Hvernig berast fiskisögur milli fugla?

Áhugaverð frétt í Morgunblaðinu í morgun vakti athygli mína. Þar segir frá fuglatalningu á norðanverðu Snæfellsnesi. Sem kunnugt er hefur verið mikið um síld í Kolgrafarfirði og blaðamaður hefur samband við Róbert A Stefánsson, líffræðing og forstöðumann Náttúrustofu Vesturlands. 

Í fréttinni segir: 

Nú sáust 3.730 súlur og rétt fyrir áramót voru um tólf þúsund súlur á svæðinu. Súlur voru mjög sjaldséðar við norðanvert Snæfellsnes áður en síldin fór að ganga þar inn. Eins sáust nú 32 hafernir, sem þykir mikið.

Skáladalur3

Róbert sagði að það væri ekki alveg vitað hvernig fiskisögur flygju á milli fugla.Og svo veltir blaðamaður og viðmælandi fyrir sér hvernig fuglar frétta af því hvar sé matarvon:

„Ég held að við vanmetum greind og tjáskiptahæfni dýranna. Það er þekkt, t.d. með hrafna og skyldar tegundir, að þeir skiptast á upplýsingum í næturstað um svona lagað. Það er ekkert sem segir að máfar geti ekki einnig gert það. Ég tel líklegt að fuglarnir geti skipst á upplýsingum,“ sagði Róbert.

Hann sagði að fuglarnir gætu líka elt hver annan, en ljóst væri að einhvern veginn fréttu fuglarnir af góðri fiskgengd og miklu æti.

Það er þetta með „tjáskipti“ fugla er dálítið forvitnilegt og efni þessa pistils.

940708-33

Eitt sinn sem oftar var ég í Aðalvík á Hornströndum og gekk með góðu fólki upp á fjallið Darra. Þar nálægt bjargbrún Grænuhlíðar standa leifar af radarstöð Breta frá því í seinni heimsstyrjöld. Frá þeim gengum við ofan í Skáladal en þangað niður er afar bratt en óskaplega falleg. Ofan í Skáladal eru nokkrar tjarnir og ein stærst.

Þegar við komum neðar sáum við bókstaflega straum fugla sem flugu hátt inn í dalinn frá Ritunum. Held að þetta hafi verið silfurmáfar.

Við tjörnina steyptu þeir sér niður að henni og dvöldu í skamman tíma í henni. Hverra erinda fuglarnir fóru í tjörnina veit ég ekki en þeir busluðu þarna um stundu og fór síðan. Okkur til mikillar undrunar sáum við að fuglarnir fóru sömu leið til baka en flugu þá miklu lægra.

940708-34

Þannig myndaðist umferð í loftinu og var greinileg regla á ferðum fuglanna. Þeir gættu þess að hafa einstefnu báðar leiðir svo komufuglar og farfuglar mættust ekki. Hugsanlega gerðu þeir þetta til að greiða fyrir umferð og minnka slysahættu.

Allt var þetta svo skýrt og greinilegt að í hugum okkar sem á horfðu var enginn vafi á því hvað var að gerast. Þetta var einfaldlega vitrænt skipulag sem auðveldaði flug og ferðir fugla að tilteknum áfangastað og til baka.

Aldrei varð heldur nein örtröð á tjörninni því fuglarnir gættu þess að dvelja þar ekki of lengi ... eða að fyrirskipunin hafi verið sú að fuglar gætu dvalið þar í tiltekinn „tíma“ og síðan ættu þeir að fara ... 

Nú velti ég því fyrir mér hvernig svona skipulag geti komist á. Mér er til mikils efs að fuglar hafi þarna elt hverja aðra í einhverri blindni.

Ekki veit ég heldur hvað var svona eftirsóknarvert við ferskvatnstjörnina. Fuglarnir gætu til dæmis hafa verið að skola af sér seltu, sækja sér leir eða sand úr botni hennar eða eitthvað annað. Erindið er í sjálfu sér ekki aðalatriði heldur hitt að skipulagið var til staðar sem stórkostlegt var á að horfa.

940708-37

Ekki veit ég hvernig fuglar skiptast á upplýsingum en eftir þetta er ekki vafi um það í huga mínum og undir það geta þeir tekið sem fylgst hafa með atferli fugla á einn eða annan hátt. Lífið er ekki algjörlega blint og dýr og fuglar velja um þá kosti sem í boði eru.

Myndirnar eru ekkert sérstakar enda var ég ekki með góða myndavél í þessari ferð. Þær eru teknar á filmu myndirnar hef ég skannað. Með góðum vilja geta lesendur ef til vill ráðið í þær.

  1. Efsta myndin er fengin að láni frá Google Maps og er loftmynd af Skálavík. Inn á hana eru tjarnirnar tvær og ég hef merkt flugleiðir fuglanna að þeim. Þess ber að gera að flugleiðirnar eru í mismunandi hæð eins og segir hér að undan.
  2. Næst er mynd af neðri ferskvatnstjörninni. 
  3. Á þeirri næstu má greina hvernig fuglarnir koma að tjörninni og lenda þar 
  4. Síðast er nærmynd af tjörninni og umferð við hana. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

"Flýgur fiskisagan..."



Ágúst H Bjarnason, 24.1.2014 kl. 14:10

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ansans, þetta er auðvitað betri fyrirsögn: Hvernig flýgur fiskisagan milli fugla? ... eða kannski ofstuðlað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.1.2014 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband