Gísli Marteinn með hendur í vösum ...
16.8.2013 | 08:38
Sá höfgi sem hefur verið á borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár var rofinn í Morgunblaðinu í morgun. Þar skrifaði Gísli Marteinn Baldursson grein um útsvarið og ætlast til þess væntanlega að loforð um lækkun skatta hilli okkur borgarbúa þar sem prófkjör vegna kosninganna á næsta ári er framundan.
Gísli er hinn mætasti maður en það breytir því ekki að hann og flestir borgarfulltrúar flokksins hafa ekki staðið í stykkinu í borgarmálapólitíkinni. Staðan þar hefur verið sú að staða borgarstjóra er nú ekki nema nafnið tómt, verkefni hans hafa verið útvistuð til embættismanna borgarinnar og reynslulausir borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar hafa verið í vinsældaleik og ekki sinnt þeim verkefnum sem þeim ber.
Á meðan hefur borgarstjórnarflokkurinn verið gjörsamlega hlutlaus og fátt lagt til málanna sem gagn hefur verið að. Gísli Marteinn hefur snúist og styður nú að miklu leyti nýtt aðalskipulag sem meirihlutinn hefur unnið að, hann er á móti Reykjavíkurflugvelli og fleira mætti til taka.
Forystuleysi meirihlutans, aðgerðarleysi hans og úrræðaleysi hefur smitast yfir í borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Í stað þess að standa fyrir harðri stjórnarandstöðu innan borgarinnar hefur hann orðið linur og vesæll, ekkert ber á honum. Fréttaflutningur fjölmiðla af borgarstjórn miðast nú eingöngu við uppátektir mannsins sem skráður er sem borgarstjóri og koma borgarmálum alls ekkert við. Á meðan stendur borgarstjórnarflokkurinn álengdar, með einni eða tveimur undantekningum, og horfir á vitleysuna með hendur í vösum.
Gísli Marteinn! Ein blaðagrein um lækkun útsvars breytir hér engu. Miðað við stöðu borgarsjóðs er mér til efs að lækkun skatta sé forgangsatriði. Detta þér engin önnur úrræði í hug?
Hvað með atvinnuleysið í borginni, flótta fyrirtækja úr henni eða njólann og aðra órækt í augum og eyrum borgarstjórnar? Hvað með hringlandaháttinn í Orkuveitunni, hvað með okkur borgarbúa, hvað með gamla Sjálfstæðishúsið og Nasa, hvað með gömlu húsin í borginni sem fá að grotna niður, hvað með eyðileggingu á öllu því sem okkur er kært og niðurrif. Hvers vegna á miðbærinn að vera fyrir útlenda ferðamenn? Hvar er menningin fyrir borgarbúa? Hvers vegna er ekkert gert í stærstu útivistarsvæðunum. Af hverju er ekkert gert vegna gönguleiða á Esjunni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Því miður eru borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna grútmáttlausir. GM lýsir því yfir að hann sinni SÍNUM hjartansmálum.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.8.2013 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.