Á hjóli um söguna frá Unni djúpúðgu til Unnar nýskírðu
3.11.2013 | 19:00
Brýrnar yfir Elliðaárósa í Reykjavík eru falleg mannvirki. Þakka skyldi, segir ábyggilega einhver, nóg kostuðu þær. Ég átti þarna leið um í dag. Myndin er svo sem ekkert sérstök, gat ekki stillt mig um annað en að taka hana þó það væri nú bara á iPhone símann minn.
Brá undir mig betri fætinum, raunar fór ég á hjóli úr Fossvoginum og upp í Garðsstaði í Grafarvogi en þar hún Unnur, sonardóttir mín skírð, þó komin væri langt á þriðja árið. Líklega er aldrei of seint að skíra. Margir halda því fram að engan eigi að skýra nema þann sem kominn er til vits og ára en það er nú annað mál.
Raunar var um að ræða tvöfalda skírn. Viktor Bjarki Arnarsson, bróðir hennar Sonju, tengdadóttur minnar, og Álfrún Pálsdóttir, kona hans, skírðu son sinn sem fékk nafn beggja afa sinna, Arnar Páll. Og Unnur mín fékk í leiðinni skvettuna sína eins og mig minnir að presturinn orðaði það í hálfkæringi á eftir.
Unnur mín heitir ekki eftir neinum sérstökum nema ef ske skyldi henni Auði djúpúðgu. Móðir mín sagði að sú hafi ekki heitið Auður heldur Unnur enda sögð svo í því fornriti sem við er ættir rekjum um Dali metum mest, Laxdælu.
Margt fagurt segir af Unni hinni vitru. Hún var af norrænum ættum en var gefin Ólafi hvíta Ingjaldssyni, herkonungi í Dyflinni. Þau áttu saman Þorsteinn hinn rauða sem herjaði á Skota og fékk jafnan sigur eins og segir í Laxdælu. Að því kom að Skotar höfðu áreiðanlega fengið leið á árásum þessa manns að þeir sömdu við hann og gáfu honum konungdæmi á hálfu Skotlandi.
Og svo segir í Laxdælu:
Skotar héldu eigi lengi sættina því að þeir sviku hann í tryggð. Svo segir Ari Þorgilsson hinn fróði um líflát Þorsteins að hann félli á Katanesi.
Og það var með Ólafi syni Þorsteins sem Unnur flúði til Íslands:
Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun. Og er skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.
Hún nam land í Dölum og bjó að Hvammi, geysilega fögrum stað sem eftir það varð um aldir mikið höfðingjasetur.
Móðir mín fæddist að Hof-Akri, litlu býli sem er sunnan í dalnum, og horfir til Hvamms. Hún drakk í sig söguna og hafði alla tíð þá trú að hún væri af írskum uppruna en ekki af norrænum. Samkvæmt Íslendingabók (vefritinu) er það ábyggilega að hluta til rétt því hún er í þrítugasta lið komin af Unni djúpúðgu og Ólafi hinum írska herkonungi. En hvaða Íslendingur er það ekki?
Í Laxdælu segir af andláti Unnar og er það án ef ein sú fegursta frásögn af fráfalli sögupersónu í fornriti. Þar segir:
Síðan gekk Unnur inn í skála og sveit mikil með henni. Og er skálinn var alskipaður fannst mönnum mikið um hversu veisla sú var sköruleg.
Þá mælti Unnur: Björn kveð eg að þessu bróður minn og Helga og aðra frændur vora og vini: Bólstað þenna með slíkum búnaði sem nú megið þér sjá sel eg í hendur Ólafi frænda mínum til eignar og forráða.
Eftir það stóð Unnur upp og kvaðst ganga mundu til þeirrar skemmu sem hún var vön að sofa í, bað að það skyldi hver hafa að skemmtan sem þá væri næst skapi en mungát skyldi skemmta alþýðunni. Svo segja menn að Unnur hafi bæði verið há og þrekleg. Hún gekk hart utar eftir skálanum. Fundust mönnum orð um að konan var enn virðuleg. Drukku menn um kveldið þangað til að mönnum þótti mál að sofa.
En um daginn eftir gekk Ólafur feilan til svefnstofu Unnar frændkonu sinnar. Og er hann kom í stofuna sat Unnur upp við hægindin. Hún var þá önduð. Gekk Ólafur eftir það í skálann og sagði tíðindi þessi. Þótti mönnum mikils um vert hversu Unnur hafði haldið virðingu sinni til dauðadags. Var nú drukkið allt saman, brullaup Ólafs og erfi Unnar. Og hinn síðasta dag boðsins var Unnur flutt til haugs þess er henni var búinn. Hún var lögð í skip í hauginum og mikið fé var í haug lagt með henni. Var eftir það aftur kastaður haugurinn.
Ja, hérna ... Mikið óskaplega er ég kominn langt frá brúnni laglegu sem ég hjólaði framhjá í dag á leið í skírn Unnar, sonardóttur minnar. Þetta gerist oft þegar maður kemst á skrið og enginn segir manni að hætta ...
Myndirnar skýra sig sjálfar. Sú næstefsta er af Hvammi í Dölum. Sú neðast er af krossinum fallega á Krosshólaborg í Hvammsveit. Hann var reistur til minningar um Unni djúpúðgu en sagan segir að þar hafi hún jafnan farið og beðist fyrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.