Efnahagshrunið var bara vont veður segir formaður Bjartrar framtíðar
27.3.2014 | 07:52
Mér finnst það ekki góð hugmynd að deila fjármunum til þeirra sem skulda mikið og eiga mikið, segir hann. Guðmundur segir hrunið, líkt og vont veður, hafa kallað á björgunaraðgerðir.
Þetta segir formaður flokksins sem vill að öll dýrin í skóginum séu vinir. Til þess að svo megi verða hefur hann lagt til að klukkunni verði seinkað svo hægt sé að sofa lengur frameftir á morgnanna.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, stígur nú allskyndilega fram í stjórnmálum og líkir efnahagshruninu 2008 við vont veður og telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar afar slæmar.
Þannig hugsa nú stuðningsmenn vinstri stjórnarinnar sálugu. Hún lofaði öllu fögru vegna hrunsins en stóð ekki við neitt.
Nú er komin önnur ríkisstjórn sem lofaði aðgerðum og stendur við loforð sín. Þá vaknar skyndilega Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, við illan draum, og hefur allt út á efndirnar að setja. Var honum þó ekki lofað neinu, ekki frekar en í ESB viðræðuslitnum.
Það væri mjög slæm hugmynd í vondu veðri að fara í almenna björgunaraðgerð og senda öllum peysu. Þetta er svipað, margir eiga peysu og þurfa ekki peysu, sumir þurfa hana. Það er nokkurn veginn þannig sem þetta blasir við mér, segir hann.
Hann hefur þá skoðun að aðstoð ríkisstjórnarinnar við þá sem urðu fyrir skaða vegna verðtryggingarinnar megi líkja við peysugjöf í vondu veðri. Sjálfur stóð hann af sér vonda veðrið í föðurlandi, dúnúlpu og dúnbuxum og galla utanyfir.
Björt framtíð er einfeldningslegur og gamaldags stjórnmálaflokkur með þankagang á borð við þann sem einkenndi ákveðna forystumenn í gömlu vinstri flokkunum. Slíkir sáu ekki skóginn fyrir trjánum og allt var slæmt nema það sem þeir sjálfir fundu upp.
Eitt er þó víst, þeir sem lentu í hremmingum efnahagshrunsins, töpuðu hluta eða öllu eiginfé sínu í heimilum sínum, munu ábyggilega ekki taka undir með Guðmundi Steingrímssyni um vonda veðrið og allra síst formælingar hans á efndir loforða ríkisstjórnarinnar. Ummælin hitta hann sjálfan fyrir og opinbera hallærislegar skoðanir þeirra sem ekki eru í neinum tengslum við heimilin í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.