétt svar ef aðferðafræðin styður það útkomuna. Ég læt því nægja að skoða þróun mála og held áfram að fylgjast með því sem jarðfræðingarnir segja.
Skjálftavirknin enn mikil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alltaf gaman að fræðast betur um það hvernig Móðir Jörð verður til Sigurður og það eru merkilegir hlutir að gerast hjá okkur núna í sögunni. Takk fyrir.
Kv.góð.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 20.8.2014 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.