Vodafone bregst skynsamlega við í krísuástandi
2.12.2013 | 09:41
Símafyrirtækið Vodafone hefur tekið til skynsamlegra varnarviðbragða vegna tölvuárásarinnar á netkerfið í síðustu viku. Að vísu var lítið að græða af almannatengslafulltrúa fyrirtækisins á föstudagsmorgni og fram eftir þeim degi. Ástæðan var einfaldlega sú að fyrirtækinu var ekki ljóst hver umfang glæpsins var og því auðvelt að reka talsmenn fyrirtækisins á gat.
Þetta hefur eðlilega breyst, fyrirtækið náð vopnum sínum, og það birtir í dag auglýsingu, meðal annars í Morgunblaðinu. Í henni er staða máls rakin á einfaldan og auðskilinn hátt.
Í auglýsingunni kemur fram að 79 þúsund vefskilaboðum var stolið og 75% þeirra voru almennar þjónustutilkynningar. Einu SMS skilaboðin sem geymd voru eru svokölluð vefSMS skilaboða, ekki SMS skilaboð úr símtækjum viðskiptavina. Þetta virðist vera minna en áður var óttast.
Einnig kemur fram að þeir sem áhyggjur hafa af sínum málum geta komið í sérstakt gagnaherbergi og fundið út hver persónulegi skaðinn kunni að vera.
Fyrirtækið hefur einlæglega viðurkennt mistök og hefur lagt vinnu í að lagfæra það sem tölvuþrjóturinn komst inn í kerfið. Það er til fyrirmyndar.
Frá mínum sjónarhóli er staðan einfaldlega þessi. Ekki er hægt að kenna símafyrirtækinu um vandann, ekki frekar en að innbrot sé húseiganda að kenna. Hitt er ljóst að fyrirtækið hefði átt að standa betur að öryggismálum sínum. En standa ekki allir bara nokkuð vel að sínum málum þangað til annað kemur í ljós.
Viðbrögð Vodafone í krísuástandi eru þegar öllu er á botninn hvolft til mikillar fyrirmyndar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.