Hin yndæla framtíðarsýn um sól og sumar allt árið

Hin takmarkalausa þörf og löngun okkar Íslendinga eftir sól og yl er afar skiljanleg. Hver vill ekki búa þar sem er sól og blíða alla daga og hæfilegur hiti? Já, rétti sá upp hönd sem ekki er þannig gerður! Ekki er þó allt sem sýnist og vart flýr maður erfðir og uppeldi. Þeir sem hafa búið í „heitum löndum“ hafa ábyggilega flestir óskað sér að fá kaldur íslenskan gust sem kælir mann rétt sem snöggvast og auðveldi öndunina. Og auðvitað sakna allir hinnar reykvísku slagveðursrigningar líði of langur tími frá síðasta skammti. Flestir lifa þó sól, þurrk og hita af og enda um síðir uppi á skerinu kalda þar sem þjóðin óskar sínkt og heilagt eftir sól og hita þegar rigningin hefur ofboðið henni.

Kunningja mínum einum er gefið að sjá fram í tímann. Hann sagðist einn morguninn hafa fallið í einskonar trans og hann sá nokkur ár fram í tímann. Að því tilefni gerði hann sér heimsókn til mín og sagði mér eftirfarandi sögu, auðvitað í algjörum trúnaði.

Fundist hafði ævaforn flaska á Skeiðarársandsfjöru. Hún var opnuð í beinni útsendingu í sjónvarpi að viðastaddri ríkisstjórn og öðru mektarfólki. Og viti menn, upp úr flöskunni liðaðist gufukenndur reykur sem tók á sig mannsmynd sem mælti og gerði grein fyrir sér. Hér gefst ekki tími til að segja frá ættum og uppruna andans enda allt önnur saga. Hitt mun þó gerast að andinn bauð viðstöddum þrjár óskir fyrir að frelsa sig úr mörg hundruð ára prísund.

Þess ber að geta að þarna í framtíðinni er ekkert gert sem varðar þjóðarhag nema eftir allsherjaratkvæðagreiðslu. Og svo var í þetta sinn sem endranær. Ríkisstjórnin lagði fyrir þingið atriði sem hún vildi að þjóðin tæki afstöðu til vegna fyrstu óskar andans í flöskunni. Tillaga ríkisstjórnarinnar var þessi: 1. Næg atvinna fyrir alla. 2. Olía finnist á landinu, og 3. Verðmætir málmar finnist á landinu. 

Þingi felldi fyrsta atriði og setti í staðinn Sól og 15 til 30 stiga stiga hiti verði allt sumarið. Og þessu til viðbótar bætti hún við tveimur öðrum atriðum. 4. Flugvöllurinn í Vatnsmýri Reykjavíkur verði fluttur í heilu lagi á þar til gerðar undirstöður fyrir utan Gróttu.  5. Komið verði á heimsfriði.

Jæja, nú gerist það að þjóðin samþykkir með yfirgnæfandi meirihluta að sól og 15 til 30 stiga hiti verði að jafnaði alla daga sumarsins. Einhverjir voru óánægðir með að þjóðin skuli hafa hafnað heimsfriði eða möguleikum á verðmætum málum. Enginn vildi þó flytja flugvöllinn og þótti fáum skrýtið því þegar þarna var komið í framtíðinni taka flugför sig upp lóðrétt og lenda þannig líka.

Með viðhöfn var andanum sem bústað hafði átt í flöskunni tilkynnt um þjóðarákvörðunina. Hann lét á engu bera og samstundis hætti að rigna suðvestanlands, norðaustanáttina fyrir norðan lægði, Austfjarðaþokan færði sig út fyrir 200 mílna lögsögunnar og hafísinn fjarlægðist Vestfirði jafn mikið. Sólin spratt fram og gerði sig heimakomna á skerinu sem áður fyrr þótti svo kalsamt.

Gleði landsmanna varð nær takmarkalaust. Fólk flykktist út í fjalla- og standgöngur, sala á sólaráburði stórjókst og hagvöxtur batnaði að sama skapi. Margir urðu brúnir, sumir fyrst rauðir, flestir glaðlyndari og allir syntu í sjónum og sundlaugarnar urðu vinsælustu samkomustaðir landsins.

Já, og svo var hamingja fólks mikil að strax þetta næsta haust komu fram kröfur um að ekki myndi snjóa eða rigna á veturna, sama veðurfar yrði allt árið og helst þannig að skammdeginu myndi létta. Af landfræðilegum ástæðum þótti ekki hægt að krefjast slíks en eftir langar umræður á Alþingi var samþykkt að bera ætti upp aðra ósk upp við andann um gott vetrarveður. Stjórnmálamenn sem ekki voru í tengslum við alþýðuna voru eitthvað að tuða um heimsfriði, ESB, mengun og álíka en fengu ekki áheyrn.
 
Þjóðin fékk að því velja um tvö atriði: Veðrið og skárri efnahag. Hið fyrrnefnda fékk 90% atkvæða og kjörsókn var 90%.
 
Þóttist nú þjóðin vera í góðum málum og naut hún veðursins næstu misseri. Þá dró smám saman ský fyrir sólu, það er í óeiginlegri merkingu. Margvísleg vandamál höfðu gert vart við sig. Nefna má að tíð slys voru vegna húðbruna og í kjölfarið fjölgaði fólki með húðkrabba. Verra var, ef svo gáleysislega má orða það í samanburðinum við krabbann, að vatnsleysi gerði vart við sig. Sauðfé fækkaði vegna uppblásturs og gróðureyðingar, skordýrum fjölgaði og margvísleg skriðdýr námu land. Sjúkdómum fjölgaði í búfénaði og féll hann í stórum stíl.
 
Verra var þó að fiskveiði landamanna minnkaði, þorskurinn flutti sig norðar í kaldari sjó en í staðinn komu aðrar tegundir sem voru ekki eins verðmætar. Í kjölfarið á vatnsskortinum minnkaði rafmagnsframleiðan svo færri gátu notað loftkælingartækin sem höfðu verið flutt inn í stórum förmum. Afleiðingin varð einfaldlega skömmtun á rafmagni. Um svipað leiti fór ferðamönnum að fækka. Þeir kvörtuðu víst undan verðlagi, ryki, skemmdum á náttúru landsins og hversu erfitt var að hlaða raftæki.
 
Fór nú að renna tvær grímur á þjóðina enda aðstæður fjarri því að vera góðar, atvinnuleysið mikið, verðbólgan lifnaði við, þjóðarframleiðsla minnkaði og gjaldeyrisvaraforðinn rýrnaði eins og vatnið. Hinn almenni Jón þjáist í atvinnuleysi sínu af húðkrabba, hin elskulega Gunna fékk ekki nóg vatn til drykkjar og baða. Mæðulega lítur Gunna út um gluggann, sér samt lítið út því rúðurnar eru máðar af sandblæstri, hún stígur snöggt á kakkalakka sem nálgaðist hana, og svo hún heldur áfram að lesa á Facebook um kröfur fólks um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin vill nýta sér þriðju óskina. Hún hrópaði á hjálp.
 
Jafnvel ríkisstjórn landsins sér að ekki má við svo búið standa, hún svarar kalli þjóðarinnar því vandamálin voru orðin svo yfirþyrmandi. Hún lagði til við þingið gengið verði til þjóðaratkvæðis um þriðju og síðustu ósk flöskubúans fyrrverandi. Tillaga ríkisstjórnarinnar til Alþingi var að á atkvæðaseðlinum í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu standi þetta:
  1. Veðurfar verði eins og var áður en flöskubúinn breytti því
  2. Meira vatn, meira vatn
  3. Færri skordýr og engar eiturslöngur
  4. Lækningu á húðkrabba
  5. Heimsfriður

Alþingi ræddi síðan tillögu og samþykkti tillögu ríkisstjórnarinnar án umræðu.

Viku síðar, var haldin þjóðaatkvæðagreiðsla,“ sagði kunningi minn, en í því er hann sleppti orðinu hringdi síminn hans og hann varð hreint nauðsynlega að skreppa frá.

Raunar hef ég ekki séð hann síðan en brenn eyðilega í skinninu eftir því að fá að vita um niðurlag framtíðarsýnarinnar. Ég lofa því að segja frá endinum ef ég hitti kunningja minn aftur að máli. Mundu þó, kæri lesandi, að ég brást trúnaði kunningja míns með því að segja þér þessa sögu og haltu henni því leyndu. Að öðrum kosti fáum við aldrei að vita neitt um framhaldið.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband