Dálítill munur er á klukku og bjöllu...

Sú var tíð, segir í bókum að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni . Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi lengur aldur hennar með sannindum. Svo var klukkan forn að enginn vissi lengur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var löngu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari. Samt undu gamlir menn enn þessari klukku. Að viðstöddum landfógeta, lögmanni og böðli og manni sem hátti að höggva og konu sem átti að drekkja, mátti oft á kyrrum degi um jónsmessubil, in andvara af Súlum og kjarrlykt úr Bláskógum, heyr óm klukkunnar blandinn niði Öxarár.

Þetta eru upphafsorð Íslandsklukkunnar eftir Halldór Laxnes. Meitluð orð og fögur frásögn svo lesandinn finnur sig næstum á Þingvöllum á þessum árum.

Íslandsklukkan er æði sérstök bók en eitthvað finnst mér risið á henni minnka ef hún hefði verið nefnd Íslandsbjallan ...

Víkur nú sögunni að annarri klukku (ekki bjöllu), þeirri sem Ernst Hemmingway nefnir í bók sinni For Whom the Bell Tolls. Sú er mögnuð, stórkostleg frásögn. Hún kom út í þýðingu Stefán Bjarmans. Í frásögn Jóns Karls Helgasonar á Hugrás, vef félagsvísindastofnunar Háskólans er birtur þessi kafli úr bréfi Stefáns:

Eg skal ekki neita því, að svo undarlega hittist á, að þetta er einmitt ein þeirra örfáubóka, sem hafa freistað mín til þýðingar. Eg er búinn að stara á hana girndaraugum árum saman. Hún er einhver sú fullkomnasta og undrafegursta bók, sem eg nokkurn tíma hef lesið, í þessari grein bókmennta, að segja. En hún er rétt á takmörkum þess að vera þýðanleg, enda veit eg ekki til að hún hafi verið þýdd á nokkurt mál, og þó eru fimm ár síðan hún kom út. (Það skyldi þá helzt vera á spænsku, enda er hún á löngum köflum samin með hliðsjón af því mál). Síðan eg kom heim hef eg endurlesið hana vandlega og tekið smá „Stikprufur“ hér og hvar, en árangurinn er bara sá, að örðugleikarnir standa ennþá gleggri fyrir mér. Þetta er einhver upplagðasta bók, sem til er, til að gjöreyðileggja í þýðingu, og eg er hræddur um að hún verði aldrei þýdd án æði mikilla skemmda, hver svo sem í það ræðst. Helvíti er að Halldór Laxness skuli ekki fást í hana, en það er víst vonlaust? Hann hefur bæði dirfsku og craftsmanship í ríkum mæli, og þess þarf hvorutveggja við, ef vel á að fara.

Og þarna er nú komin tengingin við Halldór Laxnes, en þeir báðir rita um örlagaríka klukku. Lítið myndi nú fas Hemmingways vera ef bókin hefði fengið þýðinguna Hverjum bjallan glymur. Þá hefði hún verið svo faslítil og ómerkileg, eiginlega dyrabjölluat. Það er nú hins vegar langt í frá og þýðingin á titlinum er mögnuð þó blaðamaður Morgunblaðsins skripli á honum og muni hann ekki orðrétt.

Jón Karl Helgason segir í áðurnefndri grein sinni:

Í bókinni um Ragnar var lögð höfuðáhersla á þetta handritshvarf og ósamkomulag forleggjarans og Stefáns um væntanlegan titil þýðingarinnar. Stefán vildi að hún nefndist Hverjum klukkan glymur en Ragnar ákvað að prenta hana undir titlinum Klukkan kallar. 


mbl.is Semja um hús Hemingways
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ekki veit ég af hverju stjórar bjöllur eru kallaðar klukkur.  Kannski vegna stærðarinnar?  "Whom the bell tolls" vísar ekki til vekjaraklukku, svo mikið er vízt.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.3.2014 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband