Góða liðið og svo við hin ...

Hægt og bítandi missa sum orð merkingu eða snúast jafnvel upp í andhverfu sína. Í þvælinni umræðu stjórnmálamanna verða klisjur oftar en ekki ráðandi. Almenningur á því erfiðara en ella með að átta sig á því fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur stendur. Ef til vill er það tilgangurinn með innihaldslausu eða merkingarlitlu tali.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Hann gerir að umtalsefni þá þvælu sem stjórnmálamenn og margir aðrir skreyta sig með, sérstaklega á vinstri vængnum. Ég man eftir því að hér áður fyrr tíðkaðist að herma vinstri flokk upp á alþýðuna á einhvern hátt og jafnvel allir töldust um tíma verkalýður. Það þótti flott og vænlegt til árangurs. Tímarnir hafa breyst pínulítið að þessu leyti.

Óli Björn segir:

Á síðustu árum hafa íslenskir stjórnmálamenn í æ ríkara mæli skreytt sig með fallegum og jákvæðum orðum. Þeir segjast vera frjálslyndir (ýmist til vinstri eða hægri og jafnvel á miðjunni). Þeir eru talsmenn umburðarlyndis enda einstaklega víðsýnir. Flestir eru stjórnmálamennirnir orðnir sérstakir baráttumenn umbóta, unnendur náttúrunnar og vinir græna hagkerfisins. Stjórnmálamennirnir vilja beint lýðræði og forðast átakastjórnmál. Umræðustjórnmál er lausnarorð.

Og hann rekur dæmin og hæðist að þeim um leið svo þeim hlýtur að svíða undan sem taka til sín.

Ég held að þetta orðagjálfur hafi náð nýjum hæðum þegar stjórnmálamaður sem hefur ekki náð athygli eða frama innan eigin flokks fór að halda því fram að flokkurinn hafi yfirgefið hann og gömlu stefnuna og nú ráði vonda fólki. Eða þegar fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði um daginn að við, sem erum á móti aðild Íslands að ESB, séum svartstakkar og það var meint í afar neikvæðri merkingu. Ég viðurkenni að í þetta sinn sveið verulega undan uppnefni frá fyrrum samherja og raunar skil ég ekki svona pólitík.

Yfirleitt eru ganga umræðustjórnmálin út á að niðurlægja andstæðinganna. Margir þeirra sem aðhyllast slíka blaðurpólitík telja sig víðsýnt umburðalynt, frjálslynt og fær að eigin dómi hæstu einkunn, en hinir, meirihlutinn er eiginlega bara skítapakk, vont, öfgaliðið. Eða eins og Óli Björn orðar það:

Víðsýnn, umbótasinnaður og frjálslyndur stjórnmálamaður hefur lítinn áhuga á valfrelsi. Þétting byggðar, minni og hægari umferð eru hans ær og kýr. Aðeins sá sem hefur gengið íhaldsöflunum á hönd vill greiðar samgöngur, tryggja að einstaklingar geti valið sjálfir þann ferðamáta sem þeim hentar, að ekki sé talað um hugguleg og vel skipulögð úthverfi. Forhert afturhald óskar síðan eftir mislægum gatnamótum og það gengur næst guðlasti.

Sá er þetta ritar verður vonandi aldrei kenndur við frjálslyndi eða víðsýni, en sættist ágætlega á að vera brennimerktur sem íhald eða jafnvel, ef svo ber undir, afturhald og jafnvel frjálshyggju. En kannski mun gamall samherji nota önnur orð um mig og okkur hin. 

Takið eftir síðustu setningunni. Kunna lesendur að ráða í merkingu hennar?

Hitt er svo annað mál að svona stimplapólitík hefur náð árangri gegn Sjálfstæðisflokknum. Hvað er betra en að ljúga upp á andstæðinginn og berja sér á brjóst, hæla sjálfum sér eins og fariseinn í musterinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband