Ekkert plást fyrir tilfinningasemi í Excelskjali
10.9.2013 | 08:14
Þá bendir Anna Sif aðspurð á að þótt álykta megi að ýmsar aðgerðir, svo sem frysting lána, endurútreikningur gengisbundinna lána, afskriftir lána, 110% leiðin o.þ.h. hafi haft áhrif komi á móti aukin verðbólga eigna og skulda. Fasteignamat hafi t.d. hækkað um 7,4% 2012 á milli ára.
Þetta segir sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands sem hefur unnið að öflun upplýsinga um eiginfjárstöðu heimila og greint er frá í frétt á bls. 17 í Morgunblaðinu í morgun. Þar skín á milli línanna fögnuður yfir því að neikvætt eigin fé heimila sé að minnka og eftir nokkur ár verði það aftur jákvætt.
Í fögnuðinum láðist sérfræðingnum að greina frá öðrum ástæðum fyrir minnkun á neikvæðu eigin fé. Þetta er auðvitað allt meðaltal en excelskjalið greinir ekki frá gjaldþrotum fólks, uppboðum á heimilum, skilnuðum, yfirtöku banka á íbúðum almennings og hreinlega flóttafólks úr landi. Öllu þessu hefur fylgt gríðarlegur sársauki og kvalir, ekki aðeins skráðra eigenda íbúða heldur fjölskyldna.
Hvað heldur þú, lesandi góðu að gerist þegar fólk verður gjaldþrota, yfirgefur íbúð, fer í leiguhúsnæði og svo framvegis? Jú, alveg rétt. Neikvætt eigið fé heimila minnkað. Fjöldi heimila með neikvætt eigið fé fækkar.
Húrra, húrra ... þetta miðar allt í rétta átt. Þá er betra að spyrja grundvallarspurningarinnar. Hver er kostnaðurinn?
Fátt verður um svör enda kostnaðurinn ekki í krónum eða öðrum gjaldmiðlum. Og svo er ekki pláss fyrir neina andskotans tilfinningasemi í Excelskjölum.
Gleymum þessu ekki enda er þetta ástæðan fyrir því að síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá og verður banabiti þessarar uppfylli hún ekki loforðin í stjórnarsáttmála sínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.