Jarðskjálftar á gönguleiðinni í Hattver ...
4.9.2013 | 14:07
Jarðskjálftar finnast mér einstaklega áhugaverð fyrirbrigði þó ég kunni sáralítil skil á þeim. Í gær skalf jörðin innan öskjunnar sem stundum er kennd við Torfajökul. Á korti Veðurstofunnar virtist sem skjálftarnir röðuðu sér eftir gönguleiðinni frá Landmannalaugum og í Hattver og þaðan áfram upp í Kaldaklofsfjöll. Verð að taka það fram að þetta er afar heillandi gönguleið og yndislega fáfarin.
Þetta má glögglega sjá á kortinu sem hér fylgir. Allt eru þetta nú smáir skjálftar, þó var einn sem var 1,1 og annar sem var 2,6 að stærð. Samkvæmt jarðskjálftatöflu Veðurstofunnar voru skjálftarnir yfirleitt frekar grunnir eða frá 0,1 km og niður í 5,6 km.
Þetta gerist allt á virku eldgosasvæði og er líklega ekki merki um annað en hreyfingar í jarðskorpunni sem verða vegna kviku sem bifast einhvers stapar langt fyrir neðan yfirborð. Mér finnst þetta eiginlega sennilegri skýring en sú að Grýla gamla sé tekin að hreyfa sig og undirbúa að senda jólasveinanna sína til byggða. Ég tek þó fram að hvorug vísindin, jarðfræðin eða jólasveinafræðin, eru mér vel kunn.
Nú hefur Mýrdalsjökull líf færst í Mýrdalsjökul en hvað hann gerir á næstunni er ómögulegt að segja, svo gripið sé til orðfæris jarðfræðinga. Hann gæti gosið á næstu vikum og jafnvel ekki fyrr en eftir tuttugu ár. En hann mun gjósa áður en yfir lýkur, segja þeir fræðingarnir. Undir það má svo sem taka en þó skil ég ekki hvað þeir eiga við með orðfærinu áðr en yfir lýkur. Hverju skyldi nú ljúka eftir að gýs í Mýrdalsjökli? Byggð í landinu eða að Grýla efi upp andann? Spyr sá sem ekkert veit.
Og svo varð lítill skjálfti skammt vestnorðvestan við Heklutind en aðeins 0,4 að stærð. Munum þó að á Heklu er það ekki stærðin sem skiptir máli, hún lætur auðveldlega töfrast og þá kann eitthvað að gerast. Fylgjumst með framvindunni næstu daga. Draumspakur maður sagði mér nebbnilega að Hekla væri til alls vís.
Myndin sem fylgir hér með er tekin í hlíðum Skalla og horft er til Vesturbarms en um hann liggur gönguleiðin í Hattver.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nú skelfur allt - meira að segja Öræfajökull.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2013 kl. 20:06
Ja, hvur ... Austan við Hvannadalshnúk, í sjálfri öskjunni, er einn upp á 1.7 og annar upp á 1,0. Síðan er einn skjálfti í Breiðamerkurjökli, er líklega brestur í sjálfum jöklinum sem er þar eflaust á floti. Að auki annar efst í Breiðamerkurjökli. Og ... Já er er ekki fjör í Vatnajökli?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.9.2013 kl. 23:13
Stundum sér maður jarðskjálftakortið svona, það er eins og allt fari í gang á sama tíma. Kannski er einhver þrýstingbreyting í jarðskorpunni en maður hefur líka velt fyrir sér hvort tunglið hafi áhrif en fullt tungl er núna 5. september. Ef eldstöð er að því komin að gjósa, gæti smávegis þrýstingsmunur gert gæfumuninn?
Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2013 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.