Ópera Gunnars Þórðarsonar fær frábæran dóm
19.8.2013 | 08:30
Án efa vakti það athygli fleiri unnenda klassískrar tónlistar er ópera Gunnars Þórðarsonar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur var frumflutt. Sagt var frá aðdragandanum og frumflutningnum í fjölmiðlum og ég hugsaði með sjálfum mér að best væri nú að bíða eftir krítíkinni frá alvörumönnum í tónlistinni.
Og svo kom gagnrýnin og ég las hana í dag í Mogganum. Ríkarður Ó Pálsson er yfir sig hrifinn og kallar nú ekki allt ömmu sína í tónlistinni. Hann segir meðal annars:
Eitt er að geta samið ógrynni sígrænna dægurlaga (þótt erfiðara sé raunar en margur heldur), annað að færa í sannfærandi tónbúning aðra eins harmræna dramatík og fólgin er í átakanlegri örlagasögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Því meiri er vandinn þegar tónhöfundur bindur trúss sitt við síðrómantískan stíl þar sem alþekktar fyrirmyndir eru á hverju strái og fallgildrur klisjunnar að sama skapi. Ólíkt vanda akademískrar framúrstefnu sem hirðir hvort eð er minnst um aftasta hlekkinn í keðjunni (hlustandann!) í linnulausri leit sinni að »nie erhörte Klänge«. Gætu ugglaust fleiri en Churchill sagt í dag að sjaldan hefur jafnmikið af leiðinlegri músík verið samið af jafnhámenntuðum í óþökk jafnmargra - hvað svo sem annars má segja um margt slípirokk nútímans í fjarveru upplýsts valfrelsis.
Og líður þá að kjarnanum. Að fyrrtöldum fallgildrum lýstum kom það mér nánast í opna skjöldu hvað tónmál Gunnars, og ekki síst hljómaframvindan, vatt sér að virtist áreynslulaust fram hjá flestöllum fyrirsjáanleika. Við og við hugsaði maður með sér: »Ónei! Nú kemur þetta!« En svo kom það ekki - heldur eitthvað annað og betra.
Þvílíkt lof og vonandi ekki skjall. Nú bíður maður eftir því að óperan verði flutt í Hörpu og þá ætla ég ekki að láta bíða eftir mér. Þar mun ég eiga sæti.
Og heillandi frásögn Ríkarðs endar á eftirfarandi:
Æra myndi óstöðugan að reifa öll 43 söngatriði í 2½ klst. langri óperunni. Nægja verður að segja að valinn maður virtist í hverju rúmi. Einsöngvararnir níu sungu einatt af innlifun á allt að hríslandi heimsmælikvarða, ekki síst í aðalhlutverkum Ragnheiðar, Brynjólfs og Daða. Sömuleiðis var söngtært framlag skólapilta, vinnukvenna og sóknarbarna úr röðum Kammerkórs Suðurlands óskorað eyrnayndi; kraftmikið og sveigjanlegt í senn.
Hvergi var sem sagt kastað til höndum. Er því ekkert annað eftir en að hvetja til sómasamlegrar sviðsuppfærslu á óperunni sem allra fyrst!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hlakka til að heyra þessa óperu. Og það er afrek að semja svona verk.
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2013 kl. 15:20
Gaman að þessu en einhvernveginn hef ég aldrei kunnað við óperurnar.Sennilega er ég bara svona matvandur á klassíska tónlist.Kann best við sinfóníurnar og Brahms er í algjöru uppáhaldi.Gunnar er góður lagahöfundur en Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla finnst mér ívið betri og væri gaman að heyra metnaðarfulla klassík frá þeim.
Jósef Smári Ásmundsson, 19.8.2013 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.