Gamlir kommar þekkja engin dæmi um Moggalygi

Á vefnum timarit.is má finna nokkra tugi dæma um orðin „Moggalygi“ eða „Morgunblaðslygi“, en þau eru næstum öll úr Morgunblaðinu sjálfu, þegar það er að væna andstæðinga sína um að gefa frásögnum blaðsins af ástandi mála í Austur-Evrópu þessa einkunn. 

Einhvern veginn hélt maður að öllum vinstri mönnum hefði þrotið örendið eftir hraklega stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar og enginn væri almennilega með meðvitund utan þeir Gnarristar, Píratar og stöku góðmenni úr Bjartri framtíð. Enginn ærlegur vinstri maður hefur gert at eða skotið föstum skotum að Mogganum sem fagnar nú eitthundrað ára afmæli.

Þá rís upp úr móðunni gamli kommónistinn Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, og ritar glettna grein sem hann fær auðvitað birta í Morgunblaðinu. Hvar annars staðar? Í henni puðrar hann dálítið um svokallaða „Moggalygi“ sem hann heldur fram að hafi fyrst og fremst verið notað af þeim Moggamönnum til heimabrúks, eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Hann man satt að segja ekkert um neina „Moggalygi“ sem er náttúrulega ekki boðlegt fyrir heiðarlegan komma.

Etir því sem aldurinn færist yfir verðum við víst flest mildari og síður árásargjörn. Þegar ég var að alast upp á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var daglega efnt til stórkostlegra árása á Morgunblaðið og allt teygt og togað sem þar birtist. Gengu þar fremstir í flokki þeir Þjóðviljamenn enda var blaðið allt næst skemmtilegast aflestrar fyrir þá sem áhuga höfðu á stjórnmálum. Þar störfuðu frábærir pennar eins og Árni Bergmann, Kjartan Ólafsson og birtar voru greinar eftir aðra nagla svo sem Lúðvík Jósefsson, Magnús Kjartansson, Árna Björnsson og fleiri andans menn í socialístískum fræðum.

Það er því miður að grein Árna Björnssonar  um „Moggalygina“ er varla svipur hjá sjón miðað við orðfæri, rök og annað sem hann og félagar hans brúkuðu hér á árum áður. Í það minnsta er skemmtigildið því sem næst ekkert eins. Í niðurlagi greinar Árna er máttlaust herkall.

Það væri því vel þegið í sannleikans nafni ef einhver gæti bent á dæmi um annað en bent var á hér að framan. 

Öldruðum Heimdellingum þykir eiginlega lítið varið í gamla komma ef þeir geta ekki verið hvassari og meinyrtari en þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband