95 til 100% húsnæðislán eru nauðsynleg

Þegar upp er staðið er í langflestum tilvikum farsælast að að fólk eigi húsnæði sitt. Vandinn hér á landi eru ósveigjanlegar lánareglur Íbúðalánasjóðs og banka. Annar vandi er sá hversu viðkvæmur húsnæðismarkaðurinn er fyrir breytingum á lánamöguleikum. Hækki þeir er víst að íbúðaverð hækkar nær samstundis. Ábyrgð fasteignasala er líka mikil, Margir halda því fram að vegna stundahagsmuna séu þeir vísir til að meta íbúðir hærra en gæði húsnæðisins standa til. Þá skáka þeir í því skjóli að staðsetningin skipti máli.

Stærstur vandinn er þó þeirra sem leigja, byggja á þeim ótrygga markaði. Ég hef áður skrifað um þessi mál og lagt fram tillögur.

Er sá sem greiðir til dæmis 140-200 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu óhæfur sem íbúðarkaupandi miðað við kröfur Íbúðalánasjóðs og bankanna?

Nei, ekkert endilega. Þúsundir manna þurfa að leigja af því að þeir uppfylla ekki kröfur um eigið fé. Sá sem kaupir íbúð, segjum á 21 milljónir króna, fær venjulega lán fyrir 80% fjárhæðarinnar og þarf þá að vera með 4,2 milljónir í eigið fé.

Margir hafa hrakist út á leigumarkaðinn vegna þess að þeir hafa misst íbúð einhverra hluta vegna og ungt fólk bætist við markaðinn og þarf að kaupa sína fyrstu íbúð. Saðan er hins vegar sú að venjulegt launafólk hefur varla tök á því að gera þetta tvennt í einu, greiða mánaðarlega leigu og spara jafnframt fyrir útborgun í nýrri íbúð.

Lausnin á þessu vandamáli er í sjálfu sér einföld. Gengið er þá út frá því að sá sem borgar leigu að fjárhæð 140-200 þúsund krónur sé tvímælalaust borgunarmaður fyrir samsvarandi húsnæðisláni.

Hugmynd mín er sú að hann fengi tvenns konar lán. Annars vegar hefðbundið húsnæðislán og hins vegar „skammtíma“ húsnæðislán til fjögurra ára.

Lauslegur útreikningur á þessum tvískipta lánaformi gæti litið út eins og hér kemur fram:

  1. Mánaðarleg afborgun af 16,8 milljón króna húsnæðisláni er um 78.000 krónur á mánuði.
  2. Mánaðarleg afborgun af 4,2 milljón króna húsnæðisláni er um 77.000 krónur á mánuði
  3. Niðurstaða en því sú að samtals greiðir lántakinn á fyrstu fjórum árunum 155.000 krónur á mánuði sem í raun og veru er hagstæðari kjör en að leigja á ótryggum markaði.
Nú kann einhver að fullyrða að þetta séu einfaldlega 100% húsnæðislán og þau séu stórhættuleg.
 
Það er vissulega rétt, svo langt sem það nær. Þau eru hins vegar ekki hættuleg. Taka þarf eftirfarandi með í reikninginn:
  1. Íbúðalánasjóður og bankar eiga á fimmta þúsund íbúðir, margar ekki í leigu, liggja undir skemmdum
  2. Húsaleigumarkaðurinn er ótryggur og slæmur kostur fyrir flesta
  3. Þeir sem leigja íbúðir eru yfirleitt traustir greiðendur 
  4. Fæstir geta greitt húsaleigu og sparað um leið fyrir útborgun í íbúð
  5. Sparnaður sem myndast með eignamyndun í eigin húsnæði er sambærilegur við sparnað
Það er svo annað mál hvernig hægt er að fjármagna þessa viðbót við íbúðarlánakerfi ríkisins. Engu að síður eru hagsmunir almennings í þessu miklir. Hagsmunir banka eru hins vegar sáralitlir í þessu nema því aðeins að sá banki sem er í eigu ríkisins ríði á vaðið fyrir hvatningu stjórnvalda.
 
Ég hvet til þess að þessi hugmynd fái málefnalega umfjöllun því hún er góð og myndi koma til móts við hagsmuni þúsunda landsmanna. Útfærsluna á þessum kosti þarf auðvitað að ræða nánar.
 

 


mbl.is Cameron boðar 95% lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Það er gaman að sjá einhvern vera að reyna að hugsa um fjölskyldurnar.

Það er heppilegra að aðilar eigi íbúðirnar.

Ég hef verið að huga að "0" lausninni.

Það er líkt og lausn hægri grænna í kosningunum.

Tómur sjóður + ein setning

Þegar vandamál koma upp með heimilisíbúðina,

eiga allar lausnir að vera fjölskyldunni í vil.

Egilsstaðir. 29.09.2013 Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 29.9.2013 kl. 15:10

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Fyrir mörgum árum fekk fólk aðeins lán  til íbúðarbyggingar þegar húsið var fokhelt. Þannig gat fólk eignast sitt og byggt utan um sig- búið í hluta húss og byggt hitt eftir efnum og ástæðum.

 Það er ekki mönnum bjóðandi í dag- húsið klárað og fullt af húsgögnum- flatskjáum- garður með heitum potti og jeppi auk smábíls.

   I mörgum löndum byggir enginn nytt- en er á öruggum leigumarkaði- fær svo íbúð ættingja seinna . Ef við höldum áfram þessu lántökurugli og óhófs eignaupptöku banka og stofnana stefnir all niður hjá fólki almennt. Það á heldur ekki að líðast að Íbúðalánasjóður drepi fólk með verðbótum og hirði svo hús þess.

Erla Magna Alexandersdóttir, 29.9.2013 kl. 17:42

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þetta er freistandi hugmynd en það verður alltaf að fara varlega t.d. hafa hámark á íbúðarverði.En mér finnst að mætti breyta viðmiðuninni varðandi greiðslumatið því eins og þú segir,hvernig getur fólk leigt íbúðir á 140000(frekar lágt verð í dag) ef það á ekki að geta borgað annað eins í afborganir+fasteignagjöld og tryggingar.Í verðmatinu er gert ráð fyrir mörgum óþarfanum eins og áfengi og tóbak,allt of miklum fatakaupum,áskrift að dagblöðum og sjónvarpi.leikhúsferðum o.fl.Þetta eru allt saman hlutir sem ekki á að gera ráð fyrir.Það vantar sveiganleika.

Jósef Smári Ásmundsson, 29.9.2013 kl. 17:44

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jósef, held að það sé rétt hjá þér að fara varlega og hafa hámark á íbúðarverði. Miða til dæmis við 30 milljónir króna og hafa einnig hliðsjón af fjölskyldustærð.

Erla, alls staðar eru nýbyggingar, það er nú einu sinni eðli fólks að það fjölgar sér ... Hins vegar á að miða við að húsnæðislán séu með lágum vöxtum enda ekki neyslulán í eðli sínu og það á ekki að vera banabiti manns ef hann kaupir sér íbúð, að sjálfsögðu ekki.

Jónas, það er þrennt í þessum heimi sem er mikilvægt einstaklingnum; 1. hann verður að hafa vinnu, 2. geta borgað fyrir mat og aðrar nauðsynjar og 3. hafa þak yfir höfuð sér. Séu þessar grunnþarfir ekki í lagi er þjóðfélagið í tómri vitleysu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.9.2013 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband