Auðir fjallvegir og ekkert vonskuveður
12.2.2014 | 09:39
Miðað við myndir úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar er einfaldlega rangt að vonskuveður sé á fjallvegum um norðanvert landið.
Þetta geta allir staðreynt sem nenna að fara inn á hinn ágæta vef Vegagerðarinnar og afar vel útfærða síðu um vefmyndavélar.
Vel má vera að veður versni eftir því sem á daginn líður en flestir fjallvegir eru hinsvegar færir þegar þetta er ritað og örugglega þegar frétt Moggans var skrifuð.
Hér er mynd frá Gauksmýri, en þar getur oft verið slæmt veður en aldeilis ekki núna, meira að segja bíll á ferð á auðum vegi. Samkvæmt Vegagerðinni hefur einn bíll farið þar um síðustu tíu mínúturnar.
Ég hef farið nógu oft um Holtavörðuheiði til að vita að á meðfylgjandi mynd er ekkert vonskuveður hefur vel fært. Samkvæmt Vegagerðinni hafa fjórir bílar farið þarna um síðustu mínúturnar.
Svona má kanna allar vefmyndavélar og þær segja yfirleitt hið sama, umferð er á fjallvegum nema Þverárfjalli. Vissulega getur verið hvasst en vegir eru víðast auðir.
Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að mér finnst eiginlega nóg komið af gengdarlausum áróðri gegn landsbyggðinni. Þar á einfaldlega ekki að vera lífvænlegt meðan allt er gúddí og gott hér á suðvesturhorninu, allar götur eru auðar á og hið eina sem þar bjátar á er umferðaöngþveitið í upphafi og lok vinnudags.
Jafnvel veðurfræðingarnir í fréttatímum sjónvarpa staðsetja sig flestir á suðvesturhorninu og tala síðan niður til landsbyggðarinnar.
Hríð, skafrenningur og blinda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er dæmi um verðfellingu orða, sem er svo mikið stunduð hér á landi. Allt er orðið frábært, meira að segja frammistaða óstyrkra nýliða í þáttum eins og Talent. Og verð á öllum mögulegum hlutum er frábært.
Orð eins og gríðarlegt og gríðarlega eru notuð þega einfaldlega er hægt að nota orðin mikið og mjög.
Svipað er oft á tíðum að segja um notkun orða varðandi veður og færð, en slíkt getur valdið ákveðinni hættu vegna þess að þegar raunverulega þarf á stórum lýsingarorðum að halda eru búið að taka úr þeim allan brodd.
Ómar Ragnarsson, 12.2.2014 kl. 14:26
Bestu þakkir fyrir þetta, Ómar. Fyllilega sammála. „Ágætt“ er ekki lengur betra en „gott“, „þokkalegt“ er ekki til og svo framvegis.
Hitt er svo líka vandamál að fjölmiðlar miða allt út frá Reykjavík í stað þess að setja hana með landsbyggðinni og orða fréttaflutninginn eins og fjölmiðlamenn séu án staðsetningar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.2.2014 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.