Fjölmiðlar magna upp veðurhræðslu
1.7.2014 | 09:50
Rétt fyrir klukkan átta lagði ég af stað í vinnuna, - á hjólinu eins og venjulega. Við morgunverðarborðið hlustaði ég á tuðið barna sem stjórna morgunútvarpi Ríkisútvarpsins og voru þau á einu málum að að veðrið væri alveg hræðilegt og spáin enn verri. Á fréttavefsíðunum var aðalfréttin ekki um gróandann í gúrkuræktun heldur veðrið.
Manni bregður óneitanlega við þegar fjölmiðlar landsins sameinast um að vara mann við þessum ósköpum að fara út undir bert loft. Veðurhræðsla virðist vera að magnast hér á landi og virðist landinn vera orðinn þannig að ekki megi hvessa aðeins og rigna örlítið þá verði fjölmiðlar landsins sem stjórnlaust rekald í tölvuheimi. Eitt ágætt dæmi er svokallað gluggaveður sem einhver gáfumaðurinn fann upp sem hvatningu til að halda sig innandyra og horfa þaðan í öryggi á vont veður.
Jæja, ég ákvað að láta ekki aðra en mig stjórna gjörðum mínum og hjólaði mína leið eins og ég geri á hverjum morgni. Skemmst er frá því að segja að ég komst klakklaust á leiðarenda og var bara frekar þurr, þó ég hafi svitnað meir en endranær vegna þess að ég var í regnheldum fötum. Rigningin varð mér ekki nein fyrirstaða og ekki þessi gjóla. Mér sýndist líka að þeir sem ég mætti væru svona frekar í góðu standi miðað við veðurspár.
Auðvitað var blautt á og pollar víða. Það minnir mann nú bara á manninn sem sagði eftir vatnssopann: Alltaf er blessað vatnið gott þó það hafi nú orðið mörgum að fjörtjóni.
Ekki veit ég hvernig veðrið verður að loknum vinnudegi, það kemur bara í ljós. Mikið má þó ganga á áður en ég fer á annan hátt heim heldur en á hjólinu. Svona kokhreysti minnir auðvitað á hinn manninn sem sagðist mundi koma um kvöldið til að hita elskuna sína, jafnvel þó heimsendir stæði yfir, en bætti svo við eftir andartaks umhugsun: En ef rignir kem ég bara á morgun.
Hér er ekki verið að gera lítið úr réttmætum viðvörunum veðurfræðinga. Staðreyndin er þó sú að fjölmiðlar gelta oftar en ekki um úlfinn og afleiðingin er einfaldlega sú að þegar hann loksins lætur sjá sig eru þeir fjölmargir sem ekki tóku mark á viðvörunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Strax í gærmorgun var farið að tala um það í útvarpi að verstu lægðir í manna minnum væru að skella á landinu. Samt hefur allan tímann verið spáð 10 - 18 metra meðalvindi. Fjölmiðlar mega ekki fara á límingunum yfir því þótt það sé svokölluð gúrkutíð.
Ómar Ragnarsson, 1.7.2014 kl. 11:04
..... Í manna minnum,,,,?-ég skyldi að það ætti við á þessum árstíma!! Þetta er réttmæt viðvörun miðað við þau slys sem hafa orðið með aftan í vagna/hjólhýsi. Þannig varð sá sorglegi atburður að vinkona mín missti systur sína og tvö ung börn,með því að aftan i vagn dró bíl sem þau voru farþegar í út af vegi. Það var í aðstæðum sem oft myndast á þeim stöðum sem veðurfræðingar nefndu sérstaklega.- Það er full ástæða til að vara við ekki síst að leiðsögumenn ferðamanna þýði fréttirnar og komi þeim til þeirra sem sækja okkur heim.
Helga Kristjánsdóttir, 1.7.2014 kl. 21:00
Í þessu ljósi er athugasemdin þín réttmæt, Helga. Ég setti fyrirvara í niðurlagi pistilsins svo hann yrði ekki misskilinn.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.7.2014 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.