Enn má hætta við vegagerð um Gálgahraun
7.11.2013 | 10:33
Einn af hinum vinsamlegu gagnrýnendur vegar um Gálgahraun ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Þetta er hann Ómar Ragnarsson, kurteisi eldhuginn sem ann náttúru landsins og vill miðla þekkingu sinni til annarra.
Einhverra hluta vegna bæjarstjórn Garðabæjar og Vegagerðin álíta hann óvin og stórhættulegan mann. Hann er maðurinn sem Vegagerðin lét handtaka eins og ótíndan glæpamann og flytja úr friðsamlegum mótmælum í Gálgahrauni og sekta fyrir óspektir eða óhlýðni við valdstjórnina eins og það heitir.
Ómar hefur mér vitanlega aldrei gert flugu mein, en orð hans hafa áhrif og undan þeim virðist bæjarstjórninni í Garðabæ svíða meira en allt annað. Hún mun ábyggilega reyna að svara grein Ómars, kalla út stórskotaliðið og helst sprengja vetnissprengju til að takmarka skaðann ... eins gáfulegt og það nú er.
Rök sjálfstæðismannsins
Í greininni vitnar Ómar til Ólafs Kr. Guðmundssonar, verkefnisstjóra EuroRAP á Íslandi. Ég hef þekkt Ólaf lengi. Hann er afskaplega mikill fræðimaður, ann náttúru landsins og hefur ákveðnar skoðanir í umhverfisvernd. Í ofanálag er hann Sjálfstæðismaður, og nú síðast höfum við starfað saman ásamt fleira góðu fólki í umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins. Að auki er hann frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor, býður sig fram í 4. sæti (og ég ætla að kjósa hann í það sæti).
Eru þetta rök æsingamanna?
Tökum eftir að margir skynsamir menn hafa lagt margt gott til í rökræðunum um Gálgahraun. Þetta eru engir æsingamenn, ekki frekar en Ómar, Reynir Ingibjartsson, Eiður Svanberg Guðnason og fleiri og fleiri. Bara gott fólk með einlægar skoðanir um verndun umhverfisins. Hvaða rök hefur bæjarstjórn Garðabæjar til að geta hunsað óskir og ábendingar frá góðu fólki? Jú, lítum á það sem Ómar segir í grein sinni í Mogganum í dag:
Ólafur reiknaði út að hvað heildartölu umferðaróhappa snerti er Álftanesvegur númer 22 af 44 sambærilegum vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að 21 vegarkafli er með hærri óhappatíðni.
Skeiðarvogur og Álftanesvegur
Og með hliðsjón af skýrslu Ólafs Kr. Guðmundssonar um slysatíðni á árunum 2007-2011 á vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu í rekstri Vegagerðarinnar, segir Ómar:
Að undanförnu hefur verið stagast á [þeirri] síbylju, nú síðast innanríkisráðherra og bæjarstjórinn í Garðabæ, að vegna umferðarálags og hættulegra aðstæðna sé ekki hægt að notast við núverandi vegarstæði Álftanesvegar og engin leið að endurbæta veginn þar. Hið rétta er að umferðin á dag um veginn er innan við 7 þúsund bílar, en til samanburðar má geta þess að dagleg umferð um Skeiðarvog, sem liggur í gegnum öllu meiri húsaþrengsli og meiri byggð og auk þess með tvo skóla hið næsta sér, er 14 þúsund bílar á dag.
Jú, það kemur fyrir að ráðherra fari með rangt mál, jafnvel sá sem situr í umboði Sjálfstæðisflokksins. Hann er hins vegar ekki undanþeginn gagnrýni og fær hana málefnalega hjá Ólafi og Ómari.
Sáttartillaga Ómars
Það sem vekur undrun mína í öllu þessu máli eru viðbrögð stjórnvalda. Þau einkennast síst af því fornkveðna að sá sé vinur sem til vamms segir. Miklu frekar að sá sem finnur að því sem stjórnvöld aðhafast séu upphlaupsmenn eða stórhættulegt lið með vondar skoðanir sem gera ekkert annað en að skaða lífsmöguleika almennings ... Ekkert er fjarri sannleikanum. Ómar segir í niðurlagi greinar sinnar:
Ég skora á þá, sem að þessu hafa staðið, að staldra við og finna lausn til að bjarga því sem bjargað verður, þrátt fyrir þau spjöll sem þegar hafa verið unnin. Til greina gæti komið að gera leiðina um sjálft hraunið að göngu- og hjólreiðastíg, enda er breidd þess ruðnings, sem nú er kominn, enn aðeins brot af ætlaðri heildarbreidd á helmingi leiðarinnar.
Íslensk stjórnsýsla
Þrátt fyrir óblíða meðhöndlun lögreglunnar og dvöl í fangelsi er Ómari enn vinsamlegur og hann réttir út sáttahönd sem bæjarstjórn Garðabæjar ætti að grípa í feginsamlega. Út á það ætti eiginlega íslensk stjórnsýsla að ganga, að geta séð að sér, geta bakkað með ákvarðanir þegar óskir og ábendingar um betri úrlausnir berast.
Ómar, Ólafur og félagar þeirra eru ekki óvinir bæjarstjórnar Garðabæjar, Vegagerðarinnar eða innanríkisráðherra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.