Sendiherrar við skrifborð með síma og Skype
22.3.2014 | 12:40
Stundum finnst mér eins og við Íslendingar gleymum því að við erum afar fámenn, örþjóð sem í hita leiksins heldur að við séum þrjátíu milljónir og getum haldið úti ríkiskerfi eins og fjármagnið skipti engu máli.
Sendiherrar með síma
Ég viðurkenni að þetta er ekki mjög ítarlega úthugsuð hugmynd, og þó. Hvers vegna í ósköpunum höldum við úti dýrri utanríkisþjónustu? Af hverju setjum við ekki upp nokkur skrifborð á efstu ráðuneytisins við Rauðarárstíg í Reykjavík og setjum þar sendiherra með síma, tölvu, stóran skjá og aðgang að Skype og öðrum samskiptakerfum. Þannig verði samskipti okkar við önnur ríki, hreinlega í gegnum síma og tölvu. Enginn verði staðsettur í útlöndum nema ef til vill einstaka starfsmenn sem við getum leigt herbergi undir hjá sendiráðum annarra ríkja, svo sem þeirra skandinavísku.
Notum sparnaðinn í mikilvægari mál
Með því að fækka starfsmönnum í utanríkisráðuneytinu getum við gert það að nokkurs konar hliðarráðuneyti eins og samgönguráðuneytið eða dómsmálaráðuneytið voru hér á árum áður. Spörum um leið nokkra milljarða sem við getum sett í það sem meira máli skiptir eins og menntakerfið eða heilbrigðismálin.
Hvimleiður kækur
Þetta flaug svona í gegnum hugað þegar ég las afbragðsgóða grein eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem hann ritar á Evrópuvaktina. Í greininni segir hann meðal annars:
Það er gott að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafi farið til Úkraínu með fylgdarliði til þess að sýna stuðning við málstað Úkraínumanna. En það er hvimleiður kækur ráðamanna hér að halda því fram, að Ísland geti á einhvern hátt hjálpað til í deilumálum af þessu tagi eins og ætla má af orðum utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag.
Svo er ekki og ætti að vera öllum ljóst.
Síðast þegar slíku var haldið fram að því er virtist í fullri alvöru var eftir ferð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til Palestínu í utanríkisráðherratíð hennar. Eftir þá ferð var utanríkisráðuneytið um hríð upptekið af svo barnalegum hugmyndum.
Frekar að senda mann með myndavél
Þegar öllu er á botninn hvolft hefði utanríkisráðherra átt að halda sig heima. Nægilegt hefði verið að senda einn mann til að skoða þinghúsið í Kænugarði og hitta utanríkisráðherra þarlendra. Sendimaðurinn hefði hæglega getað verið með iPhone og tekið bæði ljósmyndir og hreyfimyndir. Svo hefði verið hægt að halda myndasýningu fyrir ráðherrann, starfsfólk í ráðuneytinu og aðra sem áhuga hafa. Þannig hefði verið hægt að spara nokkrar milljónir króna.
Örríki eiga lítið erindi í alþjóðadeilur
Hitt er algjör villa og skortur á rökréttri hugsun að Ísland getið haft einhver áhrif í alþjóðlegum deilumálum. Við höfum hvorki mannafla, nægilega hæfileikamikið fólk né fjármagn til að standa í þannig æfingum. Við erum aðeins örríki.
Íslenskt sveitarfélag og örríkið
Um daginn var frétt í ríkissjónvarpinu þar sem hæðst var að því að víða um land eru svo fámenn sveitarfélög að íbúar þeirra gætu komist fyrir í einni blokk eða götu á höfuðborgarsvæðinu. Svona samanburður er gagnslaus og bendir einungis á að við Íslendingar erum svo fáir að við erum aðeins örlítið brot af íbúafjölda í borgum helstu nágrannalanda okkar. Þetta finnst fáum landsmönnum broslegt en er engu að síður staðreynd ...
Réttlætingin
Styrmir segir í lok greinar sinnar:
Það er ekkert nema gott um það að segja að heimsækja Úkraínu en ráðamenn eiga ekki að réttlæta þær ferðir með því að þeir geti haft þar einhverju hlutverki að gegna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hér er ég algjörlega sammála, það væri hægt að spara nokkrar millur með því að hagræða í utanríkisráðuneytinu með diplómata og sendiherra, þeir yrðu sennilega betri og augsýnilegri við tölvuskjáin og skype.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2014 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.