Ríkisstjórn sem er svo gegnsæ að hún er orðin glær
18.3.2014 | 09:01
Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.
Svo segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Nú berast hins vegar fréttir af ráðningu seðlabankastjóra frá því í mars 2009. Þá var að vísu við störf allt önnur ríkisstjórn en að henni stóð Samfylkingin og Vinstri grænir. Hins vegar spyrst allt út um síðir en þáverandi ríkisstjórn er vorkunn.
Sú hafði ekki ofangreint ákvæði í stjórnarsáttmála sínum og líkleg þess vegna auglýsti ríkisstjórnin til málamynda eftir seðlabankastjóra. Hún hafði ákveðinn mann í huga fyrir starfið og skipti þarf af leiðandi engu máli hverjir aðrir sóttu um. Þetta mátti hún aþþþíbara ...
Enn verður að ítreka að sú minnihlutastjórn sem um ræðir, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar var þá ekki farin að beita sér fyrir opinni stjórnsýslu og auknu gagnsæi. Í því skjóli ræddi trúnaðarmaður Samfylkingarinnar, Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður við þann umsækjanda sem hafði verið lofað að fá að verða seðlabankastjóri og spjölluðu þau kumpánlega um laun og launakjör.
Síðan er stofnuð matsnefnd með valinkunnum mönnum, þar á meðal Láru V. Júlíusdóttur, lögmanni, og eftirlætisumsækjandinn valinn af ríkisstjórninni sem síðar breytti um stefnu og beitti sér staðfastlega í fjögur ár fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Það hafði minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki dottið í hug að gæti verið þjóðráð.
Ég held að mjög fagmannlega hafi verið staðið að ráðningu núverandi seðlabankastjóra. Verra er ef til vill að síður fagmannlega hafi verið staðið að ekki-ráðningu annarra umsækjenda.
Hins vegar var síðasta ríkisstjórn alveg yndislega samtaka í opinni stjórnsýslu og gagnsæi svo ekki sé talað um lýðræðisumbætur. Bara vont fólk og illa innrætt sem talar um skjaldborgina, skuldastöðu heimila, málsóknir gegn ráðherrum, launahækkun fyrir forstjóra Landsspítalans og annað álíka sem engu skipti.
Að lokum er ekki úr vegi að geta þess að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og meirihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eru smám saman að vera gegnsærri eftir því sem tíminn líður og fleiri innanbúðarmenn tjá sig skýrar. Þær báðar eru svo gegnsæjar að þær eru næstum orðnar glærar ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svo ekki sé talað um uppboð á heimilum og útburð fjölskyldna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.3.2014 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.