Eigum við að hætta öllu vegna manns sem braut lög?

Með því að veita þeim ágæta manni Edward Snowden landvist og jafnvel ríkisborgararétt hér á landi köllum við yfir okkur reiði Bandaríkjamanna og líklegast fleiri vestrænna ríkja. Þessu kunna að fylgja viðskiptaþvinganir og líklega enn frekari óáran sem við ráðum ekkert við.

Spurningin sem þjóðin þarf að svara er einfaldlega sú hvort það sé þess virði að hætta stöðu okkar og utanríkisviðskiptum vegna manns sem okkur er algjörlega vandalaus og við berum ekki nokkra einustu ábyrgð á.

Nú þegar eru hér stundaðar hvalveiðar sem vakið hafa reiði alþjóðasamfélagsins. Þó þessi mál séu ekki samanburðarhæf, þá er það kristalstært að við sem þjóð höfum hvorki burði, getu né áhrif til að spyrna við fótum verði á okkur ráðist með þvingunum af ýmsu tagi. Skiptir þá engu hvort þær eru vegna útlendings sem brotið hefur lög í heimalandi sínu og hefur hlaupist í sjálfskipaða útlegð eða hvalveiða sem stundaðar eru hér á landi.

Þó ég hafi hina mestu samúð með málstað Edward Snowdens finnst mér ekki koma til greina að íslenska ríkið komi honum til aðstoðar. Þessu fylgir alltof mikil áhætta fyrir þjóðina. Mál Snowdens verður ekki til lykta leitt nema í Bandaríkjunum.

 


mbl.is Ekkert útilokað með Snowden og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óttalega finnst mér það bera vott um mikla einfeldni að fela sig á bakvið það að maðurinn hafi hugsanlega brotið lög í heimalandinu..

Þú ert kannski þeirrar skoðunar að heimurinn væri betri staður ef menn hefðu aldrei verið tilbúnir að brjóta lög til þess að berjast gegn óréttlæti eða mannréttindabrotum?

Þú veist, svona fólk eins og t.d. Gandhi og Rosa Parks..

Og þetta með að styggja ekki Bandaríkjamenn er alveg hreint ömurleg afsökun, það var ágætt að það voru minni gungur á Alþingi þegar við viðurkenndum t.d. sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna - Svo voru það nú þínir menn sem útveguðu Bandaríska landráðamanninum Bobby Fischer ríkisborgararétt

Hræsnin hjá mörgum í þessum máli er meira en yfirþyrmandi.. hún er hreinlega lamandi

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 14:43

2 identicon

Svo er ágætt að hafa það hugfast að svo lengi sem t.d. íslendingar haldi mórölsku "high ground" í þessu máli þá yrði afsaklega erfitt fyrir BNA menn að beita okkur einhverjum þvingunum, ekki hjá öðrum þjóðum og svo sannarlega ekki heima fyrir - þeir hafa afskaplega lítinn stuðning þar, og í Bandaríkjunum hugsa menn í atkvæðum.

En líklega munu gungur íslands vinna sigur í þessu máli, skömmin verður þá líka þeirra það sem eftir verður - menn ættu kannski að rifja upp eitthvað af íslendingasögunum - það fer yfirleitt illa fyrir heyglum í þeim sögum. Í því fellst boðskapur, boðskapur þjóðar sem á að þora - en er nú því miður stjórnað af mönnum sem gera það ekki.

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 14:49

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þessi athugasemd sýnist mér ekki gott upphaf að uppbyggilegum skoðanaskiptum og leiði hana því hjá mér.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.7.2013 kl. 14:49

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Og ekki bætir sú seinn úr skák.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.7.2013 kl. 14:50

5 identicon

Það er voðalega lítið hægt að hafa málefnalegar umræður um efnið þegar meginröksemdin er sú að viðkomandi hafi brotið lög í heimalandinu. Það eru allir sammála um að það hafi hann gert..

Eru það heldur ekki svaravert að benda á afgreiðslu þinna manna á landráðamanninum Fischer?

En já, það er ákaflega auðvelt að sleppa því bara að svara gagnrýni

Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 9.7.2013 kl. 14:58

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú ert nú frekar fyrir leiðindin en uppbyggileg skoðanaskipti og blessaður góði, farðu nú að hætta að lesa þessa pistla mína, þeir gera þér bara gramt í geði.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.7.2013 kl. 15:04

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Snowden ætti auðvitað að gera út um málið í sínu heimalandi í staðinn fyrir að leggja á flótta.

Það má vel vera að athafnir Snowdens hafi brotið lög - eða undirritaða trúnaðarsamninga í starfi, en ef  hann getur á móti sannað að ríkisvaldið hafi farið offari í eftirliti og sjálft brotið lög, þá verður enginn skortur á stuðningi við Snowden heima fyrir. 

Svo er hún að verða svolítið þreytt samanburðarklisjan um Fischer.  Hann braut aðeins viðskiptabann USA með því að tefla skák í forboðnu Evrópulandi.  Líklega hafa menn þar vestra verið því fegnastir að íslendingar hjuggu á þann hnút.

Kolbrún Hilmars, 9.7.2013 kl. 15:26

8 Smámynd: Hjörtur Herbertsson

Mál Snowden verður ekki til lykta leitt nema í Bandaríkjunum segirðu Sigurður. Ef svo fer þá verður hann annað hvort dæmdur til dauða, eða í ævilangt fangelsi. En afskaplega ertu sár yfir því að menn segi skoðun sína, sem ekki passar við þínar skoðanir. Staðreyndin er bara sú eins og JBS bendir á, að BF braut lög í Bandaríkjunum, og það var þinn flokkur sem sá til þess að hann komst hingað, og fékk svo íslenskan ríkisborgararétt, sem ég tel hið besta mál. Því getum við ekki gert eins við Snowden?

Hjörtur Herbertsson, 9.7.2013 kl. 15:28

9 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hvers vegna var Julian Assange ekki boðin samskonar vernd á Íslandi?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.7.2013 kl. 15:45

10 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Hjörtur, Ég er ekki sár yfir „sár yfir því að menn segi skoðun sína, sem ekki passar við þínar skoðanir“, síst af öllu. Ég legg meir upp úr uppbyggilegum skoðanaskiptum en einhverjum leiðinlegum kommentum sem vonlaust er að svara skikkanlega. Ég ber svo enga ábyrgð á gjörðum fólks út í bæ, hvorki þeim sem eru í sama stjórnmálaflokki, trúfélagi, fótboltafélagi, gönguklúbbi eða eru af sama kyni. Ég leyfi mér að hafa mína eigin skoðun og sækist ekkert endilega eftir almennri viðurkenningu á þeim.

Kolbrún Hilmars svarar þessu með Fischer alveg ágætlega. Og svo er málið ekki þannig að Snowden sé algjörlega stuðningslaus í Bandaríkjunum, síður en svo. Þar er gríðarlegur stuðningur fyrir gjörðum hans og það er vel.

Það eina sem ég segi er að áhættan við að taka við Snowden hér er svo gríðarleg og afleiðingarnar geta verið hrikalega að það hreinlega borgar sig ekki að skipta sér af málinu á þann hátt. Og hvað með Assange eins og Anna Sigríður nefnir - og fjölda annarra?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.7.2013 kl. 16:37

11 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk Sigurður.

Ég hef hingað til stutt Julian Assange (eins og mín tilfinning segir mér að sé rétt), og ekki hefur komið nokkur tillaga um að veita honum pólitískt hæli á Íslandi!?

Hvers vegna ekki?

Ég er ekki hrædd við að styðja mínar skoðanir, þótt þær passi ekki valdaklíkunum, og þrátt fyrir að það hefur hingað til kostað mig og aðra mörg sár og tár, að vera ég sjálf öll þessi ár.

Baráttan fyrir réttlæti er ekki, og verður ekki sársaukalaus! 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.7.2013 kl. 17:55

12 Smámynd: rhansen

Svona mál sem verða oft að illvigum millirikja deilum er bara ekkert fyrir Island að skipta ser af ..U.S.A gæti einfaldlega afgirt okkur umheiminum fyrir afskipti af sliku og það vita auðvitað Stjónvöld ..Þetta er ekkert elsku dregurinn ,knús á þig ,...grafalvarleg mál sem  snuast ekki um manngæsku ..heldur hrottaskap og illsku sem við þekkjum ekki inna !...En málið er guði se lof leyst og maðurinn virðist buin að fá hæli ..og vonandi reynist það öllum vel ...

rhansen, 9.7.2013 kl. 19:11

13 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ef við stöndum ekki vörð um sannleika, réttlæti og frelsi, hvað verður þá um okkur? Hvað erum við?

Hitler braut engin lög í Þýzkalandi. Hvað um þá sem brutu lög nasista og börðust gegn þeirra villimennsku? Mátti ekki koma þeim til hjálpar? Átti bara að segja þeim að mál þeirra yrðu ekki til lykta leidd nema í Þýzkalandi?

Það fylgir því ekki mikil áhætta að standa með frelsi og réttlæti. Það felur hins vegar í sér mikla áhætta "fyrir þjóðina" að vinna með myrkra öflum kúgunar og lyga. Það tekur því ekki að standa vörð um þess konar þjóð.

Það hafa margir það sjónarmið að $ sé góður, sama hversu skítugur hann kann að vera. Því sjónarmiði er ég ekki sammála. Það eru til gildi sem sem eru ofar en peningar.

Hörður Þórðarson, 9.7.2013 kl. 20:25

14 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Bökuðum við okkur reiði „stóra bróðurs“ þegar Róbert Fischer var leystur úr haldi í Japan þar sem hann mátti sæta illri meðferð?

Fyrir mér eru mannréttindi mikilsverðari en að lúta í duftið fyrir einhverri hernaðarþjóð sem telur sig vera í hlutverki einhverrar allsherjar löggu.

Guðjón Sigþór Jensson, 9.7.2013 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband