Listin og persónuleg skoðun listamannsins?

Conductors

Getur maður hlustað á hljómsveitarstjóra, sem hefur lýst yfir stuðningi við stefnu Pútíns gegn samkynhneigðum og réttlætt ofsóknirnar gegn Pussy Riot, stjórna Tsjaikovskí og Shostakovits? [...] Sá sem hér er átt við er Valeri Gergiev, aðalstjórnandi í Marinskí leikhúsinu í Pétursborg og London Symphony Orchestra.

Þannig spyr Egill Helgason, þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu, í pistli á Eyjunni. Mér finnst þetta dálítið merkileg spurning og eiginlega heimspekileg. Varla er til við henni einhlítt svar en eflaust má skemmta sér með því að nálgast umræðuefnið fjölmargan máta.

Móðir mín var afar vel að sér í ljóðum, varla var það ljóð til sem hún kunni ekki eða hafði á eitthvað á hraðbergi um höfundinn. Einhverju sinni hafði ég uppgötvað, sem barn eða unglingur, að Jónasi Hallgrímssyni hafi þótt sopinn góður. Ég spurði móður mína hvernig hægt væri að taka mark á svona fyllibyttu og þykja vænt um ljóðin hans. Mæður hafa jafnan góð svör við öllu. Hún sagði einfaldlega það að ekki væri endalaust hægt að eltast við höfundinn sjálfan, það gæti enginn. Ljóðin stæðu fyrir sínu hvernig sem höfundurinn hafði hagað lífi sínu.

Þetta fannst mér gilt svar og tók ljóðin í sátt en skildi á milli þeirra og höfundarins. Síðar hef ég kynnst Jónasi af bókum góðra manna og líkar bara ágætlega við hann.

Eftir að ég varð eldri og reyndari gekk nú verr að skilja á milli listamanns og listar. Ég man hvað mér mislíkaði er ég uppgötvaði að Frank söngvari Sinatra hafi verið inni á gafli hjá mafíunni og hann hafi verið svo mislyndur að hann hafi barið bæði eiginkonur og börn. Svo hefur smám saman farið að mér þykir orðið æ leiðinlegra að hlusta á Franky boy. Hugsanlega er það bara vegna þess hversu tilgerðarlegur mér þykir hann.

Ég á margar bækur en met þær sjaldnast eftir höfundunum, miklun frekar eftir efninu. Uppi í hillu hjá mér eru pólitískar bækur eftir Magnús Kjartansson, Lúðvík Jósefsson, Einar Olgeirsson, Bjarna Benediktsson, Hannes Hólmstein Gissurarson, Valtý Stefánsson, ljóðabækur eftir Davíð Stefánsson og Einar Benediktsson, skáldsögur eftir hina og þessa og svo má lengi telja. Það myndi nú æra óstöðugan ef hann myndi telja réttlætanlegt að gera úttekt á höfundunum áður en hann byrjaði að lesa.

Mér er til mikils efs að ég geti heyrt muninn á túlkun Valeri Gerviev er hann stjórnar hljómsveit sem leikur Svanavatnið eftir Tschaikovsky eða hvort stjórnandinn sé Leonardo Bernstein, Pierre Boulez, Bernard Hitink, Carols Kleiber, Daniel Barenboim, Riccardo Muti, Simon Rattle, Claudion Abbado svo margir af stórkostlegustu hljómsveitarstjórum þessarar og síðustu aldar séu nefndir. 

Og hver skyldi skoðun þeirra vera á samkynhneigð? Couldn't care less ... segi ég nú bara og á líklega von á ávirðingum frá einhverjum. 

Myndina tók ég af vefnum sinfinimusic.com. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég efast um að Boulez sé líklegur til að stjórna Svanavatninu en ef hann gerði það er ég viss um að útkoman yrði býsna áberandi ólík Gergiev.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.11.2013 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband