Þarf menningarstarf að vera á vegum sveitarfélaga?
9.1.2014 | 20:45
Það hafa aftur á móti verið skrifaðar heilar bækur í Háskólanum hvernig megi skýra það út af hverju t.d. í sveitarfélögum með enga menningarstarfssemi séu íbúar ánægðari með menningarstarfsemi sveitarfélagsins en í Reykjavík.
Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn í viðtali við visir.is. Umræðuefnið er sú staðreynd að Capacent mælir í skoðanakönnunum mikla óánægju með þjónustu borgarinnar við almenning.
Þetta viðhorf Dags er í ætt við það sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrum ráðherra hafa haldið fram. Í stuttu máli hljóðar það á þann veg að gæði séu grundvöllur mikillar vinnu og miklir peningar skapa mesta ánægju. Misskilningurinn er sem sagt sá að á milli séu bein tengsl. Steingrímur hélt að hann gæti unnið nær allan sólarhringinn og náð miklum árangri en það var bara ekki þannig.
Nú væri gaman að vita hvaða sveitarfélög eru ekki með neina menningarstarfsemi. Mér vitanlega sinna öll sveitarfélög menningarstarfi, bæði beint og óbeint. Ég þekki til í litlum sveitarfélögum sem reka bókasöfn, slíkt telst ábyggilega menningarstarf. Þar er mjög algengt að einstaklingar eru styrktir til að sinna menningarmálum og fleiri en sveitarfélög veita styrki, t.d. eru menningarráð starfandi í mörgum landshlutum. Styrkir eru veittir til leiklistarsýningar, málverkasýningar, ljósmyndasýningar, tónleika af fjölmörgu tagi, sagnaritun og fleira og fleira. Og margvísleg menningarstarfsemi flyst frá einum stað til annars.
Mér finnst algjör óþarfi af Degi að sneiða að fátækum sveitarfélögum og gera að því skóna að engin menning fyrirfinnist þar. Skynsamlegra væri fyrir hann og meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur að komast að því hversu margir nýta sér menningarstarf hin opinbera í Reykjavík og ekki síður hvers vegna hinn stóri fjöldi gerir það ekki.
Staðreyndin er einfaldlega sú að í litlum sveitarfélögum sækja stundum nær allir íbúarnir menningarstarf af einhverju tagi. Ég hef búið á þremur litlum bæjum á úti á landi og á meðan sótti ég miklu fleiri menningarviðburði en þegar ég hef verið búsettur í Reykjavík.
Í ofanálag er fólk á landsbyggðinni oft bæði veitendur og þiggjendur í menningarstarfi. Þess vegna er mannlífið þar stórbrotið og skemmtilegt og ekki síður fallegt. Sagt er að í samanburðinum við landsbyggðina séu hlutfallslega fleiri höfuðborgarbúar einmanna.
Dagur B. Eggertsson heldur að í því sé fólgin þversögn að fólk sé ánægt með menningarstarfsemi þó hún sé ekki kostuð og skipulögð af sveitarfélaginu. Hann á greinilega margt ólært.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.