Einn forsendubrestur leiðréttur en annar er eftir ...

Verkefnið framundan er fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og slá skjaldborg um heimilin í landinu, þétta það öryggisnet sem heimilin búa við og við nauðsynlega þurfum á að halda á þessum tímum.

Hver skyldi nú hafa sagt þetta? Jú, þannig orðaði Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður, fyrirætlanir sínar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar hún fékk umboð til myndunar ríkisstjórnar þann 1. febrúar 2009. Þá var mynduð minnihlutastjórn þessara flokka og um vorið tók við meirihlutastjórn þeirra. 

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, rifjar upp þessi orð í frábærri grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir í upphafi greinarinnar:

Leiðtogar Samfylkingar og Vinstri grænna eiga erfitt. Þeir virðast sætta sig illa við að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynni róttækar aðgerðir í skuldamálum heimilanna, aðeins sex mánuðum eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum af vinstri stjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg.

Skuldamál heimilanna þvældust fyrir vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í meira en fjögur ár. Í upphafi var því heitið að gripið yrði til róttækra aðgerða til að aðstoða skuldug heimili - að slegin yrði um þau skjaldborg.

Þetta er rétt hjá Óla Birni. Stjórnarandstaðan virðist hafa misst fótanna og geti einfaldlega ekki staðið upp aftur. Efndir á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar virðist hafa komið þeim gjörsamlega á óvart og þjóðin fagnar eins og glögglega má sjá af skoðanakönnun sem birt er í Morgunblaðinu í dag. 

Þjóðin man þessi digurbarkalegu orð um skjaldborgina. Þau eru víti til varnaðar, dæmi um ríkisstjórn sem fer af stað með góðar fyrirætlanir en allt fer í handaskolum. Óli Björn orðar það þannig:

Ekki skal efast um góðan ásetning vinstri stjórnarinnar. En líkt og oft áður féllu vinstri menn í gryfju skrifræðis og skattahækkana. Í stað markvissra almennra lausna var gripið til sértækra aðgerða, með tilheyrandi biðröðum, endalausum flækjum í regluverki og pappírsfargani. Vandi heimilanna var aukinn enn frekar með hærri sköttum og opinberum gjöldum. 

Óli Björn minnir á að fátt af því sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að gera komst til framkvæmda heldur var það Hæstiréttur sem færði almenningi mestar leiðréttingar. En Óli Björn er raunsær maður og þess vegna segir hann í grein sinni og þetta hljóta allir hugsandi menn að samþykkja, hvar í flokki sem þeir standa (greinaskil og feitletranir eru á mína ábyrgð):

Róttækar tillögur ríkisstjórnarinnar um að rétta við hlut heimilanna eru aðeins hluti af þeim verkefnum sem bíða. Með þeim er verið að leiðrétta það sem kallað er forsendubrestur vegna falls krónunnar og mikillar verðbólgu.

En þá er eftir að leiðrétta annan forsendubrest sem er síst minni: Gríðarlega hækkun skatta, minni atvinnu og lægri laun.

Slíkur forsendubrestur verður ekki leiðréttur nema með því að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, auka fjárfestingu og lækka skatta og opinber gjöld

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband