Rök að handan gegn húsbyggingu

Oft er talað í neikvæðri merkingu um þá sem eru eiga hagsmuni að gæta, þeir kallaðir orðskrípinu hagsmunaaðilar. Víst er að allt mannkyn er bundið margskonar hagsmunafjötrum, þó ekki væri annað en því að vilja vinna, nærast og sofa.

Ég las um daginn grein í Mogganum eftir Guðrúnu Norðdal þar sem hún bendir á mikilvægi þess að halda áfram byggingu húss íslenskra fræða úti á Melum í Reykjavík.

Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ritar nú grein í Morgunblað dagsins og heldur því fram að tungumálið okkar byggi ekki tilvist sína á þessu húsi og gerir þannig grein Guðrúnar að umtalsefni. Kári gerir eiginlega gott betur og fær Stefán Jónsson, föður sinn, til að styðja við málflutning sinn, en hann virðist vera búinn að lesa grein Guðrúnar, jafnvel þó rúm tuttugu og þrjú ár séu nú frá dauða hans. Kári segir:

Þess vegna las ég með athygli greinina sem Guðrún Nordal birti í Morgunblaðinu á þriðjudaginn þar sem hún benti á að íslenskan sé enginn lúxus heldur málið okkar allra. Ég er hjartanlega sammála henni um það en ég gat ómögulega stokkið með henni þaðan og yfir í mikilvægi þess að reisa nýtt hús yfir stofnun norrænna fræða akkúrat núna í stað þess að nýta það fé sem í það færi til þess að endurreisa íslenskt heilbrigðiskerfi. 

Stefán Jónsson var afskaplega góður penni og frásagnargáfa hans einstök eins og þeir vita sem hlustuðu á hann í lifanda lífi eða hafa lesið bækur hans. Hann vitjaði sonar síns í draumi og sagði í honum meðal annars þetta:

Ég er ekki að leggja til að Stofnun norrænna fræða verði lokað, vegna þess að norræn fræði eru mikilvæg íslenskri menningu og þau eru líka ævintýrilega skemmtileg. Ég er eingöngu að benda á að nú sé varla rétti tíminn til þess að reisa hús yfir þau meðan heilbrigðiskerfið er fjársvelt. Það er nefnilega þannig að þótt tungumálið komi líklega á undan hugsuninni þá er hvorki tungumál né hugsun til án manneskjunnar svo okkur ber fyrst og fremst að hlúa að lífi hennar og líðan. Góð íslenska er töluð af lifandi fólki sem líður vel.

Þeir eru vissulega á einu máli um óbyggða húsið sem setja á ofan í holuna á Melum og ég er sammála þeim feðgum. Forgangsmálin eiga að vera önnur en þau sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á sérstaklega þegar hart er í ári.

Ég er líka viss um að móðir mín væri sammála þessar skoðun feðganna. Hún var mikil íslenskukona og kunni ókjör af ljóðum og vísum og hélt þannig við arfleiðinni, kynnti hana fyrir þeim börnum sínum sem vildu hlusta. Gallinn er bara sá að hún mamma dó fyrir sextán árum og hefur hvorki tjáð sig né veitt viðtöl síðan - hefur þó oft verið brýn nauðsyn að fá álit hennar.

Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll hagsmunaðilar, ekki aðeins læknirinn Kári, heldur einnig ég og þú. Skoðun okkar á heilbrigðiskerfinu og tungumálinu mótast af því að við notum hvort tveggja, höfum af því mikla hagsmuni. Skiptir engu hvort einhver sé læknir og annar sjúklingur, einn sé ræðumaður og hinn hlusti. Þannig er það nú bara. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eins og ég bendi á í gær á fésbókarsíðu minni þá flokkast niðurskurður í aflaheimildum = þriðjungur þess sem var meðaltal þorskafla árin 1950-1970 - undir stórkostlegan árangur í stjórn fiskveiða!

Meira að segja svo lofsverðan árangur að öll heimsbyggðin horfir á agndofa af hrifningu og mállaus af öfund.

Verðum við ekki bráðum svo heppin að ná svipuðum árangri í heilsugæslunni?

Aftur á móti lítur verr út hjá Rússum og Norðmönnum sem veiða í Barentshafinu.

Með því að hunsa allar vísindalegar ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknarráðsins hefur þeim tekist að tífalda þoskaflann þarna á 12 árum.

Þeim gengur seint að læra af okkur þarna fyrir austan.

En kannski hefðum við getað rekið þetta heilbrigðiskerfi okkar með sóma ef stjórnvöld hefðu ekki um áratugaskeið verið samhent í að gera fiskimið þjóðarinnar og mannlífið á landsbyggðinni að félagsmálastofnun fyrir fáeinar auðugustu fjólskyldur þjóðarinnar? 

Árni Gunnarsson, 19.9.2013 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband