Áróðurinn gegn íslenska sumrinu
12.7.2013 | 14:27
Sífellt dynur á okkur áróður gegn íslenska sumrinu. Blaða- og fréttamenn þreytast ekki á því í gúrkutíðinni að reyna að telja almenningi trú um að hér geysi rigningarsumar, ómögulegt að vera hér, betra sé að fara til útlanda.
Blaðamaður mbl.is heldur því fram að Íslendingar séu veðurbarðir og þá dreymi um ferðir til Evrópu. Þetta er heimskuleg alhæfing og því ósönn.
Veðrið hér á landi er hvorki verra né betra en það hefur alltaf verið. Hér rignir, sem betur fer. Ef ekki væri hér líklega óbúandi. Við njótum alls og höfum það afar gott.
Íslenskt sumar er það fegursta og besta sem fyrirfinnst. Engu skiptir það þó rigni eða sólin skíni. Sumarið er bæði kraftmikið og stórkostlegt í senn. Rigningin hefur bara góð áhrif á gróðurinn og skaðar ekki landið á neinn hátt, þvert á móti.
Hið aumlegasta sem til eru hlýtur að vera veðurfarslegir flóttamenn frá Íslandi í einhverju Evrópulandi. Landið okkar er stórt, nægilega stórt til að einhvers staðar skín sól.
Íslenskt sumar er betra en fólk gerir sér grein fyrir. Látum ekki skrökva því að okkur að rigning sé vond eða að rigningasumar sé vont sumar.
Veðurbarða Íslendinga dreymir um Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Satt mælir Sigurður. Fólk man t.d. varla lengur hvernig almennilegur regngalli er. Ég fór út í garð í fyrradag og sló með sláttuorfi í húðarrigningu í hollenskum hermanna- regngalla og naut þess vel. Vissi þá líka að þegar sólin kæmi, þá nyti ég og aðrir hennar án sláttuláta.
Litir í íslenskri náttúru koma svo sterkir út í regni, sérstaklega í skúrum. Mosinn verður t.d. dimmgrænn og svartur almennilega hrafntinnusvartur. Jónum hlaðið rigningarloftið er öllu betra fyrir öndunina heldur en flugbeitt eldfjallaaska ofan í lungun. Klæðum okkur bara rétt og sjáumst á fjöllum!
Ívar Pálsson, 12.7.2013 kl. 15:10
Mæl þú manna heilastur, Ívar.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.7.2013 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.