Lögreglan á að sjá muninn á vonda liðinu og okkur hinum

Í lögreglunni 1977

Fyrir langalöngu var ég tvö sumur í lögreglunni. Lærði þar marga góða siði og kynntist mörgum frábærum lögreglumönnum sem ég bar og ber enn afskaplega mikla virðingu fyrir sökum mannkosta þeirra.

Okkur nýliðunum var kennt að bera virðingu fyrir fólki. Lögð var mikil áhersla á að einkennisbúningurinn gæfi engan rétt til að beita ofbeldi. Okkur var iðulega bent á að oftast væru fortölur miklu vænlegri til árangurs heldur en hávaði og læti eða kylfan í vasanum. Og ég sá oft og mörgum sinnum að þetta var rétt. Eins og fyrir kraftaverk hjaðnaði offors og læti og illviðráðanlegt fólk tók sönsum.

„Komdu nú aðeins með mér,“ sögðu oft reyndir lögreglumenn við þann sem var í æstu skap yfir meintum misgjörðum. Og viðkomandi var teymdur til hliðar eða inn í lögreglubíl og fékk þar að tjá sig og lögreglumaður hlustaði rólegur. Oft þurfti ekki meira til en vingjarnleg eyru og sá með lætin, offorsið og hefndarhugann fór sáttur.

Bjarki í Löggunni

Auðvitað sá maður oft hina hliðina. Snælduvitlaust fólk sem setti sjálft sig og aðra í stórhættur með bægslagangi og látum. Okkur var uppálagt að taka þannig fólk hratt úr umferð en umfram allt reyna eins og kostur var að meiða það ekki.

Margoft þurfti að beita hörðu, þrjá eða fjóra lögreglumenn þurfti iðulega til að leggja einn mann. Nærstaddir áttu þá til að hneykslast og finnast ósanngjarnt að þrír væru að handsama einn mann. Það var rétt eins og að handtaka ætti að vera maður á mann og yrði lögreglumaðurinn undir væri það bara sjálfsagt og eðlilegt. Nei, þannig var og er ekki litið á málin. 

Drukkið fólk getur verið til vandræða. Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að ölvuð kona sem slangrar í veg fyrir lögreglubíl og varnar honum veginn sé eitthvað annað en meinlaus borgari sem kann hvorki fótum sínum forráð né er ábyrg fyrir gerðum sínum. Auðvitað eiga lögreglumenn í slíkum tilvikum að fara út úr bílnum og reyna með fortölum að fá konuna til að koma sér heim eða aka henni, rétt eins og við gerðum oft í gamla daga.

Það er hins vegar út í hött að meðhöndla konuna eins og vopnaðan stórglæpamann, jafnvel þó hún hafi asnast til að hrækja inn um gluggann hjá ökumanninum. Þá skiptir svo óskaplega miklu að lögreglumaðurinn sé í góðu andlegu jafnvægi og taki á málinu í samræmi við brotið en geri ekki illt verra.

Hinn almenni borgari getur gert ýmislegt af sér, hvort heldur hann er drukkinn eða ekki. Lögreglan á þá að vera leiðbeinandi og hjálpsöm.

Það er sú einfalda krafa sem við, almenningur í landinu, gerum til hennar. Lögreglan á að gera greinarmun á vonda liðinu og okkur hinum, jafnvel þegar illa stendur á hjá okkur. 


mbl.is Meingallað handtökukerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er ekki eins og það hafi stafað nein sérstök ógn af þessari konu.

Ef eitthvað er þá var það frekar lögreglan sem ögraði henni.

Hún var auðvitað fyrir bílnum þeirra.

En var þetta ekki á þeim hluta götunnar sem er núna lokaður fyrir umferð ökutækja og hafður sem göngugata yfir sumarið? Eða eitthvað... (Go Gnarr!)

Hún hefði auðvitað átt að vera röskari að færa sig, það er rétt.

En sökum ölvunar voru viðbrögðin afar sljó.

Svo sljó að sex ára krakki hefði getað yfirbugað hana án meiðsla.

Ef hún er á lista yfir hættulega glæpamenn hefur það ekki komið fram.

Legg til að lögreglan einbeiti sér að þeim sem gætu átt heima á slíkum lista.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.7.2013 kl. 23:19

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já, Sigurður. Þetta er átakanlegt ofbeldis-myndband.

Karlmenn eru líkamlega sterkari en konur, (sama hvað allir femínistar segja).

Það er skömm að svona ofbeldis-meðferð lögreglunnar á minnimáttar og illa staddri konu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.7.2013 kl. 23:28

3 Smámynd: Sandy

Ég er sammála því að þessi handtaka var full harkaleg eftir myndbandinu að dæma miðað við líkamsburði,hinsvegar ef það er rétt að konan hafi hrækt framan í lögreglumanninn er það þvílík óvirðing að ég er ekki viss um að ég hefði getað haldið skapi mínu,ég er á því að ég hefði líka rokið út úr bílnum. Mér finnst komin tími til að fólk fari að læra að bera virðingu fyrir öðru fólki hvort sem það er lögreglan eða einhver annar í samfélaginu. En verði lögreglan uppvís að því að beita ósanngjarni og ofbeldisfullri handtöku eða brjóti lögin, á hún að svara fyrir það samkvæmt lögum og reglu.

Sandy, 11.7.2013 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband