Steingrímur og ESB-umsóknin
8.11.2013 | 09:55
Eins vaknar sú spurning hvers vegna VG hafi á endanum þurft að gera erfiða málamiðlun vegna málsins, eins og Steingrímur orðaði það meðal annars á Alþingi 10. júlí 2009, ef niðurstaða málsins var í samræmi við stefnu flokksins. Sú málamiðlun fólst í því að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið en ekki formlega í nafni ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna þurfti slíkt fyrirkomulag ef framhald málsins eins og það síðan varð var í samræmi við stefnu VG? Hver var þá tilgangurinn með því? Vitanlega var ástæðan sú að stefna flokksins heimilaði alls ekki slíka umsókn. Því þurfti krókaleiðir.
Hjörtur Guðmundsson, blaðamaður Morgunblaðsins, ritar góðan Pistil á blaðsíðu tuttugu og sex í Morgunblaði dagsins. Í henni fjallar hann um þversagnir í stefnu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vegna umsóknar landsins í ESB og bók Steingríms J. Sigfússonar, fyrrum ráðherra og formanns flokksins.
Eins og Hjörtur rekur í ofangreindri tilvitnun og í pistlinum sjálfum rekur sig hvað á annars horn í yfirlýsingum og framkvæmdum flokksins í ríkisstjórn. Í öðru orðinu hélt flokkurinn, og þá Steingrímur, því fram að flokkurinn væri á mót aðild að ESB. Í hinu orðinu var stefnan svikin og sótt um aðild að ESB. Í þokkabót var því skrökvað að þjóðinni að umsóknin væri til þess gerð að fá góðan samning við ESB.
Hjörtur segir:
Tilgangurinn var fyrst og síðast að tryggja áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf vinstriflokkanna. Andstöðu VG við inngöngu í Evrópusambandið var einfaldlega fórnað í þágu þess, enda sagði Steingrímur í títtnefndri ræðu sinni að sumir myndu kalla málamiðlunina við Samfylkinguna fórn. Væntanlega hefur hann sannfært sjálfan sig um að nauðsynlegt væri að færa þá fórn fyrir ráðherrastólana. En það voru bara ekki allir reiðubúnir til þess.
Þetta er auðvitað ástæðan fyrir andstöðu Jóns Bjarnasonar, Hjörleifs Guttormssonar, Ásmundar Einars Daðasonar, Atla Gíslasonar og fleiri VG manna sem einfaldlega sögðu sig úr flokknum vegna ESB málsins. Steingrímur getur því ekki haldið því fram að allt leiki í lyndi því þannig er það ekki.
Vegna fjögurra ára samfelldan tíma mistaka Steingríms og annarra samferðamanna hans tapaði VG hrikalega í síðustu þingkosningum og Steingrímur þurfti að segja af sér. Nú gerir hann upp fortíðina í bók á afar umdeildan hátt rétt eins og hann ritaði bók sem kom út árið 2006 og þar sem hann ætlaði að gera upp framtíðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er nokkuð öruggt að andstaða VG við ESB var ekkert annað en söluvara, það er alveg á hreinu að kjósendur kaupa ekki aftur þessa sviknu vöru og því tilgangslaust fyrir VG að hafa það fyrir stefnu í framtíðinni.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 8.11.2013 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.