Nokkrir hraunmolar sem færðir eru úr stað ...

GalgahraunÞetta er fróðleg og vel samin grein af Hirti Guðmundssyni, blaðamanni Morgunblaðsins, eins og hans er von og vísa.

Frá því ég fór að ganga um Gálgahraun fyrir mörgum áratugum minnist ég þess ekki að hafa heyrt örnefnið Garðahraun fyrr en núna í tengslum við veglagninguna. Hins vegar eru ábyggilegar til betri heimildir í örnefnafræðum en ég, hitt er þó nokkuð víst að göngu- og útivistarfólk talar fyrst og fremst um Gálgahraun.

Annars langar mig til að biðja lesendur að líta á meðfylgjandi mynd sem Ragnar Axelsson, hinn ágæti ljósmyndari Morgunblaðsins tók, og birtist með greininni.

Þarna er komið ljótt sár í hraunið. Til eru þeir sem spyrja hvers vegna mikið veður sé gert út af því að nokkrir hraunmolar séu færðir úr stað á landi sem er eiginlega ekkert annað en hraun ... Þegar gamlir og góðir vini spyrja svara ég eitthvað á þessa leið.

Í fyrsta lagi er þetta ekki bara spurning um magn eða fjölda hraunmola heldur viðhorf til lands og landslags. Við eigum að sýn landinu okkar virðingu og haga mannvirkjagerð þannig að ekki valdi óþarfa skemmdum, hvorki fyrir núlifandi kynslóðir né heldur þær sem erfa landið. að öðrum kosti fáum við hrylling eins og best sést á Kolviðarhóli þar sem svokölluð Hellisheiðarvirkjun stendur.

Þeir sem engar áhyggjur hafa af hraunmolunum láta sér ábyggilega örlög Rauðhóla í léttu rúmi liggja sem og annarra gervigíga og eldgíga sem hafa verið fjarlægðir og settir í götur og íbúðagrunna.

Í sannleika sagt er svo afskaplega auðvelt að breyta landinu miðað við þá tæknigetu sem við höfum yfir að ráða. Þar sem tæknin er fyrir hendi er þó enn meiri ástæða til að nota heilbrigða skynsemi.

Í öðru lagi er hér um að ræða afskaplega harða gagnrýni á stjórnvöld og viðhorf þeirra til skoðana sem ganga eitthvað á skjön við þeirra eigin.

Gangi einhver að mér og kalli mig fífl, firrist ég auðvitað við og fer í varnarstöðu. Komi hins vegar einhver að máli við mig og bendi mér á að ég hafi til dæmis ekki farið með rétt mál í pistli eru miklar líkur til þess að ég skoði minn gang.

Í nærri tvo áratugi hafa einstaklingar bent stjórnvöldum á Álftanesi og síðar Garðabæ á að haga mætti skipulagi á Gálgahrauni á annan máta. Vegagerðinni var fullkunnugt um þessar athugasemdir. Viðbrögð þessara aðila voru allöfgakennd. Engu líkar var en einhver hefði kallað þau ónefnum og hótað hryðjuverkum. Þau tóku skynsamlegri gagnrýni sem persónulegar árásir.

Þannig var gagnrýnin ekki meint og síst af öllu fram borin. Viðbrögð bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðarinnar er ámælisverð og alls ekki til eftirbreytni. Þau þurfa að skoða sinn gang. Temja sér að hlusta og fagna gagnrýni.

Í þriðja lagi felst í mótmælunum krafa um að stjórnvöld vandi sig í skipulagsmálum, taki tillit til náttúrulegs landslags, framar öllu hlífi því. Ríkisvald, sveitarstjórnir, stofnanir og fyrirtæki hafa ekki siðferðilegt leyfi til að vaða fram, jafnvel þó þau hafi lýðræðislegt umboð og lagalegan rétt. Þannig er ekki samfélag byggt upp, að minnsta kosti ekki á Íslandi.

Hér skiptir umhverfi og náttúra svo ákaflega miklu og fyrir því er vaxandi skilningur meðal almennings. 

Ég held að spurningin um nokkra hraunmola sem færðir eru úr stað sé eiginlega eins og melgresið í kvæði Jóns Helgasonar, Áfangar:

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl

kemur úr Vonarskarði. 

 

 

 

 


mbl.is Gálgahraun eða Garðahraun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband