Verður eldgos austan við Hamarinn í Vatnajökli?
28.10.2013 | 23:47
Tók eftir því að í morgun byrjaði jarðskjálftahrina austan við Hamarinn, sem er fjall vestast í Vatnajökli.
Ekki telst til tíðinda að þar skjálfi. Upptök skjálftanna núna eru raunar mitt á milli Hamarsins og Bárðarbungu og þaðan örskammt í Grímsvötn. Þeir vita sem til þekkja vita að þarna getur allt gerst.
Þetta voru fjórir jarðskjálftar í morgun sem ég var nú ekkert að velt mikið fyrir mér. Sá fyrsti var um hálf sjö í morgun, mánudag, tveir næstu komu á nær nákvæmlega sama tíma, um hádegið og svo hrökk sá síðasti liðinn rétt rúmlega klukkan fimm. sem sagt fjórir skjálftar upp á 1,0, 2,6, 1,4 og 2,0. Geta fjórir skjálftar verið hrina?
Þá var mér litið á óróamælingarnar á Pálsfjalli. Þær voru athyglsiverðar enda mikill hávaði eins og sést hér að ofan. Blá lína er forvitnileg enda neðri hluti grafsins nær alveg blár.
Óróamælingarnar á Grímsfjalli eru einnig miklar og þær sýna lítið minna.
Það sem einna helst vakti undrun mína að mælarnir utan jökuls, í Jökulheimum, Skrokköldu og Vonarskarði segja sáralítið, lítill hávaði á þessum þremur mælum. Hins vegar er miklu mun meiri læti í mælinum við Dyngjujökul. Er þá hringnum lokað í kringum Hamarinn.
Þeir sem vit hafa á ofangreindu átta sig án efa fljótt á þeirri einföldu staðreynd að ég veit ekkert hvað hérna er að gerast. Ég held samt þrjóskur áfram.
Á síðustu myndinni sést hvernig óróamælingarnar voru við upphaf gossins í Eyjafjallajökli. Þá mældist 2-4 Hz tíðnin mikil (blá lína) en um leið og gosið efldist jukust efldust jafnframt lægri tíðnirnar (rauðar og grænar línur).
Og það er einmitt bláa tíðnin sem mælist hvað best núna á Grímsfjalli og Pálsfjalli. Getur einhver fyrirboði falist í þessu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Júlí til Október (líklega) árið 2011 varð þarna röð smágosa undir jökli. Ekkert af þeim náði til yfirborðs en ollu samt jökuflóði og fylltu lón Landsvirkjunar á svæðinu. Ég finn ekki fréttir af þessu í augnablikinu.
Sú virkni hófst alveg án jarðskjálfta, en mánuðina á undan hafði verið talsverð jarðskjálftavirkni á þessu svæði eins og er að gerast núna. Þessa stundina er jarðskjálftavirkni að aukast á svæðinu aftur. Hvort að það mun gjósa þarna aftur veit ég ekki.
Ég skrifaði um þá virkni hérna ásamt myndum af þeim óróa sem þá mældist frá Hamrinum. Þetta var ekki stór eldgos, en eldgos á Íslandi þurfa ekkert alltaf að vera stór.
Jón Frímann Jónsson, 29.10.2013 kl. 00:56
Bestu þakkir fyrir innlitið, Jón Frímann. Alltaf fróðlegt að fá frá þér línu. Ég sá umfjöllunin á jonfr.com í sumar og það vakti athygli mína. Fáir leikmenn þekkja þetta virka svæði og enn færri gera sér grein fyrir því að þarna getur gosið. Að minnsta kosti er ástæða til að fylgjast með þessu svæði.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.10.2013 kl. 09:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.