Nei, ég botna ekkert í Ragnheiði Elínu ...

Hún er óskiljanleg, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að ferðamálum. Hún er einbeitt í þeim áformum sínum að gera útaf við ferðafrelsi landsmanna, þess sem þeir hafa notið frá landnámi. Jafnvel forfeður okkar gættu þess að í lögum væru ákvæði um frjálsa för almennings um lönd sem voru í einkaeigu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála í ríkisstjórn Íslands segir eftirfarandi í grein í Morgunblaðinu í morgun:

Ört vaxandi fjölda ferðamanna fylgja miklar tekjur í þjóðarbúið en einnig ýmsar áskoranir. Mikilvægt er að vernda þá „vöru“ sem ferðamennirnir sækja hingað til að njóta sem er íslenska náttúran, við þurfum að byggja upp fleiri staði til þess að dreifa álaginu og síðast en ekki síst þurfum við að tryggja öryggi ferðamannanna. 

Hún fullyrðir að af ferðamönnum, væntanlega innlendum sem erlendum, komi miklar tekjur í „þjóðarbúið“, líklega líka ríkissjóð. Engu að síður er ekki hægt að ráðstafa nema örlitlum hluta af því fjármagni til uppbyggingar. Því sem uppá vantar ætlar hún að redda með svokölluðum „náttúrupassa eða ferðakorts sem ætlunin er að lögleiða á árinu 2014“.

Já, góðan daginn. Var Ragnheiður Elín í síðustu ríkisstjórn eða á að taka upp verklag þeirrar ríkisstjórnar sem einkenndist af flaustri, óðagoti og leyndarmálum?

Vissulega þarf að byggja upp fleiri ferðamannastaði, en hverjir eru þeir. Ragnheiður Elín svara engu um það. Hvaða máli kemur öryggi ferðamanna svokölluðum náttúrupassa við? Ragnheiður Elín svara engu til um það.

Ég hef gengið og ekið þvers og kruss um landið frá því ég var barn. Dytti mér á næsta ári í hug að ganga frá Eyjafirði suður á land á skíðum, vélsleðum eða jeppum að vetrarlagi þá þar ég líklega að borga eitthvers konar gjald. Ætli ég að ganga yfir Fimmvörðuháls verð ég ábyggilega rukkaður tvisvar eða þrisvar, einu sinni af sveitarfélaginu við Skógafoss, í annað skipti af Ragnheiði Elínu og líklega í þriðja skiptið af Útivist. Og myndi ég halda áfram göngunni í áttina til Landmannalauga og plastið í kreditkortinu væri ekki bráðnað þyrfti ég að greiða skatt til Ferðafélagsins og án ef borga upprekstrargjald í Almenningum til sveitarfélagsins. Líklega myndi Ragnheiður Elín líklega vilja skoða í bakpokann minn til að gæta að öryggi mínu, ég hefði nægan mat og annað til útilegunnar.

Nei, ég botna ekkert í henni Ragnheiði Elínu. Það væri ótrúlegt ef svona skattheimta og frelsisskerðing næði í gegn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Misminnir mig eða var ekki fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á erlenda ferðamenn dregin til baka af þessari sömu Ragnheiði Elínu? Hún ætlar sem sagt að leggja þær tekjur, sem hún afþakkaði af útlendingum, á Íslendinga sem eru að "álpast" um landið að "erindisleysu".

Er verið að gera okkur að gestum í eigin landi sem geta ekki ferðast um landið nema í gegnum skúffu í ráðuneytinu?

Er þessi talsmaður frelsis til orða og æðis ekki kominn illilega af sporinu?

Næsta skref verður væntanlega gjaldskýli við öll rúlluhlið á landinu, rauður aðgangur fyrir innfædda og grænn fyrir erlenda ferðamenn! 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.1.2014 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband