Með allt á hreinu á Netflix
12.7.2013 | 11:32
Ég er af þeirri kynslóð sem ólst upp lestur, mikinn lestur og við það vaknaði áhugi á sögum og ekki síður sögumanninum eða þeim sem segja. Hluti af því er auðvitað hin myndræna frásögn, hvort heldur er í teikningum, málverkum, ljósmyndum eða í bíóum og sjónvarpi. Góð saga er oft gulli betri, góð bók er meira virði en flest annað. Frásagnarlistin er ekki öllum gefin.
Ég les enn mjög mikið, eiginlega of mikið. Hillur fyllast af bókum, mismunandi merkilegum, og tölvan fyllist af eigin myndum, flestum lélegum. En það er þetta með sögurnar sem settar eru í myndrænt form. Segja má að maður sé áhugamaður um bíó og sjónvarp.
Stundum rekur á fjörur okkar áhugamanna um góðar sögur efni í sjónvarpi eins og The House of Cards sem nú er verið að sýna í Ríkissjónvarpinu. Þetta er bandarísk endurgerð samnefndri þáttaröð BBC og sýnd var hér fyrir mörgum árum. Þar lék Ian Richardsson aðalhlutverkið en Kevin Speacy í þeirri bandarísku.
Á mánudagskvöldum reynir maður að muna eftir því að setja sig í stellingar og gætt þess að missa ekki af neinum þætti af þessari áhugaverðu sjónvarpsþáttaröð um stjórnmálin, klækina og refina í Washington.
Sem betur fer er það orðið svo að nú skiptir litlu þó maður missi úr þátt í einhverri seríunni. Hann má sjá klukkutíma síðar eða innan sólarhringsins. Ekki nóg með það. Nú eru sjónvarpsstöðvarnar eiginlega orðnar úrelta hvað útlendar sjóvarpsmyndir og bíómyndir varðar. Ástæðan er einfaldlega sú að tölvutæknin hefur breytt fjölvarpinu. Þó maður missi af einhverjum áhugaverðum útlendum þáttum í sjónvarpinu er hægtað sækja þá með lítilli fyrirhöfn.
Um daginn gerðist ég áskrifandi að veitu sem nefnist Netflix. Fyrir tæpar eitt þúsund krónur á mánuði get ég sótt alla þá þætti og bíómyndir sem mig lystir. Í gær gat ég til dæmis horft á þá tvo þætti af The House of Cards sem enn eru ósýndir hjá Ríkissjónvarpinu. Ekki ætla ég að rekja efni þessara tveggja þátta en hinn spillti Underwood fulltrúardeildarþingmaður hefur metnað til hárra metorða og vílar ekkert fyrir sér. Þar að auki get ég horft á ensku þættina með saman nafni eða valið álíka þætti.
Netflix er déskoti sniðugt apparat, ódýrt og hagkvæmt. Sama er með iTunes, þar er hægt að fá nýlegri myndir á leigu og er þá greitt fyrir leigu á hverri mynd fyrir sig.
Er bara ekki kominn tími til að hætta með áskrift að Ríkissjónvarpinu? ... úbbs ... nú man ég, einhver gerði mig að áskrifanda að rúffinu að mér forspurðum og áskriftargjaldið greiði ég með sköttunum mínum. Þetta er hvorki sniðugt né ódýrt apparat.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.