Löskuð ímynd og skertur trúverðugleiki
2.12.2013 | 10:15
Um árabil var vitað að nýr Álftanesvegur í gegnum Gálgahraun/Garðahraun í Garðabæ yrði afar umdeildur. Skoðanakönnun MMR leiddi í ljós að 25,1% landamanna var hlynnt veglagningunni en 42,2% voru andsnúin framkvæmdinni. Þetta mikil andstaða við framkvæmdina undirstrikar mikilvægi vandaðra vinnubragða. Að knýja mál áfram í krafti stærðar og valds er sjaldan til góðs. Það fer öfugt ofan í almenning. Oft er því bæði gott og rétt að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Án þess að ræða við helstu andstæðinga framkvæmdanna og reyna að ná sátt í málinu áður en vinnuvélarnar tóku til starfa var ljóst að framundan væru átök við Hraunavini eins og raunin varð. Viðbrögð Garðabæjar, Vegagerðarinnar og innanríkisráðuneytisins bera vitni um að engin aðgerðaáætlun virðist hafa verið gerð til þess að mæta málflutningi og sjónarmiðum Hraunavina og samúð almennings með þeim endurspeglaðist bæði í samfélagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum.
Þetta hef ég nokkrum sinnum nefnt hér. Gott fólk hefur á undanförnum fimmtán árum staðið upp og viljað leggja sveitarfélagi eins og Garðabæ lið. Í stað þess að þakka fyrir og nýta sér hjálpina er nánast litið á þetta fólk sem hryðjuverkamenn, það talið óalandi og óferjandi. Fólk eins og Ómar Ragnarsson, Eiður Svanberg Guðnason, Gunnsteinn Ólafsson, Reynir Ingibjartsson og fleiri ...
Vér einir vitum og getum, var viðhorf bæjarstjórnar Garðabæjar. Þess vegna fór sem fór. Orðspor bæjarstjórnarinnar og Vegargerðarinnar er laskað. Saman hafa þessir aðilar valdið miklu og óafturkræfu tjóni og það fyrirgefst seint.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.