Arfur frá blýsetningu texta og ritvélum
3.7.2014 | 09:04
Enn skal brýnt fyrir þeim sem hlut eiga að máli að málið er samskiptatæki. Misskilningur er nógur þótt menn finni ekki upp skammstafanir sér til hægðarauka en öðrum til bölvunar. Sökina eiga fjölmiðlar e.ö.h. Netið: þ.e. eða öllu heldur.
Þetta er einn stysti dálkur sem ég þekki í prentuðum fjölmiðlum en hann nefnist Málið og birtist daglega í Morgunblaðinu. Í einfaldleika sínum er Málið er góður stuðningur þeirra sem vilja framar öllu tala og rita rétt mál. Það er þó ekki öllum gefið og því betra að fylgjast með, læra.
Ég er sammála höfundi ofangreindrar tilvitnunar. Skammstafanir held ég að eigi rót sína að rekja til blýsetningar í prentiðnaði. Meðan hún tíðkaðist voru þær til að spara pláss. Á tölvuöld er nóg af plássi og því eru skammstafanir gjörsamlega óþarfar og eiginlega hundleiðinlegar svo ekki sé talað um hversu óskiljanlegar þær geta verið. Þær virðast þó vera að ryðja sér til rúms aftur í smáskilaboðum í handsímum. Margir nenna ekki að tifa um smágerð lyklaborð þeirra og niðurstaðan verður runa af skammstöfunum.
Arfur blýsetningar og ritvéla er mikill. Ofnotkun á hástöfum og undirstrikunum er eitt af því hvimleiðasta sem um getur. Meðan ritvélar voru notaðar var erfitt að leggja áherslu á orð eða setningar. Þá var gripið til þess ráðs að nota HÁSTAFI eða undirstrika orð, jafnvel hvort TVEGGJA í einu. Þá var vissara að taka vel eftir. Þetta þarf ekki lengur að gera. Um marga og betri kosti er að velja, til dæmis feitletrun, skáletrun og jafnvel lit.
Dæmi er um að þessu sé öllu blandað saman, texti allur feitletraður í hástöfum og fjölmörgum litum eytt út um allt skjal og í þokkabót fjölmargar leturtegundir notaðar. Lesendur hafa ábyggilega séð slíkt.
Hóf er þó best á öllu, einfaldleikinn farsælastur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hárrétt hjá þér Sigurður - Góð grein og vel útfærð hjá þér.
Ég lærði setningu úr blýstöfum 1968 og man vel eftir þessu.
Eins og þú segir, þá eru margar af þessum styttingum óskiljanlegar og alls ekki þörf á þegar nóg er plássið.
Hugsanlega er þetta einnig leti í bland við nýtískubylgju (trend) þar sem sumir apa upp eftir öðrum.
Már Elíson, 3.7.2014 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.