Náttúruvernd eða kerfisvernd

Landsvirkjun er síst af öllum innlendum aðilum fallið til að hafa forystu um náttúruvernd á Íslandi. Hingað til hefur þurft lög og reglur til að halda þessu fyrirtæki í skefjum og dugar varla til. Fyrirtækið býr til og notar núna verðmiða á fyrirhugaða veitu framkvæmd sem rök gegn náttúruvernd sem umhverfisráðherra margir aðrir taka gagnrýnislaust undir. Afskipti fyrirtækja eins og Landsvirkjunar af stjórnmálum eru ekki við hæfi.
 
Eigum við að vaða áfram í blindni þegar Landsvirkjun þóknast eða eigum við að vera gagnrýnin? Liggur það ekki í eðli máls að borgararnir megi vera gagnrýnir á framkvæmdir stjórnvalda og fyrirætlanir fyrirtækja?  

Sumir halda því fram að vegur í gegnum Gálgahraun skipti ekki höfuðmáli. Sömu rök eiga þá líklega við um Rauðhóla og annað smotterí. En hvað skiptir þá höfuðmáli? Hvað skiptir höfuðmáli þegar bæjarstjórn Garðabæjar eða önnur sveitarfélög hugsa sér til hreyfings?
 
Er þá lítið jarðrask í lagi? Og hver er munurinn á litlu eða miklu jarðraski? Hvenær á maður svo að álíta svo að nóg sé komið af „jarðröskum“ og skemmdum á smotteríum ...?

Ég er þess fullviss að fjöldi sjálfstæðismanna eru mjög uggandi yfir umhverfis- og náttúruvernd hér á landi og þeir líti ekki svo á að smávægileg atriði skipti litlu. Þau skipta máli, jafnvel í náttúru landsins. Stóru „atriðunum“ fer fækkandi, það er að segja víðerninunum. Hvað er þá eftir til að hafa áhyggjur af ef ekki smáatriðunum?

Rammaáætlunin er góð sátt um nýtingu landsins en hana, eins og aðrar sáttir, verður að halda.
 
Munum svo að það eru ekki þeir sem kallaðir eru náttúruverndarsinnar sem rufu sáttina um Rammáætlun. Lítum á hnignandi orðspor ríkisstjórnar og þingsins. Ég fullyrði að um er að kenna misvirtum ráðherrum og bæjarstjórnum eins og í Garðabæ. Vogi einhver sér að gagnrýna málefnalega aðgerðir eða framkvæmdir rjúka þessir aðilar upp til handa og fóta vogi og öll rök gegn framkvæmdum eru sjálfkrafa talin til persónulegra árása og þau því stórhættuleg.

Er nú ekki furða þó illa sé komið fyrir stofnunum ríkisins, löggjafarvaldinu og ríkisvaldinu þegar ekki er betur staðið að málum og sættir rofnar. Er ekki bæjarstjórinn í Garðabæ og umhverfisráðherra komnir í sömu stöðu og rónarnir sem sagðir eru hafa komið óorði á brennivínið.

Hver sagðist nú ætla að afnema ný náttúruverndarlög einn og óstuddur? Sá nefndi ekki Alþingi í yfirlýsingu sinni, hans var löggjafarvaldið og dýrðin. Þannig verður óorðið til ... og öðrum verður ómótt. Skiptir engu hvort maður er hlynntur þessum náttúruverndarlögum eða ekki.
 
Uppistaðan í ofangreindu ritaði ég sem athugasemd við blogg vinar míns, Jóns Magnússonar, lögmanns. Hann taldi sig vera að ræða um náttúruvernd en fjallaði þó aðeins um kerfisvernd. Þetta var með endemum slöpp ritsmíð, ólíkt þeim mælska og ágæta manni. Hann stekkur til varnar málstað kerfisins í stað þess að brúka gagnrýna hugsun. Hann á að berja á kerfinu sem veður fram á sama hátt og gert var þegar Rauðhólarnir voru rústaðir ... eða þegar jarðýtunni var sigað á Gálgahraun.
 
Það er svo allt annað mál að ástæðan fyrir þessari kerfisvörn er líklega sú að vinstra liðið er meira áberandi í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Í stað þess að móta sér skoðun á þessum málaflokkum lenda margir hægri menn í því að verja kerfið, vonda málstaðinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband