Geimverur á meðal okkar - það skýrir allt

Paul Hellyer, fyrrum varnarmálaráðherra Kanada, segir að hér á jörðinni búi nú geimverur af 80 mismunandi tegundum en neiti að deila tækniþekkingu sinni með okkur þar til við látum af átökum og annarri miður góðri hegðan.

Hvar værum við stödd ef ekki væri fyrir veffjölmiðilinn pressan.is. Í frétt segir hún frá því að hér búi geimverur. ... Augnablik, ekki vera með neina fordóma, kæri lesandi. Við skulum skoða þetta áfram. Samkvæmt þessum veffjöllistamiðli segir:

Sumar þeirra líkjast okkur algjörlega og gætu gengið framhjá okkur á götu úti án þess að við vissum af því. Fljúgandi furðuhlutir hafa lengið heimsótt okkur og auðvitað hefur það orðið algengara eftir að við fundum kjarnorkusprengjuna upp.

Skyndilega er sem ég uppgötvi alla leyndardóma lífsins. Auðvitað er þetta satt hjá honum. Hvernig má annað vera.

Lítum okkur nær. Hverjir eru það sem skrifa í athugasemdakerfi fjölmiðla? Jú, miðað við orðbragðið eru þetta geimverur af lægstu sort. Hver þekkir til dæmis einhvern sem skrifar í athugasemdakerfin? Enginn. Þetta lið kemur og fer með fljúgandi furðuhlutum. Og bloggararnir eru allir geimverur.

Hvernig má skýra vinnubrögð síðustu ríkisstjórnar? Jú, ráðherrarnir voru allir geimverur og höfðu engan skilning á þjóðfélaginu. Þær tóku líklega yfir líkama ráðherranna og fengu síðan að skemmta sér að vild. Ég er sannfærður um að á einhverri fjarlægri stjörnu er starfandi ferðaskrifstofa sem selur aðgang að íslenskum stjórnmálamönnum.

Og hver er þessi Björn Valur Gíslason, sem sagður var hafa verið þingmaður Vinstri grænna? Hefur nokkur maður hitt hann eða talað við hann, komið heim til hans, séð hann á veitingastað? Nei, auðvitað ekki. Björn þessi er geimvera og hann er núna farinn áleiðis heim til sín og mun halda þar slædsmyndasýningu og segja frá sprelli sínu á litla Íslandi á reikistjörnunni Jörðin. Og allir munu skellihlæja og skemmta sér.

Það eina sem ég er að velt fyrir mér er hvort að borgarstjórinn sé farinn í ljósáraflug sitt til reikistjörnunnar Gnarr í stjörnuþokunni M33. 

Jæja, má ekki vera að þessu. Þetta er síðasti pistillinn hjá mér, fljúgandi diskur er lentur úti í garði og brottför tilkynnt eftir tvær mínútur. Þakka fyrir skemmtilega dvöl á meðal jarðarbúa ...

Og ... Qapla, eins og við segjum á klingósku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband