Grunsamlega fáir jarðskjálftar á landinu
6.11.2013 | 15:00
Mér verður alltaf dálítið órótt þegar ég frétti af því að fáir eða aungvir jarðskjálftar mælast á landinu. Og þannig er það nú ef marka má þessa mynd af jarðskjálftakorti Veðurstofunnar núna klukkan 14:30.
Þarna eru merktir inn fimm jarðskjálftar frá því klukkan þrettán á mánudaginn síðasta.
Tveir þeirra eru á suðurhluta landsins. annar svona miðja vegu á milli Skálafells á Hellisheiði og Raufarhólshellis. Hinn skjálftinn var skammt suðvestan við Hrafntinnusker, það er í áttina að Laufafelli.
Fyrir norðan urðu tveir skjálftar á sama stað sem er skammt vestnorðvestan við Öskju og sá þriðji er í sjó suðaustan við Flatey á Skjálfanda.
Þetta er nú allt og sumt.
Í stuttu máli, ekkert virðist vera að gerast. Kyrrð landsins er grunsamleg.
En lesandi góður, finnur þú ekki kuldahrollinn læðast niður bakið, gæsahúðina myndast og ótta vaxa í huga þér?
Sá draumspaki miðill sem ég vitna oft til er skelfingu lostinn. Hann dreymdi um daginn fyrir stórkostlegum náttúruhamförum og staðsetur þær í Bárðarbungu í Vatnajökli. Þar mun gjósa, segir hann. Og ekki nóg með það heldur mun á sama tíma gjósa við Kleifarvatn, nærri Gullbringu. Þar mun renna hraun allt til sjávar.
Ég held ró minni, þessi ágæti maður hefur aldrei reynst sannspár. Ástæðan fyrir því að ég nefni hann hér er að ég veit ekki um neinn annan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mætti segja mér að svona fáir skjálftar boði fjölgun jarðskálfta.
Emil Hannes Valgeirsson, 6.11.2013 kl. 16:52
Já, allt fram streymir ...
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.11.2013 kl. 16:58
Það mun gjósa, svo mikið er víst, hvar og hvenær? Ekki hugmynd!
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.11.2013 kl. 17:59
Er þetta kannski lognið á undan storminum?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 6.11.2013 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.